Peter Foote, professor emeritus í norrænum fræðum við University College London, lést að heimili sínu í Lundúnum þriðjudaginn 29. september s.l. Hann var fæddur í Swanage í Dorset 26. maí 1924 og stundaði nám í ensku og norrænum fræðum, fyrst við University College of the South-West í Exeter en síðan við Lundúnaháskóla, auk námsdvalar við háskólann í Ósló. Hann varð lektor í forníslensku við University College London árið 1951, dósent í fornnorrænu og loks prófessor í norrænum fræðum uns hann lét af störfum árið 1983. Hann varð forseti nýstofnaðrar norrænudeildar við skólann árið 1963, og byggði upp öfluga deild af miklum dugnaði og framsýni. Hann var mikilvirkur innan Viking Society for Northern Research frá 1952, og forseti félagsins árin 1974-6 og 1990-2. Peter Foote var einn af fremstu fræðimönnum á sínu sviði og eftir hann liggja fjölmargar greinar um íslenskar fornbókmenntir. Úrval þeirra birtist í tveimur greinasöfnum, Aurvandilstá (1984) og Kreddum (2004). Hann annaðist útgáfu Jóns sögu helga fyrir Hið íslenzka fornritafélag sem út kom árið 2003 og sama ár kom vísindaleg útgáfa sama verks út á vegum Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, einnig í umsjón Footes. Þá sá hann um vandaðar ljósprentaðar útgáfur tveggja íslenskra miðaldahandrita sem varðveitt eru í Stokkhólmi. Foote annaðist þýðingu Grágásar á ensku í félagi við Andrew Dennis og Richard Perkins, og hann var, ásamt David M. Wilson, höfundur vinsæls yfirlitsrits um víkingaöld, The Viking Achievement (1970). Peter Foote var heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags og var í þrígang sæmdur hinni íslensku fálkaorðu. Peter kvæntist konu sinni Eleanor McCaig árið 1951, en hún lést árið 2006. Þau eignuðust þrjú börn, Alison, Judith og David, sem lifa föður sinn, ásamt sjö barnabörnum og einu langafabarni. Peter Foote var jarðsunginn frá St. Michael‘s kirkju í Highgate í London, 13. október 2009.
Í viðtali sem við Adolf Friðriksson tókum við Peter Foote og birtist í tímaritinu Sögnum árið 1991 kom fram að hann taldi að varanleg vísindaleg áhrif fræðimanns yrðu helst mæld í stúdentum hans. Það var dæmigert fyrir Peter að með þessu var hann að pilla á afkastamikla fræðimenn, þá sem skrifa mikið en falla í gleymsku jafnskjótt og bækurnar hætta að renna af færibandinu, en þessi skoðun lýsir líka vel afstöðu hans til vísindanna, afstöðu sem hefur haft djúp áhrif á mig.
Ég á að vísu bara óbeint tilkall til að kalla mig lærisvein Peters; hvorki var ég formlega í námi hjá honum né eru rannsóknir okkar strangt tekið á sama sviði. En það var gæfa mín að kynnast Peter á námsárum mínum í London á síðasta áratug og einhvern veginn atvikaðist það þannig að hann las yfir megnið af því sem ég skrifaði í doktorsnámi mínu, gagnrýndi það og gaf mér ráð sem ég hef búið að síðan. Fundir okkar voru allir með sama móti: eftir að hafa lesið yfir kafla eða grein sem ég hafði sent honum mæltum við okkur mót um hádegisbil á einhverju öldurhúsi. Peter var alltaf kominn á undan og búinn að kaupa bjór sem hann gekk síðan fast eftir að ég drykki sem hraðast og varla var ég kominn niður fyrir hálft glas að hann var búinn að kaupa annað. Hann var með sposkan svip eins og hann vildi segja: Áttu jafnlangt í land með að verða fræðimaður eins og að klára þennan bjór? Þessir fundir voru því talsverð þolraun; ég var að vísu enginn bindindismaður en ég þurfti að hafa mig allan við til að halda skýrri hugsun þegar líða tók á daginn. Niðurstaðan var öll á eina leið: allt sem mér hafði fundist nokkuð glúrið hjá mér kom í ljós að var annaðhvort beinlínis rangt eða kom ekki málinu við, og allt sem ég hafði haldið að væri sjálfsagt mál reyndist þegar betur var að gáð vera mun snúnara viðfangs. Samt fór ég alltaf af þessum fundum léttur (en reikull) í spori, útblásinn af bjartsýni á verk mitt, fullur af hugmyndum um hvernig mætti bjarga kaflanum sem hafði verið léttvægur fundinn, sannfærður um að sá næsti yrði margfalt betri. Þetta er galdur kennarans og er ekki öllum gefið: að sýna nemandanum fram á villu síns vegar þannig að hann haldi samt trúnni á sjálfan sig og álpist á endanum til að gera eitthvað sem munar um.
