Arnór Alex Ágústsson fæddist í Reykjavík 12. mars 2003. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 2. júní 2009 eftir harða og hetjulega baráttu við hvítblæði sem greindist í febrúar síðastliðnum. Foreldrar hans eru Sigurbjörn Ágúst Ágústsson f. 25. júlí 1972 og Hjördís Björk Þórarinsdóttir f. 7. mars 1972. Systir Arnórs er Silja Rut Tómasdóttir f. 15. febrúar 1996. Foreldrar Sigurbjörns eru Ágúst Guðjónsson f. 20. mars 1943 og Ragnheiður Ágústsdóttir f. 21. desember 1948. Systikini Sigurbjörns eru 1) Jón Viðar Ágústsson f. 25. júní 1977, í sambúð með Grétu Maríu Grétarsdóttur f. 13. ágúst 1980 og saman eiga þau Daða Berg Jónsson f. 11. júní 2006. 2) Lára Björg Ágústsdóttir f. 21. mars 1979. Samfeðra eru þær 3) Ólína Ágústsdóttir f. 24. janúar 1960 og 4) Margrét Ágústsdóttir f. 31. janúar 1961. Foreldrar Hjördísar eru Þórarinn Böðvarsson f. 3. apríl 1950 og Sigrún Ögmundsdóttir f. 12. apríl 1952. Systkini Hjördísar eru 1) Þórarinn Böðvar Þórarinsson f. 15. apríl 1975. 2) Hildur Björk Þórarinsdóttir f. 18. apríl 1981, í sambúð með Einari Karli Þórhallssyni f. 19. apríl 1980. 3) Þórunn Þórarinsdóttir f. 28. desember 1984, í sambúð með Kristmundi Guðmundssyni f. 13. júlí 1981 og saman eiga þau Úlfar Kristmundsson f. 27. nóvermber 2008. Arnór Alex ólst upp í Hafnarfirði og var á leikskólanum Norðurbergi. Útför Arnórs Alex fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.


Okkar ástkæri Arnór Alex er látinn. Hann Arnór okkar háði harða baráttu fyrir lífi sínu og stóð sú barátta í þrjá mánuði. Það voru ótal sigrar sem hann vann á þessu tímabili og svo komu líka skref til baka. Við stórfjölskyldan trúðum því alltaf að hann kæmist í mark að lokum, annað væri ekki hægt. En svo varð því miður ekki niðurstaðan. Æðri máttarvöld tóku í taumana, opnuðu Gullna hliðið upp á gátt og strengdu línu sem hann svo sleit undir morgun þann 2. júní og var honum fagnað þar sem sigurvegara. Hann Arnór okkar á eflaust að fá þar stórt verkefni nú á næstu dögum.

Það er nánast óbærilegt fyrir okkur að setjast niður og skrifa um litla drenginn okkar en við ætlum hér að stikla á stóru. Arnór okkar náði því að verða 6 ára sem er nú ekki hár aldur en hann skilur eftir sig ótrúlega margar og góðar minningar. Hann var oft kallaður sáttasemjarinn eða friðarpostullinn. Ef foreldrarnir ætluðu að ávíta Silju systur þá var Arnór kominn til að verja hana vel og vandlega.

Þegar ég, afi Þórarinn, fékk það hlutverk að fara með Arnór Alex í leikskólann hans, Norðurberg, þá tók ég stóran hring um Hafnarfjörð og fór að segja honum frá hinum ýmsu stöðum. Eftir að Arnór hafði hlustað lengi á mig var hann farinn að ókyrrast, og spyr mig hvaða leið ég sé að fara - hann sé að verða of seinn í leikskólann. Ég svara honum að þetta sé stysta leiðin í leikskólann. Arnór var nú ekki alveg sammála og sagði að mamma sín væri miklu fljótari og færi aðra leið. Ég fékk þá lánaða setningu úr Dýrunum í Hálsaskógi og sagði: "Hún mamma þín er rugludallur og ratar ekkert um Hafnarfjörð. Arnór varð alveg hneykslaður á afa sínum og svaraði höstugur: "Heyrðu afi, hún mamma mín er dóttir þín og maður talar ekki svona um börnin sín". Hann kunni ekki að meta svona aulahúmor. Þegar ég var svo loks kominn að leikskólanum lagði ég nokkuð frjálslega í stæði og tók um tvö stæði fyrir bílinn. Þegar Arnór steig út úr bílnum og sá þessi ósköp sagði hann í ávítunartón: "Hann pabbi minn leggur ekki svona í stæði!".

