Margrét Helga Gísladóttir fæddist á Selnesi á Breiðdalsvík 3. apríl 1924. Hún lést á líknardeild LSH á Landakoti 28. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 1894, d. 1987, og Gísli Guðnason, f. 1903, d. 1982. Systkini Margrétar eru Hrafnhildur, f. 1922, d. 2005, Haukur, f. 1925, d. 2003, Guðbjörg, f. 1927 og Heimir Þór, f. 1931. Margrét ólst upp á Breiðdalsvík og stundaði nám í Alþýðuskólanum á Eiðum. Margrét giftist á Hornafirði 30. október 1943 Aðalsteini Aðalsteinssyni, f. 1920, d. 1979. Foreldrar Aðalsteins voru Siggerður Magnúsdóttir frá Holtaseli í Mýrahreppi og Aðalsteinn Stefánsson frá Hamri í Hamarsfirði. Stjúpfaðir Aðalsteins var Eiríkur Þorleifsson frá Bæ í Lóni. Margrét og Aðalsteinn bjuggu alla sína búskapartíð á Höfn, fyrst á heimili tengdaforeldra Margrétar í Nýjabæ og frá 1951 á Sólhól í nánu sambýli við Hrafnhildi systur Margrétar og hennar mann Arngrím Gíslason. Margrét og Aðalsteinn eignuðust fimm börn: 1) Gísli Eysteinn, f. 1944, kvæntur Jónínu Aðalsteinsdóttur. Þau eiga þrjú börn, Aðalstein, sambýliskona Hildur Þórisdóttir, Hrafnhildi, maki Helgi Örn Kristinsson og Siggerði, maki Ólafur Ingason. Fyrir átti Gísli dótturina Ragnheiði, maki Andreas Jacobsen. 2) Siggerður, f. 1948 gift Ingólfi Ásgrímssyni. Þau eiga fjögur börn; Ásgrím, maki Þórgunnur Torfadóttir, Margréti Helgu, maki Jón Finnsson, Aðalstein, maki Ólöf Þórhalla Magnúsdóttir og Guðrúnu, maki Hjalti Þór Vignisson. 3) Aðalsteinn, f. 1955, kvæntur Elísabetu Einarsdóttur. Dóttir þeirra er Lilja Rós, sambýlismaður Elton Nday. 4) Árni Guðjón, f. 1959, kvæntur Matthildi Kristmundsdóttur. Þau eiga þrjár dætur, Laufeyju Helgu, sambýlismaður Gunnar Helgi Baldursson, Hrafnhildi Örnu, sambýlismaður Atli Már Gunnarsson og Margréti Eir. 5) Ingi Már, f. 1960, kvæntur Kristrúnu Kjartansdóttur. Þau eiga tvo syni, Aron Sölva og Andra Má. Fyrir átti Ingi Már soninn Arnar Má. Barnabarnabörn Margrétar eru 24. Árið 1982 kynntist Margrét Guðmundi Guðmundssyni frá Ísafirði, f. 1916. Foreldrar hans voru Jóna Salomonsdóttir, f. 1885, d. 1952 og Guðmundur Stefán Guðmundsson, f. 1877, d. 1936. Guðmundur á þrjár dætur Bryndísi, Jónu Margréti og Ingibjörgu. Margrét og Guðmundur bjuggu í Silfurgötu 7 á Ísafirði og síðar í Gullsmára 5 í Kópavogi. Margrét vann allan sinn starfsferil hjá Pósti og Síma, lengst af sem talsímavörður, hún vann til ársins 1989. Útför Margrétar fer fram frá Hafnarkirkju á Hornafirði í dag og hefst athöfnin kl. 14.
Þínar ömmustelpur Laufey Helga, Hrafnhildur Arna og Margrét Eir
Núna ert þú komin á betri stað, elsku amma mín og ert umvafin ást frá þeim sem þegar hafa kvatt þennan heim.
Ég vil fá að þakka þér fyrir þau yndislegu ár sem við áttum saman og þær góðu minningar sem sköpuðust. Samband okkar varð sterkara með árunum, enda gátum við gleymt okkur á kaffihúsum þar sem við töluðum um allt milli himins og jarðar. Jón Aðalsteinn var nú ekki gamall þegar hann var farin að þeysast með okkur um bæinn, alltaf hafðir þú orð á því hvað hann væri rólegur og gott barn. Þér þótti svo vænt um hann og varst alltaf að spyrja um hann þegar ég heimsótti þig upp á Landakot. Ég held áfram að hugsa vel um hann og ég veit að hans er vel gætt af himnum ofan.
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.
Með landnemum sigldi'hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma. Hún vakti'er hún svaf.
Hún þerraði tárin. Hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð.
Ó! Hún var ambáttin hljóð.
Hún var ástkonan rjóð.
Hún var amma, svo fróð.
Ó! Athvarf umrenningsins,
inntak hjálpræðisins,
líkn frá kyni til kyns.
Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði'og stritaði gleðisnauð ár.
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún á.
Ó, hún er brúður sem skín!
Hún er barnsmóðir þín
eins og björt sólarsýn!
Ó! Hún er ást, hrein og tær!
Hún er alvaldi kær
eins og Guðsmóðir skær!
Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.
Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
En sólin, hún sígur, og sólin, hún rís,
og sjá: Þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf:
Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar,
sem ann þér og þér helgar sitt líf.
(Ómar Ragnarsson.)
Elsku Guðmundur og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur öllum samúð mínA. Megi góður guð vera með ykkur.
Siggerður Gísladóttir og fjölskylda