Halla Inga Einarsdóttir fæddist í Óspaksstaðaseli í Hrútafirði þann 11. febrúar 1920. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir þann 26. júní 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Einar Elíesersson f. á Valdasteinsstöðum í Strandasýslu 4. ágúst 1893, d. 18. ágúst 1979, og Pálína Björnsdóttir, f. á Óspaksstöðum í Hrútafirði 12. september 1895, látin 25. febrúar 1933. Systkini Höllu voru Þuríður, f. 1917, d. 1932, Björn, f. 1918, d. 1994, Jónas, f. 1924, d. 1995, Ingimar, f. 1925, Ingibjörg, f. 1928, látin sama ár, og Ingvar, f. 1931, d. 1932. Halla giftist Ólafi Ingimarssyni leigubílstjóra, f. á Skarðshóli í Miðfirði 26. september 1921, d. 27. mars 1971. Þau bjuggu í Reykjavík. Börn þeirra eru fjögur. 1) Pálína Erna, f. 1947, var gift Þorsteini Ingólfssyni, f. 1950. Þeirra börn eru Halla Dröfn, f. 1974, Ásta Ingibjörg, f. 1977, og Sigurður Óli, f. 1979. 2) Marsibil, f. 1949, gift Stefáni Árnasyni, f. 1944. Þeirra börn eru Hrafnkell Tjörvi, f.1975, Vésteinn, f. 1981, og Bryndís, f.1983. 3) Sigrún, f. 1953, gift Pétri Jónssyni, f. 1953. Þeirra börn eru Elfa Hlín, f. 1974, Ólafur Örn, f. 1978, Eyrún Björk, f. 1984, og Katla Rut, f. 1987. 4) Ingimar, f. 1958, kvæntur Guðlaugu Halldórsdóttur, f. 1960. Þeirra börn eru Margrét Ýr, f. 1985, og Halldór Ingi, f. 1989. Langömmubörn Höllu eru 14. Halla ólst upp í Óspaksstaðaseli. Nokkru eftir lát móður hennar leystist heimilið upp. Þá fór Halla 15 ára gömul að Grænumýrartungu í Hrútafirði. Um tvítugt var hún tæpa tvo vetur í Kvennaskólanum á Blönduósi. Síðan fluttist hún til Reykjavíkur og fór þar í vist. Í Reykjavík kynntist Halla eiginmanni sínum. Þau bjuggu lengst af í Eikjuvogi 24 í Reykjavík. Halla var húsmóðir og sinnti búi og börnum. Hún vann einnig jafnan hin ýmsu störf utan heimilis. Má þar nefna að hún vann á Kleppsspítala, í Lystadún og í Vogaskóla. Eftir lát eiginmanns síns gerði hún út leigubíl til fjölda ára. Halla Inga verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag 2. júlí 2009 og hefst athöfnin klukkan 15.

Í vikunni áður en Halla frænka mín dó, heimsóttu Gulla systir og mamma mín hana. Ég hafði beðið mömmu fyrir kveðju til hennar og þegar Halla fékk kveðjuna sagði hún Já, hún Þórey mín er alltaf út í Danmörku, það hefur alltaf verið svo sterkur strengur milli okkar.

Mig langar að segja frá því af hverju strengurinn milli okkar Höllu er svona sterkur. Í kringum 1980 fluttist Sigga Ella (afasystir min, föðursystir Höllu) á Elliheimilið á Hvammstanga. Sigga saknaði auðvitað litla hússins síns á Borðeyri svo Halla byrjaði að nota hluta af sumarfríinu sínu til að vera með Siggu á Borðeyri, kannski í 2 vikur eða svo. Tvö eða þrjú sumur atvikaðist það svoleiðis að ég fékk að vera með í þessari árlegu sumardvöl. Þetta voru góðir dagar fyrir okkur þrjár þarna í gamla húsinu á Borðeyri, aðallúxusinn var rafmagn, rennandi kalt vatn og rás 1. Dagurinn byrjaði með að kveikja á útvarpinu til að taka skeytin. Við vorum svo áhugasamar um veðrið, því það var toppurinn á tilverunni ef veðrið var þannig að við gátum setið sunnan undir vegg í sólinni. Það hét að það væri svo gott fyrir Siggu að geta setið í sólinni, en það var líka vegna þess að Halla var svo mikill sólardýrkandi.  Svo klæddum við okkur, drukkum morgunkaffið og skipulögðum næstu máltíð. Það þurfti líka að fara í kaupfélagið, labba aðeins um garðinn, elda hádegismatinn, spekulera í hvort einhver kæmi, þvo þvott í höndunum osfrv.