Ferðirnar til ömmu og afa í sumarbústaðinn voru nokkrar og allar eftirminnilegar. Þegar Arnór var þriggja ára fórum við í gönguferð á mjög skemmtilegan og fallegan stað. Þar hentum við grjóti í ána, og varð Arnór mjög upp með sér yfir þessari uppgötvun. Hann henti bæði litlum og stórum steinum og bætti árangurinn í hverju kasti. Það sem eftir lifði helgarinnar varð ég að vakta strákinn því að grjótkastið sem afi kenndi stráknum stóð í allar áttir, en það fór nú allt vel að lokum.

Um síðustu verslunarmannahelgi kom öll stórfjölskyldan til okkar í sveitina og vorum við þar í góðu yfirlæti þegar við afi og amma vorum að farin að huga að matargerðinni, afi að grilla og amma ataðist í öllu hinu tilstandinu. Þá sjáum við hvar Arnór kemur með heimasætuna úr næsta bústað og leiðast þau þarna fram og aftur og voru ósköp sæt. Arnór kemur til ömmu sinnar og spyr hvort þau megi ekki borða saman, og fara síðan í pottinn á eftir. Það var að sjálfsögðu samþykkt með ánægju. Var það mjög ánægjulegt að sjá hvað Arnór var mikill herramaður í sér. Arnór okkar hefur trúlega vitað að hann þyrfti að lifa hratt og ljúka ákveðnum hlutum.

Til marks um það hversu yfirvegaður hann Arnór var er hér ein dæmisaga. Litla fjölskyldan, Hjördís, Gússi, Silja og Arnór voru að fara á sólarströnd. Pabbi Gússi, eins og Arnór kallaði hann oft, var búinn að fara mörgum orðum um hvað þetta væri allt glæsilegt og var að búa til spenning í strákinn. Svo þegar lent var ytra var Gússi með mikil fagnaðarlæti og sagði við erum komnir og ýtti við Arnóri í fögnuði. Arnór sat alveg sallarólegur og leit á pabba sinn samúðarfullur og taldi að nú væri pabbi alveg farinn á límingunum og sagði: "Róaðu þig maður, slappaðu af".

Arnór var strax mjög músíkalskur og var trúlega rétt um eins árs aldurinn þegar hann var farinn að slá taktinn í laginu We will rock you og dilla sér í takt við hljómfallið. Svo síðar þegar hann var farinn að tala þá söng hann með. Arnór var rúmlega tveggja ára þegar hann þekkti allar bílategundirnar, hann var samt ekki með neina bíladellu heldur hafði hann svo gott sjónminni. Honum fannst bara að allir ættu að þekkja þessa bíla. Þegar Arnór varð þriggja ára vaknaði hjá honum mikill áhugi fyrir risaeðlum og eignaðist hann margar slíkar sem og margar bækur um þetta efni. Svo fróður var hann um risaeðlurnar að ómögulegt var að reka hann á gat í þeim efnum.
Þegar Arnór var orðinn fjögurra ára bættist við nýtt áhugamál. Það voru tölvuleikirnir og þar var hann á heimavelli. Arnór hafði þá trú að hann gæti kennt afa þessar listir en sá fjótt að það var vonlaust verk, og bað mig bara að fylgjast með sér. Því fylgdu alltaf fagnaðarlæti, ekki síst þegar sá stutti var kominn í nýtt borð. Ég hef aldrei séð þetta fyrr en þegar ég fór að lesa aftan á hulstrið á tölvuleiknum og sá að hann var fyrir 12-16 ára skildi ég af hverju ég hafði ekki möguleika.

