Helga Jóhannesdóttir fæddist í Lækjarbæ, Miðfirði í V-Hún. 5. júlí 1920. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 23. janúar síðastliðinn. Foreldrar Helgu voru Jóhannes Jónsson, f. í Huppahlíð í Miðfirði 1886, d. 1968, og Soffía Jónsdóttir, f. á Geirastöðum í Sveinsstaðahreppi í A-Hún. 1885, d. 1973. Systkini Helgu eru Jóhanna, f. 1915, látin, Jón Þorbergur, f. 1916, látinn, Jósep, f. 1918, látinn, Grétar, f. 1921, látinn, Ingvi Pálmi, f. 1922, Ólafur, f. 1923, Margrét, f. 1927, og Anna, f. 1928. Eiginmaður Helgu er Svavar Jóhannsson, f. 1919. Þau gengu í hjónaband 1941. Foreldrar hans voru Jóhann Franklín Kristjánsson frá Litlu-Hámundarstöðum í Árskógshreppi í Eyjafirði, f. 1885, d. 1952, og Mathilde V. Kristjánsson frá Osló, f. 1892, d. 1962. Börn Helgu og Svavars eru: 1) Edda, f. 1941, maki Birgir Hólm Björgvinsson. Börn Helga, Matthildur og Haukur. 2) Jóhannes Óttar, f. 1943, maki Unnur Guðjónsdóttir. Börn Sólveig, Svavar og Íris Dögg. 3) Gunnar, f. 1951, í sambúð með Önnu Þorsteinsdóttur. Börn Gunnars og Ólafar B. Þorleifsdóttur Valur Þór og Berglind. 4) Bragi, f. 1958, maki Áslaug Þórðardóttir. Börn Linda Sif, Eva Kristín, Lovísa og Bjarki. Barnabörn Helgu og Svavars eru tólf . Helga flutti suður með foreldrum sínum tíu ára gömul. Hún gekk í Austurbæjarbarnaskólann og vann að honum loknum við ýmis störf. Eftir að Helga giftist Svavari tók hún að sér húsmóðurhlutverkið eins og algengt var í þá daga. Þau bjuggu fyrstu árin hjá foreldrum Svavars á Fjólugötu 25 en fluttu svo í eigið hús í Ferjuvogi 15. Framtíðaríbúðina á Bugðulæk 1 byggðu þau sjálf og fluttu inn í hana árið 1957. Hún var heimili þeirra næstu fimmtíu árin. Svavar vann alla sína starfsævi eða í 52 ár hjá Búnaðarbanka Íslands þar sem hann gegndi lengst af stöðu sparisjóðsstjóra og síðar skipulagsstjóra bankans. Útför Helgu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku amma, í dag hefðir þú orðið 89 ára.
Það er svo skrítið að koma í heimsókn til afa á Brúnaveginn og þú ert ekki heima. Það var eins og þú yrðir alltaf hjá okkur og þessi dagur myndi aldrei koma. Þú varst alltaf svo ánægð að sjá okkur þegar við komum í heimsókn og það var svo gott að vera hjá ykkur afa. Þú varst sú allra yndislegasta kona sem til er og okkar uppáhalds fyrirmynd. Við minnumst þess ekki að hafa nokkurn tímann séð þig í vondu skapi og hvað þá hækka röddina gagnart öðrum. Þú komst fram við alla af skærustu góðmennsku og komst öllum í gott skap. Þú varst snillingur í eldhúsinu og áttir alltaf eitthvað gott með kaffinu. Þú áttir bestu skúffukökuna, kleinurnar, sandkökuna, pönnsurnar og margt fleira. Það mátti enginn fara svangur heim. Þú hafðir alltaf tíma til að leika við okkur og aldrei leiddist neinum hjá þér. Þú kenndir okkur að spila Marías og hafðir svo gaman af því að spila það, og krossgáturnar voru í uppáhaldi hjá þér, þú gast orðin og við skrifuðum þau inn fyrir þig. Það var svo gaman að hlaupa út í búð fyrir þig með brúnu budduna og alltaf áttum við að finna eitthvað gott handa okkur líka. Brjóstsykurinn í krukkunni þinni klikkaði aldrei, alltaf einn í nesti. Það var svo erfitt að kveðja þig elsku amma en svo gott að hafa fengið tíma með þér á spítalanum. Við eigum svo góðar minningar um þig og þú verður alltaf hjá okkur.
Linda Sif, Eva Kristín, Lovísa og Bjarki