Sigurvaldi Björnsson fæddist á Hrappsstöðum í Víðidal 21 febrúar 1927. Hann lést á nýrnadeild 13 E, á Landsspítala við Hringbraut 16. ágúst síðastliðinn eftir 10 daga legu þar. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jónsdóttir og Björn Ingvar Jósefsson sem bjuggu á Hrappsstöðum allan sinn búskap eða til 1947. Sigurvaldi var sá fimmti í röð 11 systkina 10 komumst upp en eitt lést sem ungabarn.
Þau eru: Tryggvi fæddur 1919 dáinn 2001. Guðrún Ingveldur fædd 1921 dáin 2002. Stúlka fædd 1922 dáin 1923. Jósefína fædd 1924 býr í Kópavogi. Ásgeir Bjarni fæddur 1925 dáinn 2009. Steinbjörn fæddur 1929 býr í Reykjavík. Tvíburasysturnar Álfheiður og Guðmundína Unnur fæddar 1931 búa í Garðabæ og Kópavogi. Sigrún Jóney fædd 1933 býr á Blönduósi og Gunnlaugur fæddur 1937 bóndi í Nípukoti.
Sigurvaldi kvæntist 27. maí 1956 Ólínu Helgu Sigtryggsdóttur fæddri 20 september 1937 í Öxnatungu í Víðidal. Foreldrar hennar voru Guðrún Jónína Pétursdóttir og Sigtryggur Jóhannesson.

Börn þeirra eru:

Björn Sigurður fæddur 1955. Fyrri sambýliskona Anna Heiðrún Jónsdóttir fædd 1957, þeirra börn eru tvö. Leó Viðar og Helga Sigurrós. Þau slitu samvistum. Seinni sambýliskona Anna Heiða Harðardóttir fædd 1972 þau eignuðust 3 börn,Sigurvalda sem lést við fæðingu, Björn Gabríel og Brynhildi Írenu Sunnu. Þau slitu samvistum.

Ingibjörg Guðrún fædd 1956. Fyrri maki Gísli S. Reimarsson fæddur 1949 lést 1991.Þeirra börn eru tvö. Gunnar og Jóhanna. Seinni maki: Kristján Heiðar fæddur 1957 þeirra dóttir Kristjana.

Sigríður Bryndís fædd 1959 maki Sævar Rúnar Einarsson fæddur 1960. Þau eiga 3 dætur Elínu Sigríði, Hafdísi Elfu og Eyrúnu Lýdíu.

Sigtryggur Ásgeir fæddur 1963 maki Þorbjörg Vigdís Guðmundsdóttir fædd 1966 þau eiga eina dóttur Jóhönnu Helgu.

Og Pétur Hafsteinn fæddur 1964 maki Bjarney Alda Benediktsdóttir fædd 1967 þau eiga þrjú börn, Ármann, Kristrúnu og Maríu.

Sigurvaldi ólst upp á Hrappsstöðum fyrstu æviárin, en var snemma sendur til að vinna fyrir sér sem léttadrengur á ýmsum stöðum. Hann lauk hefðbundnu  grunnskólanámi þess tíma. Fór síðan í vinnumennsku að Hvammi í Vatnsdal, í nokkur ár. Síðan í Bændaskólann á Hvanneyri í tvo vetur. Keypti jörðina Litlu-Ásgeirsá í Víðidal, þar sem þau Ólína bjuggu í 40 ár en síðustu 16 árin á Hvammstanga.Útför Sigurvalda fer fram frá Hvammstangakirkju í dag 1 september  og hefst afhöfnin klukkan 14.Jarðsett verður í Víðidalstungukirkjugarði.

Elsku afi.

Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
/

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)


Þín er sárt saknað en ég veit að þér er ætlað stærra hlutverk annars staðar.
Elsku afi ég skal passa upp á ömmu fyrir þig.

Þín,

Jóhanna Helga.

Þökk fyrir allt og allt eru þau orð sem fyrst komu í hugann eftir að ég fékk vitneskju um að Valdi á Litlu Ásgeirsá hefði látist eftir snarpt endastríð sem leiddi hann á vit feðra sinna.  Mig langar í fáum orðum að þakka félaga og fóstra fyrir einstaka samfylgd í 52 ár.

