Helga Ingunn Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 13. október 1930. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 24. júní sl. Foreldrar hennar voru Ástríður Stefanía Sigurðardóttir, f. á Harastöðum í Vestur-Húnavatnssýslu 14. mars 1899, d. 18. desember 1975 og Kristinn Júlíus Guðnason, f. á Hlemmiskeiði í Árnessýslu 14. júlí 1895, d. 9. ágúst 1978. Systkini Helgu eru: a) Ása, f. 7. janúar 1932, gift Svavari Björnssyni, f. 20. mars 1932 og b) Ólafur, f. 4. júlí 1934, kvæntur Auði Lindu Zebitz, f. 11. desember 1935. Helga giftist 9. júlí 1966 Ólafi R. Magnússyni prentara, f. 15. ágúst 1924. Foreldrar hans voru Magnús Brynjólfsson, f. 26. maí 1895, d. 31. janúar 1971 og Margrét Ólafsdóttir, f. 1. desember 1900, d. 10. júní 1988. Sonur Helgu og Ólafs er Kristinn Axel Ólafsson, f. 9. mars 1968. Börn Ólafs af fyrra hjónabandi eru: a) Valgerður Guðrún, f. 19. mars 1950, gift Niels Peter Olaf Buck, f. 5. janúar 1947, d. 12. mars 2003. Dóttir þeirra er Vala Cristina, f. 26. maí 1977, gift Kristoffer Bramsen. Börn þeirra eru tvíburarnir Alfred og Ida, f. 23. júní 2009. b) Margrét, f. 16. desember 1952, gift Má Viðari Mássyni, f. 1. desember 1949. Dóttir þeirra er Halla Dögg, f. 21. júní 1985, sambýlismaður Ægir Björn Ólafsson. Fyrir átti Már dótturina Snædísi Erlu, f. 7. janúar 1970. c) Pála Kristín, f. 8. ágúst 1957, gift Kristjáni Birni Ólafssyni, f. 17. apríl 1958. Börn þeirra eru Atli Freyr, f. 26. mars 1992 og tvíburarnir Ívar Óli og Emil Örn, f. 20. júní 1995. Útför Helgu verður gerð frá Dómkirkjunni í dag, 3. júlí, og hefst athöfnin kl. 15.
Elsku hjartans amma mín - elskan hans afa, þá ertu sofnuð og lögð af stað í þitt síðasta ferðalag. Mikið sem ég sakna þín en um leið fagna ég því að þú ert nú laus úr sárum líkama og finnur ekki til.
Mikið hef ég haft það gott að eiga þig sem ömmu, sterkari og duglegri konu væri erfitt að finna þótt víða væri leitað.
Alltaf hef ég getað leitað til þín með spurningar af ýmsu tagi og gengið að því vísu að þú vissir svarið, og gott betur. Því klár varstu amma mín, sú allra klárasta.
Þú ert alvöru fyrirmynd fyrir unga stúlku, ungling og loks unga konu.
Takk fyrir allar yndislegu minningarnar sem þú skildir eftir handa okkur sem elskum þig.
Sofðu rótt
.
Þín
Halla Dögg.