Allt frá því að hann Arnór okkar greinist með hvítblæði, þá hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeirri samheldni foreldranna um að gæta litla drengsins, þau fengu líka ómetanlegan stuðning frá sínum systkinum, mágkonum og mágum, að ömmum og öfum ógleymdum. Úlfar litli 6 mánaða sá um að kalla fram bros hjá öllum í þessum erfiðu aðstæðum. Arnór minn reyndi líka að teygja sig til hans, og það veitti honum mikla gleði að sjá hann.

Við afi og amma viljum færa kærar þakkir til starfsfólks gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut fyrir ómetanlegt og fórnfúst starf. Það gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að gera honum lífið bærilegt, kom með myndir af dýrunum sínum og sagði honum sögur af þeim, jafnvel þó vinnudegi væri lokið. Einnig viljum við færa kveðjur í leikskólann Norðurberg. Leikskólakennarar og ekki síst skólafélagar eiga öll um sárt að binda.

Elsku Hjördís, Gússi og Silja.

Megi guð vera með ykkur og styrkja í sorginni.

Elsku Arnór Alex.

Við vitum að þú ert kominn á góðan stað og líður vel þar sem þú ert núna.
Ef allir væru þínum eiginleikum gæddir þá þyrfti ekki að syngja lagið Við viljum frið á jörð því þá væri einfaldlega friður á jörð.

Elsku drengurinn okkar.
Guð veri með þér.




Afi Þórarinn og amma Sigrún.

Að morgni þriðjudagsins 2. júní barst símtal heim á Sléttahraunið sem ógerlegt var að takast á við. Arnór Alex, 6 ára vinur í raun, var fallinn frá. Tveggja og hálfs mánaða þrautagöngu á gjörgæsludeild Landspítalans var lokið.

Ég hafði heyrt ótal sögur af Arnóri Alex löngu áður en ég hitti hann fyrst og áttaði mig fljótlega á að þarna var á ferð sólargeisli stórfjölskyldunnar. Hann var meistari í að kalla fram bros hjá fjölskyldu og vinum með ógleymanlegum tilsvörum, vangaveltum og með því að vera hann sjálfur. Allt þetta fékk ég beint í æð strax í fyrsta fjölskylduboðinu með stórfjölskyldunni á Hjallabrautinni. Þar fékk ég blíðar móttökur en enginn tók betur á móti mér en Arnór Alex sem kom sér umsvifalaust þægilega fyrir í fanginu á mér.

Ég hlaut þann heiðurssess hjá Arnóri að vera í daglegu tali kallaður vinur hans. Eftir að við Þórunn eignuðumst Úlfar litla tilkynnti Arnór starfsfólki Barnaspítalans til að mynda að Þórunn frænka hefði eignast barn með Krissa vini sínum. Arnór var góður vinur og myndaði sterk vinabönd við alla fjölskyldumeðlimi þrátt fyrir ekki hærri aldur. Þar spilaði inn í hversu skemmtilegur strákur Arnór var og að mörgu leyti fullorðinslegur og skýr. En ekki síður það að Arnór var alltaf góðmennskan uppmáluð. Hjartagæska hans hafði áhrif á fullorðna fólkið í kring og hann kenndi því afskaplega margt eins furðulega og það kann að hljóma þegar 6 ára drengur á í hlut. Við sem kynntumst honum erum margfalt ríkari fyrir vikið.

Að fylgjast með hetjulegri baráttu Arnórs á Landspítalanum síðustu vikur og mánuði setti tilveruna í nýtt samhengi. Hversdagslegir hlutir sem skipta allajafna máli misstu skyndilega allt vægi. Íþróttahetjurnar sem maður fylgist gjarnan spenntur með bliknuðu í samanburði við hina einu sönnu hetju, Arnór Alex. En Arnór var langt í frá einn í liði. Með honum í baráttunni voru mamma og pabbi, Hjördís og Gússi. Dag eftir dag var ekki annað hægt en að dást að þeim, dæmalausu baráttuþreki þeirra og viljastyrk. Þeirra missir er mikill og sendi ég þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur. Arnór var líka heppinn að eiga að frábæra systur, hana Silju Rut, sem fær einnig mínar dýpstu samúð.

