Emilía Guðmundsdóttir fæddist á Gnýstöðum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu 21. mars 1908. Hún lést á Droplaugarstöðum 27. júlí sl. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Jónsson bóndi, f. 10. júlí 1845, d. 27. janúar 1923, og kona hans Marsibil Magðalena Árnadóttir, f. 7. ágúst 1870, d. 23. júní 1942. Systkini Emilíu voru Árni Jón, f. 26. júlí 1899, Jóhannes Óli, f. 28. ágúst 1900, Margrét Jenný, f. 11. desember 1903 og Sesilía, f. 31. desember 1905, Hálfsystkini hennar voru Helga, f. 29. ágúst 1869, Emilía, f. 7. júlí 1875, Pétur, f. 28. nóvember 1876, Margrét, f. 16. desember 1877, Ólafur, f. 4. júní 1879 og Jón Leví, f. 27. janúar 1889. Emilía ólst upp á Gnýstöðum en fór til starfa í Reykjavík árið 1930 og dvaldist þar næstu vetur en var heima á sumrum og einnig í kaupavinnu í Borgarfirði tvö sumur. Í Reykjavík starfaði Emilía fyrst á heimilum og saumaverkstæðum en lengst á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg við framreiðslu og saumaskap í 28 ár. Emilía var ógift og barnlaus en hélt heimili með Kristínu Eggertsdóttur frá Sauðadalsá á Vatnsnesi. Stóð heimili þeirra Emilíu og Kristínar (Emmu og Stínu) á Snorrabraut 73 opið ættingjum og vinum að norðan um lengri eða skemmri tíma. Eftir að Kristín lést árið 1995 bjó Emilía ein þar til hún fluttist á hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði árið 2006. Útför Emilíu fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, miðvikudaginn 5. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13.

Vináttan er eitt af því dýrmætasta sem við eignumst í lífinu. Vinátta þar sem við eigum í samskiptum við fólk sem lætur sér umhugað um okkur og vill okkur allt hið besta.

Við fjölskyldan vorum svo lánsöm að eiga vináttu Emilíu Guðmundsdóttur eða Emmu eins og við jafnan kölluðum hana. Fyrst var það Guðlaug Helga sem kynntist Emmu og vinkonu hennar Stínu (Kristínu Eggertsdóttur) þegar hún bjó í fjölskylduhúsinu á Snorrabraut 73 sem afi hennar Ellert K. Magnússon byggði ásamt eiginkonu sinni Guðríði Þorkelsdóttur. Emma og Stína bjuggu í kjallaranum og voru sem hluti af fjölskyldunni. Börnin í húsinu komu aldrei þar að læstum dyrum, það var sama hversu snemma knúð var dyra. Alltaf var börnunum boðið inn, boðið upp á veitingar og þau fengu að fara í leikfangaskápinn, þar sem allt var fullt af dóti sem leiddi þau inn í sannkallaðan ævintýraheim. En það voru ekki bara börnin í húsinu sem nutu gestrisni þeirra Emmu og Stínu því ósjaldan komu krakkarnir úr nærliggjandi húsum og þáðu hjá þeim velgjörðir. Emma og Stína voru fastur punktur í tilverunni, góðu konurnar í kjallaranum eins og þær voru kallaðar af börnunum í hverfinu.

Við hjónin áttum því láni að fagna að búa á ,,ættarsetri" Guðríðar og Ellerts um árabil.

Þá fengu börnin okkar að kynnast Emmu og Stínu á sama hátt og móðir þeirra sem barn og eignast vináttu þeirra. Einar Daði elsti sonur okkar á margar minningar um samverustundir í kjallaranum hjá Emmu og Stínu þar sem þær smurðu handa honum rúgbrauð með rúllupylsu, gáfu honum pönnukökur og annað ,,bakkelsi" og svo sat hann í eldhúsinu hjá þeim og lét fara vel um sig. Ef foreldranir voru að hans mati of uppteknir þá trítlaði hann niður stigann beinustu leið í kjallarann og dvaldi þar löngum stundum. Emma saumaði handa honum öskudagsbúninga af margvíslegum toga, eitt árið var það Simbi sjálfur, konungur ljónanna og annað árið risaeðla af stærstu og flottustu gerð. Guðný Helga dóttir okkar minnist einnig hlýjunnar og umhyggjunnar sem hún mætti þegar hún skaust af efstu hæðinni í kjallarann í heimsókn. Stína lést árið 1995 og við hjónin minnumst þess þegar Emma lagði leið sína upp á efstu hæðina, í risið, til að tilkynna okkur andlát hennar. Það var mikill missir fyrir hana eins samrýmdar og þær vinkonur voru.

Eftir að við síðan fluttum af Snorrabrautinni héldum við áfram tengslum við Emmu. Hún var í okkar huga einstök, trygg vinum sínum, með hjartað á réttum stað og tilbúin til að gleðja okkur vini sína. Hún náði ótrúlega háum aldri og hélt reisn sinni til hinsta dags.

Með þessum kveðjuorðum viljum við fá að þakka henni fyrir vináttuna og stundirnar á Snorrabrautinni, í Teigagerðinu og á Droplaugarstöðum þar sem hún dvaldi síðustu ár.

Við færum nánustu aðstandendum Emmu okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að blessa minningu okkar kæru vinkonu.

Guðlaug Helga, Lárus og börn.