Friðrik Pétursson fæddist í Skjaldarbjarnarvík á Ströndum 9. apríl 1924. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. júlí sl. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Elínar Jónsdóttur, húsmóður, f. 10 nóvember 1893, d. 30. mars 1984 og Péturs Friðrikssonar, bónda, f. 18. júní 1887, d. 9. september 1979. Systkyni Friðriks voru Guðmundur, f. 26. febrúar 1917, d. 16. maí 1960, Guðbjörg, f. 28. mars 1920, Jóhannes, f. 3. ágúst 1922, d. 5. september 2000, Matthías, f. 22. ágúst 1926 og Jón, f. 27. janúar 1929, d. 31. október 1997. Friðrik kvæntist 10. september 1958 Jóhönnu Herdísi Sveinbjörnsdóttur, f. 16. janúar 1929. Foreldrar hennar voru Sveinbjörn Ágúst Benónýsson, múrari og skáld, f. 8. ágúst 1892, d. 31. maí 1965 og Hindrika Júlía Helgadóttir, húsmóðir, f. 2. júlí 1894, d. 27. febrúar 1968. Sonur þeirra er Ríkharður Helgi Friðriksson, tónlistarmaður, f. 5. nóvember 1960, unnusta Eygló Harðardóttir, myndlistarmaður, f. 24. apríl 1964. Börn hans af fyrra sambandi við Svanhildi Bogadóttur, Borgarskjalavörð, f. 27. nóvember 1962, eru Jóhanna Vigdís, f. 8. ágúst 1991 og Kristín Helga, f. 14. mars 1993, báðar menntaskólanemar. Barn Friðriks af fyrra sambandi er Rósa Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur, f. 15. desember 1957. Móðir hennar var Áslaug Jónsdóttir, f. 1926, d. 2007 og dóttir hennar er Guðrún María Pálsdóttir, f. 1. júní 1990. Friðrik ólst upp í Skjaldarbjarnarvík á Ströndum og síðar á Reykjarfirði. Að loknu námi við Barnaskólann á Finnbogastöðum í Trékyllisvík og Héraðsskólann að Reykholti í Borgarfirði, fór hann í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi árið 1948. Síðar lauk hann sérkennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1969. Friðrik kenndi mörg ár í Vestmanneyjum en flutti til Kópavogs árið 1968 og starfaði eftir það m.a. við Brúarlandsskóla í Mosfellssveit, Breiðholtsskóla og Þinghólsskóla, en lengst af sem sérkennari við Snælandsskóla í Kópavogi. Um skeið var hann formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Vestmannaeyjum. Síðar starfaði hann með Skógræktarfélagi Kópavogs um árabil, þar sem hann veitti um tíma forstöðu skógræktarstöðinni Svörtuskógum og sá um skógrækt í landi skógræktarfélagsins í Kjós í Hvalfirði. Á sumrin gegndi Friðrik ýmsum störfum, t.d. vann hann á námsárunum í síldarverksmiðjunni á Ingólfsfirði og í Vestmannaeyjum var hann m.a. til sjós, vann í Sparisjóðnum og vann við stækkun flugvallarins. Í Kópavogi fór drjúgur hluti sumranna í skógrækt og á tímabili gerði hann þaðan út trillu. Á síðari árum ritaði hann nokkrar greinar um lífið í Skjaldarbjarnarvík á æskuárunum. Þær hafa m.a. birst í Strandapóstinum og verið lesnar í útvarpi. Friðrik verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 14. ágúst og hefst athöfnin kl. 15.
Ég vil með þessum orðum minnast fyrrverandi tengdaföður mín, Friðriks Péturssonar, sem lést 28. júlí sl. eftir stutta sjúkdómslegu á Landspítala Fossvogi.
Kynni okkar Friðriks ná aftur til ársins 1982 þegar ég kynntist Ríkharði syni hans og frá upphafi tóku bæði Friðrik og Jóhanna kona hans mér innilega inn í fjölskyldu þeirra. Friðrik var á þeim tíma sérkennari við Snælandsskóla en hann hafði búið í Kópavogi með fjölskyldu sinni frá 1968. Hann var kennari af brennandi áhuga og fylgist vel með straumum og stefnum í faginu. Hann kunni að meta þann nýja anda í kennslu sem ríki í skólanum á þeim tíma. Hann gat ekki lengi haldið sig frá kennslu eftir að hann fór á eftirlaun og tók að sér sérkennslu við nýja deild í Þinghólsskóla fyrir nemendur sem voru að flosna upp úr grunnskólanámi með sama brennandi áhuganum og áður.
