Svala Ívarsdóttir fæddist 10. nóvember 1936 í Reykjavík. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness sunnudaginn 19. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ívar Möwel Þórðarson frá Ólafsvík, síðar bóndi í Arney á Breiðafirði, f. 4.1. 1904, d. 5.5. 1983, og kona hans Sigrún Hólmfríður Guðbjörnsdóttir frá Sveinsstöðum í Neshreppi á Snæfellsnesi, f. 4.2. 1900, d. 3.3. 1999. Svala var yngst 7 systkina. Elst er Björg, maki Valgarður Kristjánsson þeirra börn eru 5. Helga, á eina dóttur. Örlygur, maki Bryndís Þorvaldsdóttir, þeirra börn eru 3. Brynjar (látinn), maki Halldóra Karvelsdóttir, þeirra börn eru 4. Leifur, maki Jónína Sigríður Þorgeirsdóttir þau eiga einn son. Næstyngstur var drengur sem dó nokkurra vikna gamall. Hinn 4. janúar 1962 giftist Svala Sigurði Ástvaldi Hannessyni, f. 22.2. 1938. Hann lést 3.8. 1990. Svala og Sigurður eignuðust 4 börn. Þau eru: 1) Ástríður, f. 29.4. 1962, maki Jónas S.E. Bergsteinsson. Dætur hennar eru (a) Svala, f. 29.11. 1980, maki Steingrímur Guðni Árnason, f. 16.9. 1981. Þeirra sonur Gabríel. (b) Heiðrún, f. 12.9. 1986. Börn Jónasar: Berglind Júdith, f. 1.11. 1976, maki Davíð Rúnar Gunnarsson, f. 14.6. 1971, eiga þau 3 börn; Ómar Valur, f. 9.12. 1992. 2) Sigrún Valgerður, f. 29.6. 1963, maki Lasse F. Andersen, f. 22.2. 1964. Þeirra börn eru (a) Daniel Ivan, f. 31.10. 1988, unnusta Ásta Marý Stefánsdóttir, f. 28.4. 1990. (b) Heidi Sigrid, f. 6.5. 1990. 3) Hannes Frímann, f. 26.5. 1964, maki Svandís Sturludóttir, f. 24.1. 1968. Fyrri kona Hannesar var Guðný Björk Sturludóttir, f. 29.5. 1966, d. 25.9. 1992. Börn þeirra eru (a) Thelma Sjöfn, f. 22.8. 1984, maki Guðmundur Sveinsson, f. 17.4. 1978. Þeirra börn Jökull Máni, Almar Frosti og Amelía Rán. (b) Sigurður Ástvaldur, f. 18.5. 1988. (c) Eva dóttir Svandísar, f. 1.7. 1986. Dætur Hannesar og Svandísar eru (d) Helena Rakel, f. 18.8. 1996, og (e) Sólveig Svala, f. 25.5. 1999. 4) Íris Guðrún, f. 31.8. 1972, maki Valgarður Lyngdal Jónsson, f. 14.9. 1972. Þeirra börn eru (a) Hlín Guðný, f. 11.8. 1994, (b) Jón Hjörvar, f. 16.4. 1998, og (c) Hrafnkell Váli, f. 9.8. 2004. Svala bjó fyrstu árin með foreldrum sínum í Reykjavík en fluttist ung með þeim í Arney á Breiðafirði. Síðar bjuggu þau í Stykkishólmi á veturna. Svala fluttist síðan á Akranes er hún hóf þar nám og bjó þar alla tíð síðan. Svala vann við afgreiðslustörf á sínum yngri árum, m.a. í Kaupfélaginu í Stykkishólmi og víðar. Eftir að Svala fluttist á Akranes vann hún m.a. hjá Pósti og síma um árabil. Síðar vann hún hjá Rafveitu Akraness og Akranesveitu. Svala var virk í félagsstörfum á Akranesi, var virkur félagi í Oddfellow-reglunni, og lét hún sig samfélagsmál og málefni líðandi stundar miklu varða. Útför Svölu verður í dag, föstudaginn 24. júlí, frá Akraneskirkju og hefst athöfnin kl. 14.

"Ég sá þig á undan mömmu þinni þegar þú fæddist," sagði Svala frænka oft við mig og brosti skelmislega. Hún var á 13. ári þegar undirrituð fæddist og svo spennt að bíða eftir fyrsta systkinabarninu að hún skaust inn til að sjá barnið um leið og hún heyrði í því. Og víst er það að þessi fyrstu kynni okkar hafa tengt okkur nánum böndum alla tíð síðan, enda búið lengst af í nágrenni hvor við aðra.