Undirritaður fékk að fara í sveit hjá þeim Valda og Lóu  á Litlu-Ásgeirsá í Víðidal  í Vestur-Húnavatnssýslu árið 1957. Það var upphaf okkar kynna. Ásgeirsá var þá fáum árum áður byggt upp með nýju íbúðarhúsi mjög myndarlega. Af dugnaði og eljusemi var verið að byggja upp gott sveitaheimili og bústofn með tilheyrandi nýræktun og fjölgun. Mitt fyrsta verk var að fara með tóma mjólkurbrúsa reidda þvert yfir í Auðunnarstaði yfir Víðidalsá og þóttist ég vanur hestum þó ég hefði aðeins rétt setið á trússhestum  sumrin áður 1955 og 1956  við baggaflutninga á Eyri í Seyðisfirði vestra.

Ferðin sú  gekk fyrir sig á þann hátt að ég fór í ána í einn dýpsta hylinn og setti Mósa gamla á sund þar sem ég fór neðan við vaðið en ekki á því eins og mér hafði verið sagt. Eftir það sagði Valdi svo frá að strákurinn væri bara kartinn orð sem hann hafði við ef einhver stóð sig sæmilega. Valdi eins og hann var alltaf kallaður og gjarnan kenndur við bæinn var einstaklega kappsamur og fylginn sér. Laginn við skepnur og öll bústörf og var umhugað  um að vera ekki eftirbátur annarra í neinu. Sláttur hófst yfirleitt fyrst af öllum bæjum  á L-Ásgeirsá í Víðidal gjarnan 17.-20. júní ef mögulegt var. Þessi fyrstu sumur var allt unnið með hestum , slegið, rakað, múgað ýtt upp í sátur og á heyvagn og flutt með hestvagni í hlöðu og sætin þar dregin inn í heilu. Undirritaður lærði mjög á þeirri tækni, sem þarna var beitt, útsjónarsemi og hagræði í margs konar vinnubrögðum. Við uppsteypu á fjósi og fjárhúsum næst bænum var notuð steyputunna þar sem hestur var notaður til að hræra steypuna með því að snú henni með kaðli sem dregin var ofan af tunnunni  var þar beitt aktygjum á hrossið.

Þetta sem hér er sagt lýsir á stuttan hátt því sem Valdi stjórnaði með lagni og lipurð. Heyskapur stóð allt sumarið annað en gerist í dag þegar allt er klárað á 2-3 vikum. Góðir reiðhestar voru á L-Ásgeirsá og öllu fjárragi og stóði sinnt á hestum og einnig voru alltaf til staðar reiðhestar til að sinna sendiferðum milli bæja eða ná í kýr og flytja mjólkurbrúsa á kerru  yfir á brúsapall við Auðunnarstaði. Mig hefur oft undrað á síðustu áratugum hversu miklu Valdi náði að koma í verk þessi ár sem hann var við búskap.  Rögnvaldur bróðir minn varð síðan sveitastrákur á eftir mér síðar voru synir okkar hjóna, Einar og Ólafur, sumarstrákar á Litlu-Ásgeirsá þannig að kynnin héldust óslitin. Einnig með því að undirritaður fékk að fara nokkur haust í göngur  fyrir Valda eða aðra bændur Í Víðidal ásamt með því að koma í réttir sem var alveg sérstök upplifun hvort sem var fjárréttir eða stóðréttir. Atlætið hjá Lóu fóstru minni, konu Valda, var á sama hátt einstakt. Hlýjan og góð umönnun í öllu var einstök þetta skilur maður best eftir því sem árin líða. Þrátt fyrir stóra fjölskyldu  þá var alltaf rúm fyrir aðkomufólk á L-Ásgeirsá hvort um var að ræða réttargesti, skyldmenni eða aðra sem áttu leið um sveitina. Með þessum minningarbrotum þakka ég Valda fyrir áralanga vináttu og kæra Lóa þér og fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð og virðingu vegna hans fráfalls.

F.h. fjölskyldunnar Esjubraut 27, Akranesi,

Gísli S. Einarsson og Edda Guðmundsdóttir.