Reynir Pálsson fæddist í Hafnarfirði 2. mars 1945. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 22. mars 2009. Foreldrar hans voru Ingibjörg Jónsdóttir, f. 22.11. 1917, d. 8.1. 1989, og Páll Guðmundsson, f. 13.2. 1918, d. 17.1. 2003. Systkini Reynis eru Anna, f. 26.7. 1939, Guðrún, f. 15.9. 1943, Rúnar, f. 2.3. 1945, og Elín, f. 1.12. 1949. Reynir ólst upp á Álfaskeiði 39 í Hafnarfirði. Hann bjó þar með móður sinni þar til hún lést árið 1989. Eftir lát hennar var heimili hans á Sléttahrauni 17. Hann gekk í Lækjarskóla í Hafnarfirði og síðan í Flensborg. Eins og algengt var á þessum árum fór Reynir í sveit að Gilsstöðum í Vatnsdal og síðar að Hallgilsstöðum í Hörgárdal þar sem móðursystir hans bjó. Sveitastörf áttu vel við Reyni, umgengni við dýr og almenn sveitastörf. Síðar á ævinni fór hann sem vinnumaður að Ási í Vatnsdal og undi hann hag sínum vel hjá því sæmdarfólki sem þar býr. Reynir var aðeins 16 ára er skóli lífsins tók við. Hann var togarasjómaður lengst framan af og síðar stundaði hann almenn verkamannsstörf. Reynir var ókvæntur og barnlaus. Útför hans fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 1. apríl, kl. 15.
Ég vissi um kátan dreng, lágvaxinn, vöðvastæltan prakkara, grínista og tvíbura, en fyrst og fremst glaðan og góðan dreng á þeim árum sem við vorum að alast upp. Það voru þrennir tvíburar að alast upp á Álfaskeiðinu í Hafnarfirði á þessum árum, að lifa og leika sér til sóma sínum systkinum og foreldrum. Til sóma öllum, að búa sig undir lífið og tilveruna. Nú erum við komnir á sjötugsaldurinn og týnum tölunni eitt og eitt!
Röðin var komin að þér. Nú ert það þú. Glettnastur og kátastur af okkur öllum. Fimleikadrengurinn ljúfi, sem sagði okkur öllum sögur og gladdi með ímynduðum og góðum draumum úr lífi sínu og reynslu.
Allir drengir og stúlkur sem ólust upp á Álfaskeiði og Vitastíg, Hverfisgötu og Austurgötu, Sunnuvegi og Tjarnarbraut og stíganna þar á milli upp úr seinna stríði voru vinir og hetjur. Við áttum öll svo svipaðan grunn. Allir sem einn sóttum við sunnudagaskóla", hvort sem var hjá sr. Sigmundi eða Óla Vigfúsar hjá Zion", Hvítasunnusöfnuðinum á Herjólfsgötunni eða blessuðum vinunum í KFUM. Allir mættu. Stundum mörg hundruð. Og einn af þeim varst þú. Góði drengurinn. Og svo fórum við allir í bíó. Lex Barker og Johnny Weissmüller sem "Tarzan apabróðir" eða Dale Evans og Roy Rogers og hesturinn Trigger. Við munum Roy kemur til hjálpar". Alltaf til staðar þegar hætta steðjaði að.
Já, strákarnir í þessum gömlu götum voru alltaf vinir. Pabbarnir unnu allan daginn og margir voru á sjónum og áttu það til að skvetta úr klaufunum þegar einhver átti frí eða einhver átti pening. Allir vinir. Já, allir voru vinir. Fólkið þekkti hvort annað og í raun bjuggu allir saman. Það var skilningur og náungakærleikur. Mæðurnar með börnin sín bönkuðu upp á hver hjá annarri. Þetta var kærleikur. Náungakærleikur. Og ef ein átti ýsu, sem hún þurfti ekki að nota í dag, gaf hún hana til móður sem átti minna og í rauninni ekki neitt. Lífið var kærleikur eins og Jesús sjálfur. Og þegar sagt var að maður skildi elska náungann eins og sjálfan sig átti það við í þessu samfélagi. Gott fólk, sem er sárt saknað. Og Reynir var sannarlega einn af þessu góða fólki.
Reynir var gulldrengur" rétt eins og vinir mínir í Hafnarfirði á þessum árum og munu alla tíð vera. Þegar ég segi gulldrengur" meina ég það. Af þessu litla svæði, götum og stígum, komu meistarar FH og Hauka til margra ára.
Endalausar æfingar. Hver man ekki eftir landsliðsmönnum frá þessum árum? Geir Hallsteinssyni, Erni, bróður hans, Rúnari Páls, Vidda Sím, Þórarni Ragnars, Hjalta og fleirum sem um árabil fóru fyrir landsliði Íslands fyrr á árum. Hver af okkur man ekki eftir Engidal, Alla Sveins-túni, Simbatúni, Fit, svæðinu innan við Setberg og fleiri slíkum sem æft var á - auk bílskúrshurða og gömlu Brunastöðinni" við Álfaskeið. Við munum þá daga og Reynir man þá daga.
En svo syrti í álinn. Það var ekki alltaf sól og sumar. Haustið kom. Eftir allan vinafagnaðinn knúði sá dyra sem síst skyldi. Bakkus. Með öllum sínum snilldarleik, með öllu sínu falsi og viðbjóði kom hann að dyrunum og var um síðir hleypt inn. Og þá kvöldaði fyrir marga. Fyrir áratugum var horft á kvikmyndina Glötuð hetja", sem lýsti lífi fallegrar fjölskyldu sem í ást og fátækt háði vonlitla baráttu við Bakkus. Í lífinu er mörg glötuð helgin og margir glataðir dagar. Feður og mæður áttu margar glataðar helgar þó svo að móðir mín drykki aldrei né tæki þátt í slíku.
Ég á svo margar minningar um Reyni - svo góðar. En þrátt fyrir kærleikann, drengskapinn og trúna þurfti hann að gjalda lífsins. En enginn getur farið í spor hans. Það getur enginn. En það er hægt að ganga við hlið. Þannig eru vinir. Áfram saman í huga. Þannig mun Reynir ganga um Álfaskeiðið og hinn hýra Hafnarfjörð" með brosið sitt bjarta og bjóða góðan dag. Hann veit að eftir strangan vetur kemur vor og sumar og allir sem á undan voru farnir munu fagna honum. Þú elskaðir Jesú og varst svo viss um að hann tæki á móti þér. Þú varst sonur hans.
Stundum er erfitt að vera til. Stundum var myrkrið sterkara en sólin. En Reynir elskaði vorið. Tvíburinn sem elskaði jólin! Ný jól. Nú fær hann þau. Og allir elskuðu Reyni. Rúnar - tvíburinn, mamma hans, hún Imma, pabbi hans Palli, Gugga, Anna og Ella litla og allir gömlu vinirnir.
Nú gengur Reynir ljúfa braut. Við vonandi hittumst hjá Guði, sem elskar okkur. Þó breyskir séum. Þótt Reynir hafi gengið erfiða braut verður honum fagnað heima. Í raun gekk hann einn. Allt til enda. En nú tekur besti vinurinn á móti honum. Loksins kominn heim. Kominn heim þar sem allir fá hvíld og kærleika.
Strákarnir í Hafnarfirði á öllum árum voru vinir. Ég var einn af þeim. Reynir var einn af þeim. Við deyjum öll, en minningin um Reyni Páls mun lifa.
Gakk upp! Mót ástríðuher! Jesús er í verki með þér! Áfram, Kristsmenn - krossmenn!
Þinn vinur,
Ævar Harðarson