María Daníelsdóttir fæddist í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal, 6. desember 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum, föstudaginn 17. júlí 2009. Hún var dóttir hjónanna Daníels Júlíussonar, bónda og kennara í Svarfaðardal, f. 5. 11. 1892, d. 14. 12. 1978, og Önnu Jóhannsdóttur, húsmóður, f. 27.4. 1893, d. 14.3. 1988. Systkini Maríu eru; Steinunn, húsmóðir, f. 8.1. 1919, Júlíus Jón, fv. ristjóri, f. 6.1. 1925, Jóhann Kristinn, fv. kennari, f. 18.11. 1927, og Björn Garðars, fv. kennari, f. 26. ágúst 1932. María kvæntist 6. ágúst 1948 Malmfreð Jónasi Árnasyni, vélvirkja, frá Eskifirði, f. 17.7. 1921, d. 11.11. 1994. Foreldar hans voru; Árni Jónsson, útgerðarmaður og síðar kaupmaður á Eskifirði, f. 23.2.1886, d. 31.12.1966, og kona hans; Guðrún Jónína Einarsdóttir, húsmóðir, f. 18.6. 1887, d. 12.11. 1971. Börn Maríu og Malmfreðs Jónasar er; 1) Daníel, tannsmíðameistari, f. 28.5. 1950, eiginkona hans er Ásdís Ólöf Jakobsdóttir, f. 5.11. 1952 og eiga þau 4 börn sem eru; María Sif, Edda Dröfn, Ómar Orri og Arna Hlín. Daníel og Ásdís eiga að auki 4 barnabörn. 2) Árni, vélstjóri, f. 31.3. 1952, eiginkona hans er Anna Britta Vilhjálmsdóttir Warén, skólaliði, f. 14.1. 1953 og eiga þau 3 dætur sem eru; Kolbrún Dögg, Inga María og Valborg Ösp. Árni og Anna eiga að auki 4 barnabörn. 3) Örn, viðskiptafræðingur, f. 16.2. 1962, eiginkona hans er Helga Jóhannesdóttir, viðskiptafræðingur, f. 23.7. 1965 og eiga þau 2 börn; Franz Jónas Arnar og María Ísabella. María ólst upp í Svarfaðardal og stundaði þar hefðbundin þar til hún fór í Kvennaskólann á Blönduósi og lauk þaðan kvennaskólapróf árið 1942. Að námi loknu stundaði hún verslunastörf á Akureyri, lengst af í Stjörnuapóteki, þar til að hún fluttist til Reykjavíkur 1946. Þar starfaði hún við verslunarstörf, lengst af í Iðunnarapóteki. Í Reykjavík kynntist hún eiginmanni sínum, Malmfreð Jónasi sem starfaði þá hjá Bílasmiðjunni hf., og hófu þau sinn búskap þar. Árið 1951 fluttust þau til Akureyrar, þar sem María hóf aftur störf hjá Stjörnuapóteki þar til 1954 er hún fluttist ásamt eiginmanni sínum til Eskifjarðar á heimslóðir hans. Þar byggðu þau upp myndarlegt heimili í húsi sínu er nefnist Bjarmi og er við Strandgötu 63. Þar bjuggu þau í mörg ár, eða mestan part hjúskapar síns. Á Eskifirði vann hún við verslunarstörf, m.a. hjá Kaupfélaginu Björk og síðar hjá Pöntunarfélagi Eskfirðinga. Síðar vann hún við fiskvinnslustörf það sem eftir lifði starfsævinnar. Árið 1991 fluttu þau hjónin frá Eskifirði til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu að Maríubakka 12. Þar bjó María allt þar til hún flutti í þjónustuíbúð fyrir aldraða að Furugerði 1 árið 2004, þar sem hún bjó til dauðadags. María hafði yndi af söng og hafði fallega söngrödd og var virk í ýmsum kórum, m.a. í Kirkjukór Eskifjarðarkirkju til fjölda ára. Hún var einn af stofnendum Eskjukórsins, sem var blandaður kór Eskfirsks söngfólks og söng með kórnum í allmörg ár. Útför Maríu verður gerð frá Fossvogskirkju, föstudaginn 24. júlí kl. 15.00.

Mig setti hljóðan þegar strákarnir hringdu og sögðu mér að móðir þeirra, María Daníelsdóttir, væri látin. Fréttin hefði ekki átt að koma neitt á óvart því ég vissi að hún hafði verið mikið veik síðustu vikurnar. En samt myndaðist snögglega tómarúm í huganum. Ég var einfaldlega ekki tilbúinn að trúa því að ég ætti aldrei eftir að spjalla við Mæju í Bjarma í síma aftur.

Síðustu 10 árin hitti ég Maríu ekki oft en við spjölluðum alltaf saman 16. febrúar hvert einasta ár. Þessi símtöl voru mér mjög dýrmæt. Ég veit að hún gladdist alltaf þegar ég hringdi þennan dag sem er afmælisdagur yngsta sonar hennar, Arnar.

