Guðlaugur Magni Óðinsson fæddist á Fáskrúðsfirði 28. september 1991. Hann lést af slysförum 16. maí 2009. Foreldrar hans eru Björg Hjelm, f. 15. mars 1962 og Óðinn Magnason, f. 28. október 1960. Foreldrar Bjargar eru Lára Sigurjónsdóttir, f. 29. maí 1938 og Sigurður Vignir Hjelm, f. 4. júní 1940. Foreldrar Óðins eru Guðrún Rafnkelsdóttir, f. 25. apríl 1934 og Guðlaugur Magni Þórlindsson, f. 6. apríl 1932. Systkini Magna eru Sigurður Vignir Óðinsson, f. 23. apríl 1982, sambýliskona Þóra Ólafsdóttir, f. 7. mars 1984, börn þeirra Viktoría, f. 10. júní 2004 og Adam Fannar, f. 27. desember 2005; Guðbjörg Sandra Óðinsdóttir Hjelm, f. 9. október 1984, unnusti Heimir Logi Guðbjörnsson, f. 12. mars 1986. Magni bjó í foreldrahúsum á Fáskrúðsfirði. Hann lauk námi við Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar vorið 2007 og stundaði nám við Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupstað veturinn 2007-2008 og á haustönn 2008. Hann færði sig um set yfir í Menntaskólann á Egilsstöðum á vorönn 2009. Útför Magna fer fram frá Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Kveðja frá Menntaskólanum á Egilsstöðum

Alltaf ríkir eftirvænting í hugum kennara þegar nýtt starfsár Menntaskólans hefst að hausti. Mörg ný andlit sjást á göngunum og glaðir og áhugasamir nemendur setjast í skólastofurnar. Það gerist líka við annaskipti um áramót að nýir nemendur hefji nám við skólann.

Guðlaugur Magni Óðinsson var einn þeirra sem hóf nám við skólann í upphafi síðustu annar nú í janúar.

Hann var á átjánda ári, frískur, fjörugur og góðlegur strákur. Magni hafði góða nærveru, var rólegur í skólastofunni, kurteis og prúður í framkomu. Sagði fátt en hugsaði þeim mun meira. Hann var glettinn og glaðsinna og vinsæll meðal samnemenda sinna.

Íþróttir skipuðu stóran sess í lífi Magna og sótti hann íþróttasalinn stíft. Hann ræktaði líkama sinn og hafði mikið yndi af vaxtarækt.

Fráfall Magna minnir okkur á fallvaltleika lífsins og hversu mikilvægt það er að lifa einn dag í senn. Samfylgd okkar var styttri en við hugðum, en sú samfylgd var góð og lærdómsrík.

Að leiðarlokum þakkar starfsfólk skólans Magna fyrir stutt en ánægjuleg kynni og senda fjölskyldu hans og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Starfsfólk Menntaskólans á Egilsstöðum.

Magni minn þitt viðmót var,
vætt í vinarflóði.
Miklar og góðar minningar
eigum við nú í sjóði.

Við þökkum þér innilega samveruna, sem var allt of stutt, og ekki hvað síst vináttuna við Heimi Jón. Það var gaman að fylgjast með ykkur, hvað vináttan var innileg þrátt fyrir hve ólíkir þið voruð. Minningin um góðan dreng lifir um langa framtíð, og verður gaman að ylja sér við þær góðu stundir sem við fengum að njóta með þér.

Far þú í friði vinurinn góði.


Jóna og Agnar.