Frans Magnússon fæddist í Búdapest í Ungverjalandi 27. maí 1937. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 7. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Magyar Ferenc og Magyar Emelia, þau eru bæði látin. Frans kom úr stórum systkinahóp, þau voru 11 talsins. Hann kom til landsins sem flóttamaður 24. desember 1956 og hefur verið búsettur hér síðan. Börn Frans eru: 1) María Jósefsdóttir, f. 9.9. 1958, húsmóðir, í sambúð með Ingólfi Guðbrandssyni málmiðnaðarmanni, f. 25.2. 1969. Þau eiga 4 börn, einnig á hún 4 börn frá fyrri sambúð. 2) Valdís Hildur Fransdóttir, f. 6.7. 1976, leiðbeinandi við Grunnskólann í Sandgerði, í sambúð með Atla Þór Karlssyni sjómanni, f. 16.11. 1979. Þau eiga 2 dætur. 3) Emelía Elín Fransdóttir, f. 30.4. 1986, í sambúð með Hafþóri Atla Hallmundssyni, f. 23.9. 1981. Þau eiga eina dóttur. Eftirlifandi eiginkona Frans er Elín Jónasdóttir, f. 18.7. 1945 í Öxney á Breiðafirði, fyrrverandi stuðningsfulltrúi. Þau giftu sig árið 1986. Foreldrar Elínar voru hjónin Jónas Jóhannsson og Ingigerður Sigurbrandsdóttir, bæði ættuð úr Breiðafirðinum. Frans og Elín áttu saman eina dóttur, Emelíu Elínu, fyrir átti Elín tvo drengi. Þeir eru: 1) Sigurbrandur, f. 29.8. 1966, kvæntur Rannveigu Jóhannsdóttur, f. 28.5. 1976, og eiga þau saman 2 dætur. 2) Bjarki, f. 23.3. 1972, kvæntur Sólveigu Þorleifsdóttur, og eiga þau 4 börn. Frans stundaði sjómennsku í 40 ár á ýmsum fiskiskipum, síðast á Má frá Ólafsvík þar sem hann lét af störfum árið 1996 vegna slyss. Útför hans fer fram frá Akraneskirkju í dag, 17. apríl, kl. 14.

Þá er komið að kveðjustund elsku afi minn, og kveð ég þig með þessum orðum.

Þó mér finnist þú hafa farið heldur fljótt þá veit ég að þér líður betur núna og og passar upp á okkur hin sem eftir standa.  Eins og þú ávallt gerðir, tókst á móti manni með opnum örmum sama hvað það var sem bjátaði á.  Ég elska þig, þú varst mér sem faðir þegar ég þurfti mest á því að halda, dæmdir aldrei en alltaf til staðar.  Ég vil þakka þér fyrir að kynna mig fyrir hestum og koma af stað einu skemmtilegasta og fjölskylduvænsta áhugamáli sem ég veit um, það bjargaði mér og minni fjölskyldu á svo margan hátt sem hugsast getur, fyrir það þakka ég þér.

ÉG man alla yndislegu reiðtúrana og stundirnar í hesthúsinu, alltaf svo kátur, alltaf syngjandi og alltaf svo góður við afabörnin þín, þau höfðu yndi af þér og gátu alltaf hlustað á sögurnar þínar.  Afi minn svo hógvær, blíður, fyndinn og dugnaðarforkur, lést aldrei deigan síga á sjó, hestbaki eða eltandi rollur yfir fjöll og fyrnindi.  Við söknum þín. Guð geymi þig og gefi þér frið.

Saknaðarkveðjur,


Sólveig og fjölskylda.


Jæja Fransi minn, þá er er tíminn kominn. Það voru algjör forréttindi að fá að kynnast þér.  Að koma uppá Skaga og heimsækja þig og Ellu var alltaf gaman.  Það er svo skrýtið þegar maður sest niður og ætlar að skrifa minningargrein um þig þá eru hreint ótrúlega margar góðar minningar sem skjóta upp í huga minn og þyrfti mikið lengri pistil til að koma broti af því fyrir. Þú varst mikill höfðingi, vildir allt fyrir alla gera, yfirleitt jákvæður og hress. Ég þakka þér fyrir allt sem ég fékk frá þér kæri vinur.  Þótt ég hafi ekki þekkt þig nema tæpan áratug þá var svo margt sem þú hafðir árhif á í mínu lífi og fyrir það mun ég ævinlega þakka.

Guð geymi þig og ég veit að fylgist með úr fjarlægð.
Kveð þig að sinni kæri vinur.




Addi.

Jæja þá er hann Frans farinn frá okkur eftir stutt veikindi. Hefðum við viljað hafa hann lengur hjá okkur, en það var ekki okkar að ákveða. Við vitum að hann er á góðum stað og hefur það gott og brosir sínu stóra brosi til okkar. Var ég á unga aldri þegar ég sá Frans í fyrsta sinn á Neshaganum þegar hún mamma kom með hann og kynnti hann fyrir Svövu, Jóhanni og mér. Man ég eftir þessu eins og það hefði gerst í gær. Kom hann inn, gekk beint að Jóhanni og Svövu, kynnti sig, kom svo síðan til mín með bros á vör og sagði þú ert Anný, mikið er gaman að sjá þig. Svava vísaði okkur inn í stofu þar sem hún hafði kaffi og kökur. Andrúmsloftið til að byrja með var dálítið þungt , því enginn viss hvað átti að segja. En það tók nú ekki langan tíma að þiðna, mikið var talað og sögur sagðar og mikið hlegið. Eftir þetta sáum við Frans oft. Fór ég í heimsókn til Stykkishólms og Grundarfjarðar og var alltaf velkomin þangað og mikið leið mér vel hjá honum. Man ég vel hversu góðlyndur hann var og man ég ekki heftir því að hann hafi skipt skapi, hækkað röddina við okkur krakkana, sem ég er vissum að oft hefur verið erfitt. Alltaf hafði hann tíma til að tala við okkur og benda okkur á ef hann hélt að við værum ekki að gera eitthvað rétt. Mamma og Frans áttu eina dóttir saman, hana Valdísi, en slitu samvistum þegar hún var ung. Var hún alin upp hjá pabba sínum og fósturdóttur hans, henni Sínu sem hjálpaði honum mikið. Var Frans mjög þakklátur fyrir það hvað Sína var mikið innan handar og var hann mjög þakklátur fyrir hennar hjálp. Sagði hann mér einu sinni að ef hann hefði ekki Sínu þá gæti hann ekki stundað sjóinn (sem var hans annað heimili). Fjölskyldan var númer eitt og tvö, hann vildi geta séð vel fyrir henni. Þegar ég hitti manninn minn var Frans mjög spenntur yfir því hvernig mann ég hefði valið. Og ekki tók það hann langan tíma að samþykja hann. Þegar við ákvaðum að gifta okkur báðum við Frans að leiða mig að altarinu. Mikið var hann montinn og hreykinn, hann pikkaði í mig og sá ég þá smá tár streyma niður kinnar hans og gaf hann mér svo stórt og mikið bros. Þó það séu nokkur ár síðan ég hef séð hann þar sem við fjölskyldan fluttum erlendis mun ég sakna hans mikið. Hvíldu í friði elsku Frans minn.

Kveðja,

Anný Jóhannsdóttir og fjölskylda.