Magnús Magnússon fæddist í Stavanger í Noregi 21. september 1989. Magnús lést í hörmulegu bílslysi að kvöldi 7. mars s.l. Útför hans var gerð þann 16. mars frá heimabæ hans og fjölskyldu hans í Lye Bryne. Foreldrar hans eru hjónin Sissel Sördal Magnússon fædd 4. maí 1962 og Magnús Heimdal Magnússon fæddur 17. júní 1962. Börn þeirra hjóna voru þrjú. Elst er Elísabeth Sördal Magnúsdóttir fædd 31. ágúst 1985, Magnús Magnússon fæddur 21. september 1989 og Kristian Heimdal Magnússon fæddur 12. júní 1991.

Mig setti hljóða að kvöldi 7. mars þegar sonur minn hringdi í mig og sagði mér frá láti sonar síns fyrr um kvöldið.  Öll voru þau svo langt í burtu en samt var stutt á milli okkar og enginn stendur einn.

Magnús bjó í foreldrahúsum, í kærleiksríku og kristilegu samfélagi.  Í Bryne heimabæ þeirra er mikið skólalíf og sérstaklega mikil og sterk íþróttastarfsemi.  Öll hafa systkinin starfað í íþróttahreyfingunni bæði fótbolta, handbolta og fleiri íþróttagreinum.

Mig langar til að rifja upp þær yndislegu bernskustundir frá þeim tíma þegar fyrsta barn þeirra kom heim með foreldrum sínum um hásumar og dvaldi í fríinu hjá afa og ömmu.  Síðar bættust bræðurnir við ár eftir ár.  Það var mikið tilhlökkunarefni að fá þau heim, allt fylltist af lífi og fjöri þegar ljóshærðu krakkakollarnir voru mættir, boltaleikir í garðinum og fastir liðir voru þegar öll fjölskyldan fór í sund hvern einasta dag.  Föðurbróðir og fjölskylda, svo og aðrir vinir og vandamenn, gerðu þessar fáu vikur eftirsóttar og ánægjulegar á allan hátt.  Þá voru elskulegir nágrannar með mörg börn í næsta húsi sem sameinuðust norsku systkinunum og mynduðu góða og elskuríka vináttu ár eftir ár og ekki voru tungumálaerfiðleikar þar.  Þegar unglingsárin byrjuðu átti Magnús margar ángægjustundir við fluguveiðar með föður sínum þar sem hann naut útiveru með stöng í hendi.  Strax eftir hefðbundna skólagöngu var Magnús ákveðinn hvað hann ætlaði að læra og starfa við.  Hann ætlaði að verða húsasmiður.  Hann var á samningi hjá meistara í Stavanger og lífið brosti við honum.  Stuttu fyrir þennan hörmulega dag talaði hann við föðurbróðir sinn hér, sem búinn var að dvelja 27 ár í Osló, og sagði honum að hann langaði að koma til Íslands í sumar, vildi hitta frænda sinn, ásamt sínu fólki.  Breyting varð á þeirri áætlun.

Hlýjar fyrirbænir streyma til foreldra, systkina og vina frá fólkinu og íþróttafólkinu í Bryne og íslenskum vinum um að þeim gefist styrkur til þess að yfirstíga þessa erfiðu tíma.  Við útför Magnúsar gátu báðir föðurbræður hans borið hann síðasta spölinn á þessari jörð.

Við afi biðjum góðan Guð að hlusta á bænir okkar Magnúsi til handa, syni, tengdadóttur, systkinum og litlu börnum Elísabeth og hennar fjölskyldu.  Aðalsmerki Magnúsar voru hógværð, kurteisi, hjálpsemi og yndislegt bros.  Góður Guð láttu okkur öll líta fram á veginn og horfa þar sem ljósið skín.

Hvíli okkar kæri sonarsonur í friði og kærleika:  Þess biðja amma og afi.

Guðbjörg María Gunnarsdóttir og Magnús S. Magnússon.