Ég kynntist Mæju, eins og hún var alltaf kölluð á Eskifirði, þegar ég var 7 ára gamall. Það ár hófst skólagangan á Eskifirði og við Árni, sonur hennar, urðum fljótlega góðir vinir og sá vinskapur færðist fljótlega yfir á alla fjölskylduna í Bjarma. Það voru ófáar stundirnar sem við strákarnir dunduðum okkur í kjallaranum í Bjarma við að smíða járnbáta úr olíudunkum, dytta að hjólunum okkar eða smíða kassabíla svo eitthvað sé nefnt. Þeir bræður Danni og Árni voru einstaklega laghentir og ég naut þess í ríku mæli.

Að verki loknu var oft skotist upp í eldhús þar sem húsmóðirin gaf okkur alltaf eitthvað gott í svanginn.  Þegar skólaárunum á Eskifirði lauk fórum við strákarnir hver í sína áttina en alltaf hefur vinataugin haldið og sambandið við hjónin í Bjarma rofnaði aldrei. Alltaf þegar ég kom á Eskifjörð var það sjálfsagður hlutur að koma við í Bjarma og spjalla við Mæju og Malla. Fyrstu árin gekk ég alltaf rakleitt að bakdyrunum sem við notuðum alltaf sem krakkar. En þegar ég kom í fyrsta sinn með kærustuna mína í heimsókn þá var mér sagt að hér eftir ætti ég að koma að framanverðu. Sú minning er ljúf og segir miklu meira um þá virðingu og væntumþykju sem þau sýndu okkur en mörg orð.

Heimili hjónanna í Bjarma var einstakt. Húsið þeirra var eitt allra fallegasta húsið í bænum og innanstokks var alltaf svo hlýlegt notalegt að setjast niður og spjalla saman. Oft spjölluðum við um barndóms- og unglingsárin og þá gátum við hlegið af strákapörunum frá í gamla daga sem voru ekkert sérstakt hlátursefni þegar þau voru framkvæmd. Er konan mín fór í nám til Sviss veturinn 1988 flutti ég mig á Eskifjörð í eitt ár. Þá voru Mæja og Malli enn í Bjarma og komu mínar þangað urðu æði tíðar þann vetur. Alltaf var það sama sagan. Veisluborði var slegið upp og mikið spjallað og hlegið.

Minningarnar um Bjarma eru einhverjar ljúfustu minningar sem ég á frá Eskifirði enda var ég alltaf meira en velkominn í það hús. Þegar þau hjónin fluttu suður bjuggu þau sér annað heimili á Maríubakka 12 í Reykjavík. Ég man alltaf eftir fyrstu heimsókn minni þangað. Það var sama góða hlýjan sem tók á móti manni þar eins og í Bjarma áður. Maður þekkti umhverfið um leið og maður kom inn fyrir þröskuldinn. Gömlu myndirnar voru komnar á nýjan stað, skrautmununum komið smekklega fyrir og allt í röð og reglu eins og það hafði allaf verið. Mæja var einstaklega glöð í nýju umhverfi, enda ekki langt að heimsækja bæði Danna og Örn. Henni fannst þó miður hvað Árni var langt undan enda var hann vanur að kíkja til foreldra sinna í hvert sinn sem hann kom í land áður en hann hélt upp í Egilsstaði þar sem hann hefur búið síðan hann festi ráð sitt.

En nú hafa leiðir skilist um sinn. María Daníelsdóttir hefur kvatt okkur og farið á fund eiginmanns síns í bjartri eilífðinni. Þar verður hún örugglega í móttökunefndinni þegar við förum að tínast þangað einn af örðum. Hugsunin um það er gleðigjafi á sorgartíma. Ég þakka Maríu ævilanga vináttu og tryggð. Ég var nánast einn af fjölskyldunni hennar og á eftir að minnast hennar með gleði í hjarta meðan ég dreg lífsandann. Við Inga sendum Daníel, Árna og Erni og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðni Þ. Ölversson

Mæja  frænka og föðursystir mín er fallin frá.   Á æskuárum mínum, þegar samgöngur voru hægar og ferðalögin löng, keyrðu þau Malli og strákarnir á hverju sumri alla leið frá Eskifirði  norður í  Syðra-Garðshorn.  Dagana sem þau voru á leiðinni var tíminn allt of  lengi að líða, eftirvæntingin og tilhlökkunin var mikil og náði hámarki þegar reykmökkur sást niður á braut og bíllinn þeirra birtist. Svo silaðist hann upp langa og holótta heimreiðina og renndi loks í hlað, mér fannst alltaf eins og framandi kvikmyndastjarna væri komin á bæjarhlaðið  þegar Mæja steig út því hún var svo falleg, flott og smart.  Mæja var góðhjörtuð, skemmtileg og  stríðin, hlátur hennar var smitandi og sterk nærvera hennar fyllti  bæinn af heilmiklu fjöri.   Áratugum síðar fluttu Mæja og Malli suður til Reykjavíkur en öll árin sem þau bjuggu á Eskifirði hafði staðurinn í huga mínum yfir sér ljóma af því að hún var þar.  Elsku Örn, Árni, Danni og fjölskyldur, ég og börnin mín vottum ykkur innilega samúð mína vegna fráfalls ykkar yndislegu, ástríku og fallegu Mæju.

Anna Guðlaug Jóhannsdóttir