Kristbjörg Sigurðardóttir fæddist á Skjöldólfsstöðum í Breiðdal 29. september 1927. Hún lést 16. janúar 2009. Útför Kristbjargar fór fram frá Garðakirkju 23. janúar. Sigurður Þorleifsson fæddist í Fossgerði á Berufjarðarströnd 18. nóvember 1930. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 5. apríl 2009. Útför Sigurðar fór fram í kyrrþey.
Mig langar til að minnast kærra vina, hjónanna Kristbjargar Sigurðardóttur og Sigurðar Þorleifssonar frá Karlsstöðum á Berufjarðarströnd með nokkrum orðum. Það varð stutt á milli þeirra, Kristbjörg lést 16. janúar sl. en Sigurður 5. apríl.
Kristbjörg var einstök kona, hjartahlý og vildi allt fyrir alla gera. Og hún kvartaði aldrei, þótt erfiðleikar steðjuðu að, en sárt var að fylgjast með erfiðum veikindum hennar síðustu árin. Sigurður var vinur vina sinna, en ekki allra, með ríka réttlætiskennd og gerði kröfur til annarra, en fyrst og fremst til sjálfs sín. Þau hjón voru bændur af gamla skólanum, í þeirra orða bestu merkingu, búskapurinn átti hug þeirra allan og þau báru mikla umhyggju fyrir dýrunum sínum. Á Karlsstöðum var öll umgengni til fyrirmyndar, snyrtimennska sem eftir var tekið, alltaf allt í röð og reglu og öllu vel við haldið. Hvort sem það voru gripahúsin eða gamli bærinn, og við nýja bæinn var fallegur garður sem Kristbjörg sinnti af einstakri natni.
Ég kom oft til þeirra í Karlsstaði í nærri 30 ár, allt þar til þau brugðu búi og fluttu á Reykjavíkursvæðið, aðallega vegna veikinda Kristbjargar.
Á árum áður, var mikið leitað til Kristbjargar til að hjálpa kúm og kindum sem áttu í burðarerfiðleikum. Alltaf brást hún vel við, hvernig sem á stóð og víst er að hún bjargaði mörgum dýrum um dagana. Sigurður var lengi oddviti Beruneshrepps, allt til ársins 1992 þegar þrír hreppar sameinuðust í Djúpavogshreppi. Víst er að í því starfi nutu nákvæmni og heiðarleiki Sigurðar sín vel, hann var varla í rónni fyrr en allir reikningar höfðu verið greiddir, eins fljótt og nokkur kostur var.
Eftir að kúm eða kindum sem eitthvað amaði að hafði verið sinnt, var það fastur liður að tylla sér í eldhúsið, þiggja veitingar og spjalla við þau hjón um heima og geima. Þessar heimsóknir voru mér mikils virði og vinátta þeirra og velvilji í minn garð verða ekki fullþökkuð.
Það hefur eflaust verið sársaukafull ákvörðun fyrir þau Karlsstaðahjón að bregða búi upp úr aldamótunum síðustu, en veikindi Kristbjargar ágerðust og blóðtappi í heila sem Sigurður varð fyrir gerðu þá ákvörðun óumflýjanlega. Það var erfið stund þegar þau fluttu frá Karlsstöðum, en mikið þótti mér vænt um að þau skyldu gera sér ferð til mín til að kveðja. Sú kveðjustund verður mér ávallt í minni, því þá sá ég þessa góðu vini í síðasta skipti. Blessuð sé minning þeirra. Ég sendi afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Hákon Hansson.