Friðrik var fróðleiksfús og átti gott með mannleg samskipti. Ógleymanlegt er þegar hann heimsótti okkur til New York 1987. Fyrst leist okkur ekki á hvernig honum myndi ganga að bjarga sér en komumst fljótlega að því að hann var ekki í neinum vandræðum með það. Eftir að hann kvartaði undan kartöfluleysi á heimili okkar sögðum við honum að hann yrði að fara út í verslun til Kóreumannsins í næsta húsi og finna kartöflur þar. Hann stökk af stað en eftir nokkra stund þótti okkur vissara að fylgja honum eftir. Þegar við komum þangað var hann í hrókasamræðum við kóreska kaupmanninn; Friðrik á blöndu af dönsku, ensku og íslensku og hinn kóreski á blöndu af kóresku og ensku. Friðrik var kominn með kartöflurnar í hendur og fór oft síðar í ferðinni að ræða við kaupmanninn á horninu sem hann hafði kynnst þarna.
Það var líka skemmtilegt að fylgjast með Friðriki tileinka sér nýjungar, hverjar sem þær voru. Til dæmis þegar hann keypti örbylgjuofn tiltölulega snemma, las leiðbeiningarnar vandlega, fékk sér uppskriftabók fyrir örbylgju og hóf tilraunir með að elda í ofninum. Maður fékk marga góða fiskréttina hjá honum sem hann eldaði þar. Sama var þegar honum fannst sjálfsagt að fá sér Machintosh tölvu og nettengingu þegar þær fóru að verða vinsælar. Ég veit ekki betur en hann hafi kennt sjálfum sér að spila á orgel eftir nótum eftir að hann gerði upp gamalt orgel sem honum áskotnaðist. Spilaði sig í gegnum Íslenskt söngvasafn og síðan tóku Fjárlögin við.
Friðrik tefldi mikið og hafði keppnisskap. Skákfélagar hans, hvort sem það voru vinir eða vandamenn, voru algengir gestir á heimili þeirra Hönnu og öllum var jafnvel tekið. Hann vann til verðlauna bæði hjá Taflfélagi Kópavogs og í félagsstarfi aldraðra í Kópavogi. Hann las sömuleiðis mikið, bæði fræðibækur og fagurbókmenntir, kunni mikið af ljóðum og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar.
Náttúran var Friðriki hugleikin, hvort sem það var að ganga á fjöll eða um Heiðmörk og hann þekkti flestar fugla- og plöntutegundir. Hann var frár á fæti og hafði yngra fólk ekki roð við honum allt fram á áttræðisaldur. Hann var áhugasamur um skógrækt og starfaði mörg sumur sem forstöðumaður Skógræktar Kópavogs í Fífuhvammi þar sem byggður var upp lítill skógur. Friðrik naut þess ekki síður að vera úti á sjó og á efri árum keypti hann trillu og réri mörg sumur frá Kópavogshöfn.
Ég kynntist síðan annarri hlið á Friðriki þegar við Rikki eignuðumst dætur okkar, Jóhönnu Vigdísi og Kristínu Helgu. Þá varð hann okkur algjör stoð og stytta. Á þeim tíma var ekki hægt að koma börnum inn í leikskóla fyrr en við þriggja ára aldur og þá ekki allan daginn. Hann og Hanna tóku að sér að passa, fyrst Jóhönnu og síðar Kristínu, allt þar til þær byrjuðu í leikskóla. Hann var ótrúlega þolinmóður við þær og kenndi þeim þá og síðar margt sem þær munu búa að alla ævi. Svo beið hann spenntur eftir að þær yrðu nægjanlega gamlar til að læra mannganginn og tefla við sig.
Maður velti oft fyrir sér æsku Friðriks og hvernig hún mótaði hann sem einstakling. Hann var fæddur í Skjaldarbjarnarvík á Vestfjörðum sem er einungis hægt að komast til á báti eða fótgangandi yfir fjöll og flutti síðar í Reykjafjörð á Ströndum. Það þurfti mikinn kjark og stuðning frá fjölskyldu til að rífa sig upp og fara menntaveginn til Reykjavíkur og ljúka þar kennaranámi og síðar framhaldsnámi í sérkennslufræðum. Friðrik hefur örugglega verið góður námsmaður og eljusamur eins og síðar í lífinu. Kannski hafa það verið áhrif frá uppvaxtarárunum sem gerðu hann svo þolinmóðan og oft fastan fyrir eins og klett.
