Gísli Guðmundur Ísleifsson hæstaréttarlögmaður fæddist í Reykjavík 18. maí 1926. Hann lést á Kumbaravogi 13. mars 2009. Foreldrar hans voru Ísleifur Árnason prófessor frá Geitaskarði í Langadal og Soffía Gísladóttir Johnsen stórkaupmanns og athafnamanns frá Vestmannaeyjum. Guðmundarnafn Gísla er í höfuð á „Muggi“ hins dáða listamanna og var vitjað í draumi. Systkini Gísla voru Hildur Sólveig og Ásdís, sem báðar eru látnar og Árni. Gísli kvæntist ungur að árum, Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur málarameistara frá Ísafirði og eru börn þeirra Ísleifur flugvirki, Finnbjörn kerfisfræðingur, og Sigríður skrifstofumaður. Gísli og Ragnhildur skildu. Síðari kona Gísla var Fjóla Karlsdóttir. Börn þeirra eru Örn Tryggvi vélvirki, Karl blikksmiður, Sigurður Kolbeinn, iðnrekstrarfræðingur og Guðrún Helga verslunarmaður. Gísli og Fjóla skildu. Gísli ólst upp í föðurhúsum og fetaði í fótspor föður sína og gerðist lögfræðingur og um síðir hæstaréttarlögmaður. Starfaði Gísli um alllangt skeið á lögmannsstofu Ágústar Fjeldsted og Benedikts Sigurjónssonar og varð það hans hlutskipti að verja landhelgisbrjótana. Gísli fór til Montreal í Kanada og lærði „flugmálarétt“ og starfaði svo að því loknu hjá Flugmálastjórn. Hann rak einnig um tíma eigin stofu. Í lokin vann hjá Verðlagsstofnun. Útför Gísla fór fram í kyrrþey.

Pabbi nú er vegferðin á enda, og það rétt passlega, því þú sagðir við mig síðast þegar við hittumst, æðrulaus, að nú væri nóg lifað. Ég kveð þig með söknuð í hjarta, og gamlir tímar sækja að. Eitt sinn, ekki fyrir svo löngu, fórum við tveir saman til Spánar. Það var gott að fá tíma til að kynnast þér aftur, maður á mann, því samskiptin höfðu ekki verið svo mikil árin áður. Alltaf varstu ljúfur, rausnarlegur og heimsmaður fram í fingurgóma, svona af gamla skólanum. Við sátum oft á svölunum á kvöldin og ræddum gamla tíma, ég spurði um fortíðina og þú svaraðir alltaf af hreinskilni og eftir bestu vitund og ég skynjaði hið góða og réttsýna í hjarta þínu.

Pabbi var afburða námsmaður, málagarpur, bjó yfir hnífskarpri rökvísi og ríkri fróðleiksfísn, man alltaf þegar hann seildist eftir alfræðiorðabókinni þegar eitthvað kom upp sem hann vissi ekki, en varð að fá svar við. Ég er þess fullviss að þú hafir smitað okkur börnin af fróðleiksþorstanum og rökhyggjunni og ekki slæmt að bera þann arf.

Án þín héldi engin hönd þessum penna, og það verður sagt um margar hendur og mörg líf og væri heimurinn fátækari ef þín hefði ekki notið við, á svo margan hátt. Ég minnist þín að góðu einu og er stoltur af því að vera sonur þinn. Allt hið góða sem þú kenndir mér mun ég reyna að bera fram veginn.

Ég kveð þig með vissu um að handanvistin verði þér sæl og að þú kvaddir okkur sáttur. Samúðarkveðjur til systkina minna, mömmu og allra er eiga sárt um að binda.

Þinn elskandi sonur,

Sigurður Kolbeinn Gíslason og fjölskylda.