Jódís Stefánsdóttir fæddist á Norður-Reykjum í Hálsasveit í Borgarfirði 31. október 1927. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 27. september 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Þorvaldsson, bóndi á Norður-Reykjum, f. í Hægindi í Reykholtsdal 24. júní 1892, d. 28.október 1971 og Sigurborg Guðmundsdóttir, f. í Dyngju á Hellissandi 24. september 1899, d. 5. ágúst 1978. Jódís var elst 6 systkina. Systkini hennar eru: Guðríður, f. 8. desember 1930, búsett í Lindarbæ, Reykholti. Þorvaldur, f. 15. júlí 1932, búsettur í Reykjavík. Kona hans Sveinbjörg Jónsdóttir. Þau eiga 5 börn. Guðrún Sigríður, f. 30. mars 1935, búsett í Reykjavík. Maki Óskar Ósvaldsson. Snæbjörn, f. 14. ágúst 1936, d. 5. janúar 2006. Sambýliskona Kristrún Valdimarsdóttir. Snæbjörn átti 4 börn með fyrrverandi konu sinni Helgu Benediktsdóttur. Þórður, f. 15. október 1939, búsettur á Arnheiðarstöðum sem er nýbýli út frá Norður-Reykjum. Kona hans er Þórunn Reykdal og eiga þau 2 syni. Þórður á kjördóttur frá fyrra hjónabandi. Eiginmaður Jódísar var Hálfdán Daði Ólafsson, f. í Bolungarvík, 3. ágúst 1926, d. 26. september 1993. Börn þeirra eru: Margrét, f. 19. september 1953. Maki Benedikt Jónsson. Hún á 4 börn, Sigurð Hálfdán, Guðna Frey, Snædísi Perlu og Húna. Hlédís Sigurborg, f. 31. júlí 1956. Maki Gunnar Sigurðsson. Þau áttu 3 börn, Róbert Anna, Jódísi Tinnu sem lést á fyrsta ári og Sunnu Kamillu. Stefán Grímur, f. 24. júlí 1958. Maki Rigmor Rössling. Hann átti 1 son, Brynjar, sem lést árið 2000, 24 ára að aldri. Móðir hans er Bylgja Bragadóttir. Kristján Gunnar, f. 4. ágúst 1960. Maki Guðríður Magnúsdóttir. Dóttir þeirra er Elín Arna. Jóna Daðey, f. 11. september 1961. Maki Albert Kristjánsson. Þau eiga 3 börn, Kristján, Halldór og Daðeyju. Guðrún Sigríður, f. 29. október 1963. Maki Gunnlaugur Guðmundsson. Þau eiga 2 börn, Birki Snæ og Jódísi Erlu. Fyrir átti Guðrún Silju Dögg. Faðir hennar var Sigurður Sveinsson, d. 4. júlí 2004. Barnabörnin voru 15 (tvö eru látin eins og áður kom fram; Brynjar og Jódís Tinna). Barnabarnabörnin eru 11. Jódís ólst upp á Norður-Reykjum til fullorðinsára. Hún stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti í 2 ár eftir skyldunám. Um tvítugt fór hún að fara til starfa í Reykjavík að vetrinum en var heima að sumrinu. Hún stundaði ýmis störf fram að giftingu. Frá árinu 1965 vann hún hins vegar ávallt fullan vinnudag, fyrst í Hraðfrystistöðinni og síðan hjá Bæjarútgerðinni. Seinna á lífsleiðinni vann hún við framreiðslustörf, á Kránni og í Múlakaffi. Hún vann einnig hjá Hollustuvernd en síðustu starfsár sín vann hún hjá Síldarréttum í Kópavogi. Útför Jódísar fór fram 6. október.

Ég hitti Jódísi fyrst einhverntíman um miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar ég var að draga mig á eftir Hlédísi, næstelstu dóttur Jódísar. Það var á Brekkustígnum í Vesturbæ Reykjavíkur og þessi fyrstu kynni okkar eru mér eftirminnileg. Jódís var að hlusta á kallinn hann Frank Zappa sem var (og er enn) í miklum metum hjá mér og við lentum strax í hrókasamræðum um kallinn og aðra sem töldust til jaðarmússíkanta í þá tíð.

Þannig var það alltaf með hana Dísu, að maður kom aldrei að tómum kofanum hjá henni, hvort sem um var að ræða músík, bækur, pólitík eða annað. Sjálfur var ég miklu takmarkaðri en hún, t.d. gat ég aldrei rætt við hana um hesta af nokkru viti en hestamennska var mikið áhugamál Dísu um árabil.

Við Hlédís bjuggum um skeið í Vesturbænum steinsnar frá Brekkustígnum þar sem Jódís bjó ásamt tengdaföður mínum, Hálfdáni Daða Ólafssyni, og var oft gott að eiga öðlinginn hana Dísu að. Róbert sonur okkar var þá kornungur og við hjónakornin kunnum lítið til barnauppeldis en við gátum ávallt leitað góðra ráða og aðstoðar hjá Dísu þegar á bjátaði. Ekki var heldur ónýtt að eiga hana að hérna fyrir vestan þegar Sunna Kamilla dóttir okkar var nýfædd.

