Laufey Þorgeirsdóttir, húsfreyja í Reykjavík, fæddist 14. ágúst 1914. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 31. júlí sl. Foreldrar Laufeyjar voru Louise Símonardóttir, f. á Hesti í Álftafirði 31.12. 1876, d. 20.12. 1966, og Þorgeir Jörgensson, f. á Hala, Ölfushr. 1.3. 1865, d. 17.10. 1938, stýrimaður í Reykjavík. Systkini Laufeyjar eru: Sigríður, f. 1.10. 1903, d. 22.1. 1904. Albert, f. 29.07. 1905, d. 16.9. 1990. Anna María Leopoldína, f. 30.9. 1907, d. 17.6. 1987. Sigríður, f. 21.9. 1909, d. 26.1. 1965. Lúðvík Thorberg, f. 2.11. 1910, d. 27.12. 1996. Gunnar Halldór, f. 22.12. 1911, d. 21.2. 1912. Camilla, f. 4.7. 1913, d. 22.4. 1976. Ólöf Kristín, f. 23.8. 1916, d. 2.10. 2004. Gunnar Valur, f. 15.4. 1918, og uppeldisbróðir Kormákur Sigurðsson, f. 6.9. 1924, d. 23.12. 2003. Laufey giftist 11.5. 1935 Theodóri Guðmundssyni, vélsmíðameistara í Reykjavík, f. 8.8. 1912, d. 21.12. 1981. Foreldrar hans voru Guðmundur Sæmundsson, f. 17.6. 1861, d. 6.7. 1940, og Kristín Þórðardóttir, f. 27.7. 1877, d. 11.5. 1930. Börn Laufeyjar og Theodórs eru: 1) Louise Kristín, f. 24.8. 1934. M. Ragnar Már Hansson, f. 18.7. 1931, d. 18.10. 2003. Börn þeirra eru fjögur, barnabörnin ellefu, barnabarnabörnin tíu og eitt barnabarnabarnabarn. 2) Hlíf, f. 31.7. 1937. M. Sigurjón H. Herbertsson (skildu), f. 3.3. 1938, d. 21.11. 1995. M. Baldur Sæmundsson, f. 13.4. 1936. Börn Hlífar og Sigurjóns eru þrjú og barnabörnin eru fimm. 3) Þorgeir, f. 23.5. 1940. M. Birna Björnsdóttir, f. 12.10. 1942. Börn þeirra eru fjögur, barnabörnin þrettán og eitt barnabarnabarn. 4) Guðmundur Ægir, f. 20.2. 1952. M. Ingveldur Ragnarsdóttir, f. 26.3. 1953. Börn þeirra eru þrjú og eitt barnabarn. Afkomendur Laufeyjar og Theodórs eru því sextíu og ættliðirnir sex. Laufey var íþróttakona á yngri árum og æfði og keppti í sundi með Sundfélaginu Ægi. Á þessum árum var oft keppt og æft í sjónum. Einnig stundaði hún fimleika og keppti í handbolta með Ármanni. Laufey og Theodór giftust 11. maí 1935 og byrjuðu sinn búskap á Njálsgötunni en bjuggu lengst af á Flókagötu 9 í Reykjavík. Laufey vann um tíma í bakaríi og stóð oft við pönnukökubakstur langt fram eftir degi. Eftir að börnin fæddust sá hún um heimilsstörfin og var sannkölluð húsmóðir af gamla skólanum enda bar fallegt heimilið þess glöggt vitni. Laufey hafði gaman af hannyrðum og hvers kyns útsaumi og lék allt í höndum hennar. Á efri árum fékk hún mikinn áhuga á prjónaskap og prjónaði hún ófáar peysurnar sem börn, barnabörn og fleiri fengu að njóta. Síðustu æviárin dvaldi Laufey á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík. Útför Laufeyjar fór fram frá Bústaðakirkju 14. ágúst í kyrrþey.

Frá unga aldri var ég oft í pössun hjá ömmu Laufeyju og þótti það frábært. Nú þegar ég skrifa þessar línur og rifja upp stundirnar með ömmu fer ég að brosa um leið og tárin renna niður kinnarnar. Ég man eftir litlu skálinni sem var á stofuskápnum full af nammi og mér þótti frekar gaman að velja mér eitthvað úr henni. Alltaf átti amma nóg af nammi til að fylla í skálina þegar einhver var búinn að vera full gráðugur. Ömmu þótti gaman að spila og leggja kapla. Oft spiluðum við Olsen Olsen og Veiðimann en uppáhalds spilið okkar var Marías. Var hún að mínu mati ókrýndur meistari í því spili, þó svo að á einhvern undraverðan hátt náði ég að vinna nokkrum sinnum.

Okkur þótti gaman að kasta bolta á milli og eftir því sem ég varð eldri og gat kastað fastar fannst mér amma vera rosalega góð í að grípa. Það skildi ég betur seinna þegar ég komst að því að amma hafði æft handbolta á yngri árum. Það skýrir einnig hvað amma fussaði og sveiaði yfir fótboltaleikjum í sjónvarpinu. Hún skildi ekki hvað leikmennirnir voru lengi að dúlla sér með boltann fram og til baka í stað þess að skjóta bara á markið. Ógleymanlegar eru allar kökusortirnar sem amma bakaði: brúna súkkulaðitertan, hvíta kakan með bleika kreminu og sultunni á milli (uppáhaldið mitt) og kakan sem amma bakaði alltaf á jólunum, en sú var fjórar þunnar hæðir með sultu á milli.

Ekki fyrr en nú sé ég hvað ég er ótrúlega heppinn að hafa átt þessar stundir með ömmu. Ég er einnig mjög þakklátur að hún fékk að sjá og halda á syni mínum áður en hún kvaddi þennan heim.

Ég á eftir að sakna hennar mikið en get alltaf minnst hennar næst þegar ég horfi á enska boltann og skammast yfir óþarflega miklu dúlleríi hjá mínum mönnum. Ég elska þig amma og mun aldrei gleyma þér.

Theodór og fjölskylda.

Ég hef verið að hugsa mikið til þín síðustu daga og rifja upp gamla tíma.

Elsku amma Laufey, takk kærlega fyrir allar okkar góðu samverustundir og góðu minningarnar.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
og lýstu mér um ævistig.
/
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
/
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér.
Því veit mér feta veginn þinn
og verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)

Hvíl í friði elsku amma mín.

Laufey Theodóra Ragnarsdóttir.