Svala frænka var meira en bara móðursystir mín, hún var ekki síður stóra systir mín þar sem einungis 12 ára aldursmunur var á okkur og trúlega leit hún einnig þannig á málið. Hún passaði mig sem barn og gætti mín fyrir fárviðrum heimsins fyrstu árin mín og leit ég ætíð mikið upp til hennar, fannst allt gott sem hún sagði og gerði. Alla tíð hef ég átt hana að og getað leitað til hennar með gleði mína og sorgir, sem hún hefur tekið þátt í af heilum hug.

Þær stundir hafa komið að ég hef þurft á því að halda að geta sagt einhverjum frá því hvað ég hræddist, þarfnast einhvers til að eiga með mér leyndarmál eða til að samfagna mér yfir unnu afreki. Og á slíkum stundum getur enginn komið í stað góðs vinar. (Pam Brown .)

Svala var vel greind kona, hrein og bein og sagði sínar skoðanir umbúðalaust, lét engan eiga neitt hjá sér ef því var að skipta, kom vel fyrir sig orði og hélt ræður og tölur af snilld, pólitísk umræða var henni mjög að skapi og var hún vel að sér á þeim vettvangi. Kát og skemmtileg kona sem hafði gaman af að hafa fjör í kring um sig, söng af innlifun og spilaði á gítar á góðum stundum enda alltaf tilhlökkun að fá hana í heimsókn. Listfeng í höndum, saumaði af snilld bæði fatnað og annað.

Það var hér á Akranesi sem hún fann sinn lífsförunaut, hann Didda, algjöran töffara og mikið ljúfmenni, og saman sigldu þau sínu fleyi í tæp 30 ár, eða þar til hann lést af slysförum fyrir 19 árum, öllum harmdauði. Tveim árum síðar missti hún tengdadóttur sína, aðeins 26 ára að aldri, frá eiginmanni og 2 börnum. Þetta var mikil reynsla að takast á við fyrir Svölu og fjölskyldu hennar.

Ég hef átt því láni að fagna að eiga einnig góða vináttu barnanna hennar svo og barnabarna og er það mikil gæfa því að öll eru þau mannkosta fólk. Ég vil þakka Svölu fyrir samfylgdina, umhyggju hennar og vináttu, fyrir mér og fjölskyldu minni alla tíð. Þá votta ég börnum hennar barnabörnum og öðrum ættingjum mína dýpstu samúð. Nú er hún komin til hans Didda sem hún tregaði alla tíð frá því hann fór.

Elskulega Svala mín, ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sitja hjá þér síðustu andartökin, það er mér ómetanlegt.

Eigðu góða heimkomu.

Þín,

Sigrún frænka.

Elsku amma mín.

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farin frá mér. En ég hugga mig við það að nú færðu loksins að hvíla þig og ert hætt að finna til. Afi og mamma hafa örugglega tekið vel á móti þér.

Þegar ég hugsa til baka minnist ég margra stunda sem við tvær áttum saman. Þegar ég höfuðkúpubrotnaði 10 ára og pabbi og Svandís voru í Brasilíu þá vaktir þú yfir mér á sjúkrahúsinu. Þú tókst ekki annað í mál. Þú varst mér mikill stuðningur og það litla sem ég man frá því slysi er að þú hafir alltaf verið hjá mér. Takk elsku amma fyrir það.

Þegar við systkinin vorum í pössun hjá þér voru oft aðrar reglur heldur en heima, þú leyfðir okkur að vaka lengi og horfa á bannaðar myndir og þá helst spennumyndir því alltaf þegar fólk kysstist í sjónvarpinu varstu fljót að skipta um stöð.

Eftir því sem ég varð eldri leitaði ég meira til þín eftir ráðum í sambandi við strákamál, saumaskap, prjónaskap og svo auðvitað önnur vandamál. Ég gat alltaf treyst á það að þú værir með réttu svörin og lausnirnar þegar ég kom til þín í kaffi og sígó.

Ég man líka eftir skemmtilegu stundunum sem ég og Svala áttum með þér þegar við komum til að hjálpa þér að taka til. Það var aldrei hægt að byrja þrifin fyrr en platan "Ðe lónlí blú bojs" var komin á fóninn og svo sungum við með allan tímann.

Ég vil þakka þér amma mín fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman og ég vil segja þér að ég elska þig og sakna þín mjög mikið.

Þín ömmustelpa,

Thelma Sjöfn.