Ég veit að fallegu og fyndnu sögunum og minningunum um Arnór verður alltaf haldið á lofti. Þær hafa alltaf verið dýrmætar en eru enn verðmætari í dag. Þó sárt sé að hugsa til þeirrar óskiljanlegu staðreyndar að hann sé allur var Arnór Alex þannig gerður að ef hugsað er til hans kemur eitthvað jákvætt og fallegt upp í hugann. Í gegnum minningarnar mun hann halda áfram að kalla fram bros og minna okkur á að vera góð hvort við annað. Þær ótal góðu minningar um einstakan dreng munu lifa um alla tíð.

Kristmundur Guðmundsson.

Nei, hvað getur maður sagt þegar aðeins 6 ára gamall gutti er tekinn frá foreldrum sínum, stóru systur, ættingjum og vinum. Hann Arnór Alex frændi okkar er nú búinn að kveðja þetta líf eftir gríðarlega harða og hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm.
Eftir að hann lagðist inn á Barnaspítala Hringsins höfum við fjölskyldan fylgst með hans baráttu og stundum fengið jákvæðar fréttir af Arnóri og allt virtist líta betur út, en þá virtist alltaf fylgja eitthvert bakslag og honum hrakaði aftur. Eða eins og pabbi hans orðaði það eitt skref áfram og tvö aftur á bak". Foreldrar hans viku vart frá honum á meðan baráttan stóð yfir og var það aðdáunarvert hversu vel þau stóðu sig.
Í þessari sorglegu baráttu hans fyrir lífinu vöknuðu upp spurningar hjá okkur öllum, hvers vegna? Af hverju hann svona lítill saklaus drengur? Hvar er réttlætið?
Okkur þótti miður hversu lítið við þekktum Arnór Alex og þetta segir okkur að tíminn sem við höfum í þessu lífi er óútreiknanlegur og því er mikilvægt að nýta hann vel, rækta fjölskylduna og vini og ekki bíða með neitt því það gæti orðið of seint.
Elsku Gússi, Hjördís, Silja Rut og aörir ættingjar, megi góður Guð veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.



Bjarni frændi og fjölskylda.

Elsku vinur minn hann Arnór er farinn og mér finnst það rosalega skrítið við vorum alltaf saman í leikskólanum og stundum fékk ég að fara með honum heim eftir leikskólann og þegar mamma kom að ná í mig þá vildi ég ekki fara og bað um að fá að gista, en það var leikskóli daginn eftir svo svarið var nei ekki núna.

Það var bara alltaf svo gaman að leika við þig og strákana mína eins og ég kallað okkur 4 strákana sem að vorum alltaf saman. Ég var alltaf að bíða eftir að þú kæmir heim af spítalanum svo við gætum farið að leika saman aftur og mér fannst ég þurfa að bíða voða lengi eftir þér því ég hélt að þú hefðir meitt þig þegar þú vast felldur í leikskólanum.

En svo fékk ég að heyra hvað þú hafðir verið mikið veikur þegar presturinn kom og talaði við okkur krakkana í leikskólanum og mér fannst þetta rosalega erfitt að heyra það að einn af mínum strákum og einn af mínum bestu vinum væri farinn og kæmi ekki aftur til okkar. Ég gaf þér litla gjöf eins og allir krakkarnir á deildinni okkar gerðu og ég vona að þú getur leikið þér með það og með öllum englunum sem að eru að passa þig núna. Ég vona að við hittumst aftur þegar ég er orðinn gamall maður ég á eftir að sakna þinn elsku vinur minn.

Þinn vinur,

Bernódus Óðinn (Bebbi)

Bernódus Óðinn (Bebbi.)