Ingeborg Dorothea Günther Skeggjason fæddist í Neugersdorf í Þýskalandi 25. september 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 29. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Anna Kristina og Max Günther. Yngri bræður hennar, Frithjof og Sigfrid, eru báðir á lífi. Ingeborg lærði hjúkrun á sjúkrahúsi Diakoni-systra í Hirshberg í Riesengebirge. Eftir stríð kom Ingeborg til Íslands og hóf starf við hjúkrun á elliheimilinu Grund 1949. Þar starfaði hún með hléum næstu áratugi, loks sem yfirhjúkrunarfræðingur frá 1968-1982. Eiginmaður Ingeborgar var Knútur Skeggjason, tæknimaður og síðar safnvörður við Ríkisútvarpið, f. á Ísafirði 21. apríl 1924, d. 3. desember 1996. Dóttir þeirra er Ása Kristín, f. 1959. Börn hennar eru Þuríður Annabell, f. 1983, Yvonne Dorothea, f. 1985, og Hjalti, f. 1990. Dæturnar færðu Ingeborgu þrjá langömmudrengi, Heiðar Mána, Einar Ágúst og Róbert Frey. Ingeborg og Knútur bjuggu lengi á Brávallagötu 18 og síðar á Kvisthaga 16 í Reykjavík. Þar bjó hún áfram eftir lát eiginmannsins. Fyrir nokkrum árum fór hún á elliheimilið Grund, en síðastliðið haust fluttist hún að Lækjarteigi í Ölfusi. Ingeborg var jarðsungin frá Neskirkju í Reykjavík 7. ágúst.

Árið 1978 keyptum við hjón íbúð á annarri hæð á Kvisthaga 16. Þegar þau kaup voru um garð gengin sagði seljandinn okkur frá því að hann hefði nýverið selt risíbúðina fyrir ofan Knúti Skeggjasyni og konu hans Ingeborgu. Knút þekkti Gunnar sem góðan samstarfsmann við Útvarpið. Hann var hæglátur maður og prúður, mjög fær tæknimaður og hafði nokkrum árum fyrr tekið við umsjá með segulbandasafninu. Ingeborgu þekktum við hins vegar ekkert fyrir. Hún var myndarleg kona, ólík bónda sínum að skapferli, ekki mjúk á manninn, hafði ákveðnar skoðanir og skirrðist ekki við að finna að því sem hún taldi miður fara.

Smám saman varð okkur ljóst að bak við nokkuð hrjúft yfirborð var áreiðanleg og umhyggjusöm kona sem við mátum því meir sem sambýli okkar á Kvisthaganum stóð lengur. Skapgerð Ingeborgar hefu mótast bæði af erfðum og uppeldi. Hún ólst upp á tíma þriðja ríkisins í Þýskalandi, undir ógnarvaldi sem við getum varla gert okkur í hugarlund. Að stríði loknu var landið í rústum og þá urðu margir Þjóðverjar að leita gæfunnar annars staðar. Ingeborg var í stórum hópi ungra þýskra kvenna sem leituðu til starfa á Íslandi. Hún hafði nægan viljastyrk til að leggja á nýjar slóðir, festi hér rætur og vann íslensku þjóðfélagi vel. Hún náði slíku valdi á íslensku að varla kom fyrir að henni skeikaði í málinu.

Við urðum þess fljótt vör að Ingeborg hafði græna fingur og var hún sá íbúi hússins sem sýndi garðinum mikla rækt. Eftir fárra ára dvöl þeirra hjóna í húsinu veiktist Knútur alvarlega, gekkst undir mikla hjartaaðgerð og var óvinnufær eftir það. Þetta var mikið áfall og duldist ekki hve það fékk á Ingeborgu. Það kom í hennar hlut að annast um bónda sinn sem gat tæpast farið út af heimilinu. En þau tóku þessu bæði með stillingu og áreiðanlega efldist samlyndi þeirra á þeim árum sem í hönd fóru.

Þegar við fluttum á Kvisthagann voru eldri börnin okkar, Atli og Svava, á barnsaldri, tólf og átta ára. Rúmum þremur árum síðar bættist Auðun í hópinn. Ingeborg var honum einstaklega góð og hugulsöm alla tíð. Hún var kattavinur, kötturinn Pési átti lengi gott skjól hjá henni. Hún fór um hverfið á reiðhjóli sínu og stundaði reglulega sund í Vesturbæjarlaug. Það voru mikil umskipti fyrir okkur öll þegar Ingeborg flutti burt. Í okkar huga var hún eins konar verndarandi hússins. Návist hennar var fastur punktur, veitti okkur öryggiskennd sem okkur fannst við varla mega án vera.

Síðustu árin urðu Ingeborgu mótdræg vegna ýmiss konar sjúkleika sem á hana sótti og erfiðra læknisaðgerða sem hún þurfti að gangast undir. Allt slíkt virtist hún hrista af sér með viljaþrekinu. Hún hlakkaði mjög til þess að flytjast austur fyrir fjall til að búa þar í námunda við dóttur sína. Þess sambýlis naut hún skemur en vonir stóðu til. Við kveðjum Ingeborgu G. Skeggjason með virðingu og þökk fyrir góð kynni og trausta samfylgd. Hún hvíli í friði.

Gerður, Gunnar og Auðun, Kvisthaga 16.