Búi Þór Birgisson fæddist á Blönduósi 23. febrúar 1947. Hann lést á heimili sínu, Strandgötu 10 á Skagaströnd, aðfaranótt föstudagsins 18. september 2009. Hann var sonur hjónanna Ingu Þorvaldsdóttur frá Brúarlandi, f. 24.2.1926 og Teits Birgis Árnasonar frá Kringlu í Torfalækjarhreppi f. 12.8. 1925 d. 2.2. 2005. Systkini Búa Þórs eru Árni Björn og Margrét Eyrún. Fyrri eiginkona Búa Þórs er Guðbjörg Karolína Karlsdóttir. Börn þeirra eru: 1) Birgir Heiðar, kvæntur Ásu Karítas Arnmundsdóttur. Börn þeirra eru Búi Þór og Konráð Ingi. 2) Karl Heimir. Eftirlifandi eiginkona Búa Þórs er Þorbjörg Bjarnadóttir. Börn hennar eru Ragnar Sigurmundsson og Borghildur Sigurmundsdóttir. Búi Þór verður jarðsunginn frá Hólaneskirkju á Skagastönd, í dag, 24. september, kl. 14.
Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.
/
Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.
/
Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.
/
Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.
/
Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.
/
Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.
(Magnús Eiríksson.)
Farðu í friði elsku frændi, ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér.
Guð geymi þig.
Fjölskyldu Búa og ástvinum öllum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Vala Árnadóttir.