Birgitta Engilberts fæddist í Kaupmannahöfn 4. Nóvember 1934. Hún lést á Droplaugastöðum 28. júni síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Tove Engilberts, f. í Kaupmannahöfn 14. janúar 1910, d. 1.okt. 1995 og Jón Engilberts málari f. í Reykjavík 23. maí 1908, d. 12. febrúar 1972. Tvíburasystir Birgittu var Amý Engilberts, hún er látin. Birgitta bjó lengst af í Englaborg að Flókagötu 17 í Reykjavík ásamt foreldrum sínum við mikið menningarlegt atlæti. Birgitta lauk prófi í snyrtifræði frá Jean de Grasse 12.11 1953 og meistaranámi í líkamsnuddi sama ár. Útskrifaðist í fótaaðgerð frá Fótaaðgerar- og snyrtistofu Fjólu Gunnlaugs 30.5 1969. Meistarabréf í snyrtifræði 1986. Birgitta var stofnfélagi í Félagi íslenskra snyrtifræðinga. Hún var virkur félagi og sótti fjölda námskeiða í faginu þ.á.m Cidesco World congress í London 1973 og á Grikklandi 1975. Árið 1979 sótti hún nám í London hjá Eve Taylor professional Beauty. Árið 1999 var hún gerð að heiðursfélaga snyrtifræðinga, fyrir að vera elsti starfandi félagsmaður. Birgitta vann í 12 ár við nudd á Gufubaðstofu Jónasar Halldórssonar á Kvisthaga en lengst af rak hún Snyrtistofu Birgittu að Flókagtu 17. Árið 1958 giftist Birgitta; Jóhanni Gunnari Halldórssyni hljómlistamanni, f. 28. Júní 1928 d. 2. Júní l996. Þau eignuðust eina dóttur Gretu Engilberts kennara og förðunarfræðing, f. 20. apríl 1959. Þau skildu. Greta er gift Guðmundi Hilmarssyni flugstjóra hjá Cargolux og eiga þau tvö börn, Ellen Engilberts f. 1993 og Jón Engilberts f. 1998. Fyrir átti Greta dótturina Birgittu Engilberts f. 1986 kvikmyndafræðinema. Birgitta giftist ekki aftur en átti í mjög nánum vinskap við Svein Björnsson listmálara og lögreglumann eftir að hann varð ekkjumaður og varði það samband hátt á annan áratug á meðan Sveinn lifði en hann lést í apríl 1997. Útför Birgittu fór fram 14. júli í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Ég var 12 ára þegar ég kom fyrst í Englaborg til að passa Gretu, gulldropann á heimilinu, dóttur Birgittu Engilberts. Frá fyrsta degi var mér tekið eins og einni af fjölskyldunni, og í mörg ár var ég heimagangur í Englaborg. Bigga smitaði mig strax af leikhúsbakteríunni og við fórum oft saman í Iðnó. Ég gat endalaust hlustað á Biggu segja mér frá þegar hún dansaði ballett í Kaupmannahöfn og skoðað myndaalbúm hennar frá þeim tíma.
Bigga var einstök kona, og öllum góð, hún var móður sinni Tove stoð og stytta eftir að Jón féll frá. Bigga var nuddari og snyrtifræðingur og oft kom fyrir að Bigga hringdi í mig þegar lítið var að gera og bauð mér í nudd. Og á meðan ég lá á nuddbekknum hjá henni sagði hún mér frá Kaupmannahöfn og fólkinu sínu þar. Ég drakk í mig þessar frásagnir og þegar ég fór svo fyrst til Kaupmannahafnar fannst mér eins og ég hefði leiðsögn um borgina. Birgitta var falleg kona, umtalsgóð og fordómalaus, aldrei heyrði ég hana hallmæla nokkrum manni, tók fólki eins og það var. Einstök kona sem átti svo mikinn kærleik og hlýju er fallin frá eftir erfið veikindi. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar sem eru gull og gersemar í mínum huga. Kæra Greta og fjölskylda, ég sendi ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur. Ég bið Birgittu Engilberts blessunar og kveð hana með þökk og virðingu.
Katrín Hjartar Júlíusdóttir