Eitt síðasta skiptið sem ég hitti Friðrik var á Borgarspítala fjórum dögum áður en hann lést. Það var af honum dregið líkamlega en hann fylgdist vel með öllu sem við sögðum. Ógleymanlegt er brosið sem færðist yfir andlit hans þegar ég lýsti útsýni yfir á Vestfirði frá Snæfellsnesi og stórkostlegri litadýrð sólarlagsins þar helgina áður.
Ég vil að lokum kveðja Friðrik með söknuði og þakka honum fyrir allt gott í þessi 27 ár. Hann átti langa ævi sem hann getur verið stoltur af og reyndist fólkinu í kring um sig vel. Ég vil þakka hjúkrunarfólki og öðrum starfsmönnum á deild B-4 fyrir góða umönnun og stuðning. Ég færi Hönnu, Rikka og Eygló, Jóhönnu og Kristínu og öðrum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Svanhildur Bogadóttir.
Síðdegis hinn 24. ágúst 1978 stóðum við Friðrik Pétursson á hæstu bungu Seljanesfjalls norðan Ingólfsfjarðar í Árneshreppi í Strandasýslu og horfðum norður yfir Ófeigsfjörð, Eyvindarfjörð, víkur og múla allt til Drangaskarða. Á tveggja daga ferð þangað hafði Friðrik sagt mér frá mannlífi á svæðinu á 2. fjórðungi liðinnar aldar. Fjöldi fólks ólst þar upp en var nú flest flutt brott, svo að margir bæir höfðu lagst í eyði og síldarverksmiðjurnar í Djúpuvík og á Eyri í Ingólfsfirði stóðu þögular og mannlausar, hrynjandi borgir, tákn um hverfulleik alls sem er. En hér vorum við í sveit Friðriks, sem í bernsku átti heima í Skjaldarbjarnarvík og í æsku í Reykjarfirði syðra. Eydd var byggð í Kúvíkum, hverfandi á Gjögri, hljóðnaður ysinn í verksmiðjunni í Djúpuvík en þangað hafði hann gengið til vinnu heiman frá sér, glaður æskupiltur. En hér var Friðrik á heimavelli", nákvæm lýsing hans og þekking á fólki og atvikum opnaði mér hulda heima sagna og örnefna: Ónar undir Sætrafjalli, heljartök hafíssins í fjöru Skjaldabjarnarvíkur og síðast en ekki síst Kistan í Trékyllisvík, berandi vitni um grimmilega hjátrú og furðulegustu fáfræði.
Greinarnar sem Friðrik birti í Strandapósti bera óræk vitni um hlýhug til bernskustöðva og viðurkenningu á staðháttum.
En við héldum áfram niður í Ófeigsfjörð hvar feðgar tveir tóku Friðriki hlýlega og naut ég góðs af, öllum ókunnur. Feðgarnir höfðu sumardvöl á jörð sinni, söfnuðu reka og unnu í staura, borð og planka. Tilsýndar er rekinn eins og ljósleitir skaflar um allar fjörur, nema á litlum blettum þar sem unnt er að hirða hann.
Feðgarnir buðu okkur að borða með sér og báru á borð súra selshreifa ásamt öðru kjarnmeti. Að máltíð lokinni komum við út, skelltu þeir þá loki á tunnu og kom þá allstór yrðlingur til að fá sinn skerf, hjúfraði sig að fótum okkar og sleikti hendur manns til að tjá þakklæti sitt. Ég vissi ekki fyrr að refir væru svo yndisleg dýr. Við gengum í rökkrinu út fyrir Seljanes, sáum þar friðarvoga, gengum inn að botni Ingólfsfjarðar og þar spratt upp villitófa í ljósgeislanum frá bílnum. Við gistum um nóttina á Eyri hjá systur Friðriks og mági. Hann bauð okkur í bátsferð daginn eftir norður um sund og meðfram múlum allt að Drangaskörðum en þangað fór hann til að gá að reka sínum, sem hann sótti, vann og flutti til viðskiptavina. Þaðan er minnisstæðust ótrúleg gnótt krækiberja í Drangavík og í Kolbeinsvík tveimur dögum síðar.
Þessi ferð er hápunkturinn á rúmlega 60 ára kynningu okkar Friðriks. Á hana bar aldrei skugga, þótt leiðir skildi síðar oft um árabil. Ætíð mætti ég sama hlýja viðmótinu, hvert sinn sem sem fundum bar saman á ný: á förnum vegi, mannamótum, námskeiðum og ekki síst með bekkjarfélögum úr skóla. Þá var stundum ljúft spjall um bókmenntir heima hjá Friðriki og Jóhönnu konu hans.
Allra þeirra stunda er indælt að minnast
Ég votta konu hans, syni og sonardætrum innilega samúð.
Sigurður Kristinsson