Þórir Magnússon fæddist í Reykjavík 11. apríl 1937. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 7. júlí sl. Foreldrar hans voru Magnús Pétursson, ættaður úr Borgarfirði, f. 12. okt. 1905, d. 21. ág. 1965, og Jóhanna Magnea Sigurðardóttir, ættuð af Álftanesi, f. 4. feb. 1911, d. 29. jan. 1997. Systkini Þóris eru Sigurlín Ester, Gunnar Helgi, Grétar, Hulda og Hafdís. Þórir kvæntist 27. sept. 1958 Maríu Jóhannsdóttur frá Akureyri, f. 28. júní 1939. Foreldrar hennar voru Jóhann V. Jóhannsson, f. 24. ág. 1898, d. 3. feb. 1991, og Halldóra Kristjánsdóttir f. 11. apríl 1905, d. 5. des. 1991. Börn Þóris og Maríu eru: 1) Halldór, f. 22. júní 1960, fyrrv. maki Jane Alexander. Börn þeirra Viktoría, f. 1990, Elísabet, f. 1993, og Tómas, f. 1998. 2) Jóhanna Magnea, f. 4. júní 1962, fyrrv. maki Stefán Guðfinnsson. Börn þeirra: Guðfinnur Þórir, f. 1990, og Sunna Ósk, f. 1994. 3) Þórir, f. 18. mars 1970, maki Halldóra Kr. Valgarðsdóttir. Börn þeirra Alexandra Ýr, f. 1990, Arnar Daði, f. 1992, Auðunn Atli, f. 1995, og Alma Björt, f. 2005. Dóttir Þóris og Ingunnar Ragnarsdóttur er Ragna Heiðbjört, f. 9. júlí 1966, maki Kristján Guðmundsson. Börn þeirra Vilhjálmur Ragnar, f. 1988, Heiða Björg, f. 1990, og Hugrún Birta, f. 2000. Þórir hóf störf hjá Ísbirninum hf. að loknu grunnskólanámi og varð þar fljótlega vörubifreiðarstjóri. Eftir um 10 ára starf þar hóf hann störf hjá Bifreiðastöð Steindórs við leigubílaakstur, rútuakstur og bílaafgreiðslu og var þar í um níu ár. Þá fékk hann atvinnuleyfi á leigubíl og vann við það til æviloka, fyrst hjá BSR og síðustu árin hjá Hreyfli-Bæjarleiðum. Reyndar tók hann sér frí frá leigubílaakstri í nokkur ár og ók þá rútum fyrir Guðmund Jónasson hf. Þórir starfaði mikið fyrir Slysavarnafélag Íslands og þá aðallega Björgunarsveitina Ingólf. Hann var áhugamaður um stangveiði, skotveiði, skák og bridge. Útför Þóris var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 16. júlí.

Ég sit hér dofin vegna fréttar um andlát bróður míns, það er svo stutt síðan ég frétti af veikindum hans. Þau komu hingað hjónin heim til mín í júníbyrjun og létu mig vita um veikindi Þóris, en ég átti ekki von á láti hans svona fljótt. En það var að morgni 7. júlí að Gunnar bróðir okkar hringdi í mig og sagði mér að bróðir okkar Þórir væri látinn. Aðeins tíu dögum eftir að við hittumst í sumarbústað Þóris og Mæju, en þar var haldið upp á sjötíu ára afmælið hennar Mæju, ásamt börnum og tengdadóttur og barnabörnum, systkinum og vinum þeirra hjóna. Þetta var yndislegur dagur á undurfallegum stað í Þjórsárdal.

Mig langar að minnast hans frá því hann var ungur. Átta ára fór hann í sveit til þess góða fólks Þórðar og Guðbjargar sem bjuggu ásamt börnum sínum á Ásmundarstöðum í Holtum í Rangárvallasýslu. Hann dvaldi hjá þeim tíu sumur í góðu yfirlæti, honum þótti svo vænt um þennan stað og fólkið allt. Þórir kláraði skólaskylduna en fór svo fljótt að vinna, hann fékk sér vinnu í Ísbirninum á Seltjarnarnesi og vann þar á meðan vertíðin var, en svo í sveitinni á sumrin. Eftir að hann fékk bílpróf fór hann að keyra vörubíl hjá Ísbirninum og gerði það í nokkur ár. Einnig keyrði Þórir rútur í ein tíu ár hjá Guðmundi Jónassyni, en fór svo á minni bíla. Hann var lengst af sem leigubílstjóri hjá BSR en síðustu árin keyrði hann hjá Hreyfli.

Þórir var mikill útivistarmaður, á sínum tíma gekk hann í Björgunarsveitina Ingólf og fékk þar góða útrás fyrir sitt áhugamál. Þau hjónin keyptu sér sumarbústað í Þjórsárdal fyrir um 16 árum og var hann algjör fjölskylduparadís. Þórir og Mæja lifðu og hrærðust í börnum sínum og barnabörnum og veit ég að hans er sárt saknað. Þau hjónin áttu líka húsbíl sem þau ferðuðust mikið á en það var einmitt í einni ferðinni sem Þórir veiktist hastarlega seint um kvöld og lést hann þá um nóttina á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Blessuð sé minning hins góða manns.

Elsku Maja, Halldór, Hanna Mæja, Þórir, Ragna og Halldóra Kristín og börnin ykkar, ég bið góðan Guð að styrkja ykkur og styðja í sorginni því að Þórir okkar gleymist aldrei. Innilegar samúðarkveðjur

Edda.