Jódís var fordómalausasta manneskja sem ég hef kynnst og með mikla réttlætiskennd og kunni litlar þakkir þeim mönnum sem henni fannst fara fram með hroka og yfirgangi, svo sem þeim sem gerðu íslensku þjóðina samseka í árásarstríði í útlöndum.

Ég á eftir að sakna tengdamömmu, ég veit að hennar líkar eru ekki á hverju strái.

Gunnar.

Elskuleg móðir mín, Jódís Stefánsdóttir, hefði orðið 82ja ára í dag, þann 31. október.

Hún lést þann 27. september síðastliðinn og fór jarðarförin fram í kyrrþey.

Hún átti orðið allstóran ættboga, sex börn, fimmtán barnabörn og ellefu langömmubörn þó við tvær elstu dætur hennar hefðum einar séð um að gera hana að langömmu.

Hún var fædd að Norður-Reykjum í Hálsasveit í Borgarfirð og ólst þar upp í sex systkina hópi, við gott atlæti.  Hún gekk í Héraðsskólann í Reykholti og ef það hefðu verið aðrir tímar hefði hún líklega farið í langskólanám.

Hún var mjög bókhneigð og með ólíkindum fróð og minnug.  Hún hafði áhuga á allskonar tónlist, Hörður Torfa, Megas, Bubbi, óperur og heimsklassíkin var allajafna í spilaranum hjá henni.

En lífið fer oft öðruvísi.  Hún eignaðist sex börn á tíu árum, við tvær elstu systurnar erum fæddar að Norður-Reykjum og fóru foreldrar okkar ekki að búa saman fyrr en ég var orðin nokkura mánaða gömul.  Á þessum tíma var erfitt að fá húsnæði í Reykjavík en þangað lá leið flestra þá eins og nú.  Þau byrjuðu sinn búskap í Kamp-Knox  en fluttu síðar á Brekkustíg og bjuggu þar til ársins 1978 er þau slitu samvistum.

Þá flutti mamma í Breiðholtið með þrjú yngstu börnin.  Síðustu tólf árin bjó hún hjá Margréti, elstu systur minni.

Hún var gift Hálfdáni Daða Ólafssyni (Bóbó) frá Bolungavík, sem lést 26. september 1993.  Og var sambúðin við karl föður minn ekki alltaf auðveld.

Hún vann alla tíð mikið utan heimilisins sem var ekki mjög algengt á þeim tíma og var  lífsbaráttan lengst af hörð.

Hún var yndisleg mamma og amma og var mikið með barnabörnin sín.  Hún lagði á sig ófáar ferðir hingað vestur til okkar og þá oftast siglandi, því hún var mjög flughrædd.

Sumarið 1983 eignaðist ég yngsta barnið mitt og kom hún þá vestur til mín.  Árið áður hafði ég misst dóttur (Jódísi Tinnu) og vissi mamma að ég þyrfti mikinn stuðning.

Svona var hún móðir mín, ávallt reiðubúin að veita okkur þann stuðning sem hún gæti.

Ég veit að við eigum eftir að sakna hennar mikið, en ég veit líka að það verður vel tekið á móti henni hinum megin.

Guð geymi þig elsku mamma, þín dóttir

Hlédís (Héla).

Elsku besta amma mín.

Minningarnar um þig eru óendanlegar þar sem að þinn partur í æsku okkar systkinanna er svakalega mikill. Ég mun fyrst og fremst ávalt muna eftir þér sem yndislegri og hlýrri ömmu. Rauða kápan, svarta leður taskan og svörtu kuldastígvélin munu alltaf sitja fast í minningunni um þig ásamt öllum sögunum sem þú sagðir.

Við systkinin vorum nú ekki alltaf auðveld við þig, ég veit að við gátum gert þig ansi gráhærða á tímum með rifrildunum okkar, en það var samt aldrei langt í hláturinn hjá þér. Þú áttir alltaf ansi erfitt með að skamma okkur án þess að fara að flissa þar sem að uppátæki okkar Halldórs voru nú oftast frekar skrautleg. En það var það sem var líka svo einkennandi við þig, hvað var stutt í húmorinn hjá þér.

Ég man hvað við gátum setið tímunum saman inni í stofu og rifjað upp gamlar sögur. Þú og Baddi voruð alveg eins, með límminni þegar kom að gömlum minningum og sögum og þótti mér alltaf ótrúlega gaman að hlusta og hlæja með ykkur.

Það sem mér þykir einkenna þig mest er hlýjan sem þú bjóst yfir. Hvað það var alltaf gott þegar þú komst í heimsókn og gafst mér knús, kallaðir mig alltaf litla angann þinn. Það sem situr hvað sterkast í mér er þegar ég var að fara að sofa þegar ég var lítil og þú taldir alltaf á mér tærnar svo að ég sofnaði, sú aðferð klikkaði aldrei.

Það er í minningunum sem þú munt alltaf lifa með mér. Ég veit að þú munt alltaf vaka yfir mér og passa að ég fari ekki út án þess að fara í yfirhöfn svo að kuldaboli bíti mig ekki. Ég vil nota þetta tækifæri til að kveðja þig amma mín, og leyfa þér að vita það að minningin um þig mun ávalt lifa í hjartanu mínu.

Þín ömmustelpa,

Daðey