Einstaka sinnum kom einhver Borðeyringur í heimsókn, og á kvöldin náðum við Halla stundum að tala við Ottó, svona yfir grindverkið. Annars vorum við bara í okkar heimi, enginn sími, engir gemsar og við fórum ekki einu sinni í bíltúra, þó svo að ég væri með bíl. Stundum dunduðum við okkur við að skoða það sem var í skúffunum og skápunum hjá Siggu, gömul föt, dúka, áhöld, jólakort, og fleira og fleira. Þá náðum við að rifja upp með Siggu ýmislegt sem tengdist þessu dóti, t.d. hvenær og hvernig hún hefði eignast það. Halla vildi samt henda ýmsu,  henni fannst sumt af þessu óttalegt drasl. En Siggu fannst það óþarfi, það sæi nú varla nokkuð á þessu. Ég stóð yfirleitt með Siggu, en ég veit að stundum henti Halla einhverju þegar við Sigga sáum ekki til.

Ekkert sjónvarp var í húsinu, svo kvöldin liðu með spjalli og rás 1. Svo þegar Sigga var sofnuð í stofunni þá fórum við Halla inn í herbergið okkar. Halla hafði að sjálfsögðu rúmið, ég dýnu á gólfinu. Halla var mjög þakklát fyrir að ég svaf á gólfinu, því henni var meinilla við járnsmiðina. Svo spjölluðum við aðeins meira og dagurinn endaði svo á að taka skeytin. Við svona aðstæður myndast sterkur strengur.

Síðan þetta var hef ég margoft heimsótt Höllu og við höfum rætt um veðrið, fjölskylduna okkar, litla húsið sem loftræsti sig sjálft, pabba minn, lífið í Selinu, sólina í Eikjuvoginum, lífið og tilveruna, Siggu gömlu og síðast en ekki síst gert grín að sjálfum okkur.

Í dag elska ég að sitja út í sólinni (þarf ekki endilega að vera sunnan undir vegg) og þá minnist ég Höllu sem líka elskaði sólina.

Þórey Jónasdóttir

Þegar ég var að alast upp á Eikjuvoginum var Halla andbýlingur minn. Hún var merkileg kona, ákveðin, dugleg, þrautseig, mikil húsmóðir og hjálpsöm. Mér þótti ákaflega vænt um hana og fannst mikið til hennar koma.

Margar ferðirnar tölti ég yfir til hennar í vandræðum mínum með fatasaum eða aðra handavinnu og naut þá tilsagnar hennar og hjálpar.

Svo liðu árin og Stella systir eignaðist okkar gamla æskuheimili á Eikjuvoginum. Í borgarheimsókn hjá Stellu, hafði ég ánægju af því að skjótast yfir til Höllu. Nú bjó ættmóðirin þar ein, ungarnir flognir úr hreiðrinu. Glettin, mild og stolt hafði Halla unun af að segja mér frá börnunum sínum og barnabörnum. Hún hélt vel utan um hópinn sinn sem aftur sinnti henni af einstakri alúð og hlýju. Það var ljúft að finna það og gott til þess að vita.

Ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessari mætu konu.

Samúðarkveðjur til þín, Marsí, og allra í fjölskyldunni.

Sýbilla.