Ég er þakklátur fyrir að hafa notið athygli hins besta kennara og finn til ábyrgðar að glutra því ekki niður sem mér hefur verið gefið. Því þar í felst afstaða Peters: vísindin eru endalaust starf og ábyrgð okkar sem erum svo heppin að fá að starfa við þau er að þoka málunum áfram þannig að á sjáist. Kennarinn þarf að miðla öllu því sem hann kann og fá nemandann til að bæta við og bæta um betur. Hróp á torgum þjóna þessu markmiði lítið en vönduð vinna hinsvegar vel. Tvennt liggur í þessari afstöðu: ástríða og auðmýkt.
Það er fáránlegt að leggja stund á vísindi ef maður hefur ekki ástríðu fyrir því að auka við þekkingu og skilning. Peter hafði á sér orð fyrir að geta verið meinlegur við fólk sem honum fannst ekki eiga erindi en það grundvallaðist á því að hann skildi ekki hvernig hægt væri að hafa enga ástríðu fyrir fræðastörfum eða, sem er kannski algengara, hvernig fræðimenn gætu haft ástríðu fyrir vitlausum hlutum, virðingu eða frægð. Froðusnakk var eitur í hans beinum. Ástríðan er auðvitað forsenda fyrir því að fólk nenni að gera hlutina vel, sjái tilganginn í því að eltast við smáatriðin, gefist ekki upp á að reyna að skilja það sem virðist óskiljanlegt, leiti allra leiða til að finna lausnina. Þetta eru talsverðar kröfur og þessi afstaða á sífellt undir högg að sækja; það er stöðugur þrýstingur á vísindamenn að stytta sér leið, afkasta meiru, æpa hærra, auk þess sem grafið er undan henni af þeim sem leita sér skjóls í tilgangslausri vandvirkni eða daðri við innihaldsleysi. Að hafa ástríðu fyrir vísindum er það sama og að hafa gaman af þeim; Peter er í mínum huga táknmynd hins káta vísindamanns, þess sem getur miðlað gleðinni af starfi sínu og fengið aðra til að hrífast með af því sem samkvæmt venjulegum viðmiðum ætti að vera grútleiðinlegt. Peter hafði kímnigáfu í orðsins fyllstu merkingu, gáfuna til að hafa gaman, sjá hið spaugilega og njóta þess með öðrum. Þeim sem ekki var þessi gáfa gefin gat fundist Peter léttúðugur en þó að kímnigáfan, nær að segja hárbeitt skopskyn, skíni víða í gegn í verkum hans þá ber allt hans mikla vísindastarf merki um allt annað en léttúð. Þvert á móti einkennist það af auðmýkt gagnvart því mikla og mikilvæga verkefni sem hann vann að, sem honum fannst að allir ærlegir vísindamenn hlytu að vilja vinna að. Verkefnið er byggingarstarf og keppikeflið er að leggja eitthvað af mörkum sem endist og aðrir geta byggt á við frekara starf. Hvort byggingin er á hverjum tíma hriplekt skrifli eða glæsileg höll fer eftir verksviti, alúð og útsjónarsemi þeirra sem lögðu grundvöllinn. Eins og þáttur hans í The Viking Achievement , því yfirlitsriti um víkingaöldina sem best sameinar að vera bæði frumlegt og traust sýnir, var Peter einn þeirra snjöllu og víðfróðu sem geta hannað og byggt nýjar hæðir. Hann kaus hinsvegar að verja mestri orku sinni í að lagfæra undirstöðurnar, hyggja að máttarstoðum þar sem þær voru fúnar eða vantaði alveg. Það þarf auðmýkt og ástríðu til að helga sig slíkum verkum því það eru ekki þau sem eru endilega mest sýnileg, en þau nýtast hinsvegar mest og endast best. Hlutur Peters í frábærri enskri þýðingu Grágásar er dæmi um vísindalegt þrekvirki sem fer ekki hátt en kemur að ómældu gagni. Með henni var góð staða íslenskra fræða á alþjóðlegum vettvangi treyst svo um munar.
Eitt viðhorf Peters sem hafði mikil áhrif á mig var að það gætu ekki verið nein mörk á því hvað fræðimaður gæti þurft að vita eða skilja. Hugvísindi almennt og miðaldafræði sérstaklega geta ekki þrifist ef fólk afmarkar þekkingu sína of þröngt. Það er hægt að vera sérfræðingur á ákveðnum sviðum, t.d. einstökum tegundum heimilda, en slík sérfræði mega aldrei koma í veg fyrir að fólk leiti skilnings og þekkingar á öðrum sviðum ef þau geta varpað ljósi á viðfangsefnið. Fornleifafræðingur sem telur sér ekki skylt að skilja dróttkvæði getur ekki orðið góður fornleifafræðingur. Slík afstaða lýsir fyrirfram takmörkun sem er jafnóþörf og hún er röng. Annað mikilvægt viðhorf er að ekki sé nóg að reyna að vera fróður og snjall heldur þurfi fræðimenn líka að geta sagt hlutina vel, tjáð sig á fallegu og skýru máli. Peter setti það mark hátt og er veruleg áskorun að ná því. Við erum ófá sem höfum notið leiðsagnar, góðvildar og gríðarlegrar þekkingar Peters Foote. Með honum er genginn einn besti liðsmaður íslenskra fræða, frábær félagi og fyrirmynd.
Orri Vésteinsson