Sigurður Kristján Oddsson fæddist á Hafursá í Vallahreppi í S-Múlasýslu 22. janúar 1940. Hann lést á Herðubreið 22. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Oddur Kristjánsson, byggingameistari Akureyrarbæjar, f. í Saurbæ í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 3.10. 1901, d. í Reykjavík 8.11. 1979, og Guðbjörg Kerúlf Guðmundsdóttir, húsfreyja á Hafursá, síðar Akureyri og í Reykjavík, f. í Sauðhaga í Vallahreppi í S-Múlasýslu 27.10. 1900, d. í Reykjavík 5.10. 1990. Bróðir Sigurðar er Guðmundur Oddsson hjartalæknir, f. 20.6. 1936. Sigurður kvæntist 15. september 1967 Herdísi Tómasdóttur, veflistakonu og bókasafns- og upplýsingafræðingi, f. 26.5. 1945. Foreldrar hennar voru Tómas Jónsson borgarritari, síðar borgarlögmaður í Reykjavík, f. í Reykjavík 9.7. 1900, d. 24. 9. 1964, og Sigríður Thoroddsen, húsfreyja í Reykjavík, f. þar 7.6. 1903, d. 11.7. 1996. Sigurður og Herdís eignuðust 3 börn: 1) Tómas Már, f. 1. 2.1968, kvæntur Ólöfu Nordal, f. 3. 12. 1966. Börn þeirra eru Sigurður, f. 29.11. 1991, Jóhannes, f. 13. 1. 1994, Herdís, f. 8.4. 1996, og Dóra, f. 15.9. 2004. 2) Kristín Vilborg, f. 24.5.1972, gift Hauki Haukssyni frá Akureyri, f. 22.5. 1970. Sonur þeirra er Haukur Thor, f. 30.12. 2005. 3) Sigríður Björg, f. 3. 5. 1977. Sigurður flutti ungur til Akureyrar þar sem hann ólst upp. Þar lærði hann tré- og skipasmíði eftir grunnskóla og starfaði sem smiður þar um tíma. Rúmlega tvítugur fór Sigurður til Stokkhólms og nam tæknifræði við Stockholms Tekniska Institut. Að loknu námi starfaði hann sem tæknifræðingur hjá HSB í Stokkhólmi til loka árs 1964. Heim kominn hóf hann störf hjá Vegagerðinni og samhliða því fékk hann meistararéttindi í húsasmíði. Síðar var hann byggingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar. Hann vann því næst hjá sænska verktakafyrirtækinu SIAB við byggingu álversins í Straumsvík og síðar hjá Ísal. Hann var einn af stofnendum Tækniþjónustunnar, verkfræðistofu þar sem hann starfaði í 25 ár. Hannaði hann fjölda húsa í Reykjavík og einnig víða um land. Árið 1995 tók hann við starfi þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum og framkvæmdastjóra Þingvallanefndar, sem hann gegndi til dauðadags. Á uppvaxtarárum á Akureyri var Sigurður ötull í skátastarfi ásamt því að vera félagi í Flugbjörgunarsveitinni. Hann var alla tíð virkur í ýmsu félagsstarfi og má þá helst nefna Frímúrararegluna og einnig hin síðar ár Rótarýklúbb Seltjarnarness. Sigurður kom einnig að bæjarmálum á Seltjarnarnesi og var um árabil í byggingarnefnd bæjarins. Sigurður var útivistamaður mikill, stundaði fjallgöngur og skíði alla tíð og var einnig áhugamaður um skógrækt og landgræðslu. Hann var hagleikssmiður sem sést vel bæði á heimili hans og í sumarbústað sem hann byggði að miklu leyti sjálfur og smíðaði einnig húsgögn og skar út ýmsa muni úr tré. Útför Sigurðar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 2. september, klukkan 15.

Sigurður Kristján Oddsson yfirmaður okkar landvarðanna á Þingvöllum var alltaf hlýr og þægilegur í viðmóti gagnvart starfsfólki sínu. Vinnuaðstaða Sigurðar var í Reykjavík þaðan sem hann sinnti málefnum þjóðgarðsins en við hittum hann ávallt í reglulegum heimsóknum hans á Þingvelli. Oft kom það fyrir að hann hringdi og bað okkur að kippa hinu og þessu smávægilegu í liðinn. Oftar en ekki var það vegna ábendinga frá gestum þjóðgarðsins sem snéru sér beint til Sigurðar en hann treysti okkur landvörðunum skilyrðislaust til að leysa málin. Slík símtöl gátu átt sér stað hvenær sem var sólarhringsins og af því mátti ráða að Sigurður var sjaldan í fríi og alltaf á vakt. Hann sýndi það oft, bæði með hrósi og þakkarorðum, að hann kynni að meta störf okkar landvarðanna.

Sigurður hafði mótaðar skoðanir á flestu því sem þurfti að gera í þjóðgarðinum og ekki síst á því hvernig best mætti koma því í framkvæmd. Greinilegt var, þegar hann fór á flug í lýsingum sínum á hinum ýmsu hlutum, að hugmyndir hans voru ljóslifandi og skýrar í kollinum á honum.

Sigurður og kona hans Herdís Tómasdóttir héldu okkur landvörðum matarboð á hverju sumri í gamla Þingvallabænum. Þar höfðu þau af mikilli smekkvísi og listfengi gert húsakynnin þannig úr garði að þangað var alltaf gott að koma og vel fór um alla. Boðin voru innileg. Fólk skiptist á sögum úr leik og starfi og saman náðu þau hjónin að fullkomna ferðalýsingar sínar með skemmtilegum innskotum inn í oft stórbrotnar lýsingar hvors annars. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan við sátum með þeim hjónum í Þingvallabænum og það var hlegið og sungið og það var gaman.

Elsku Herdís við sendum þér og ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Landverðir Þjóðgarðinum Þingvöllum sumarið 2009,

Atli, Berglind, Heiðrún Eva, Jóna Sigríður, Kristín, Magnús Hallur, Marta Guðrún, Rebekka, Scott, Torfi Stefán.

Elsku Siggi.
Mig langar að:
Þakka þér fyrir allar heimsóknirnar til Akureyrar.
Þakka þér fyrir að vera svona mikill vinur mömmu og pabba.
Þakka þér fyrir að kenna mér á skíði.
Þakka þér fyrir að fara með mér í göngu- og fjallaferðir.
Þakka þér fyrir að vera öðlingur.  Þú varst alltaf svo glaður og góður þegar við hittumst og vildir allt fyrir alla gera.
Ég mun sakna þín sárt.

Elsku Heddý, Tommi, Kristín, Sigga Björg og fjölskyldur.  Þið hafið misst mikið, allt of mikið.  Megi minningin um hans yndislegu persónu sefa sorgina.  Þið eigið alla mína samúð.



Skúli Jóhannesson og fjölskylda.

Kveðja frá skátahreyfingunni

Horfinn heim.

Þú ert skáti horfinn heim,

himinn, jörð, ber sorgarkeim.

Vinar saknar vinafjöld,

varðar þökkin ævikvöld.

Sérhver hefur minning mál,

við munum tjöld og varðeldsbál,

bjartan hug og brosin þín,

þau bera ljósið inn til mín.

Kveðjustundin helg og hlý,

hugum okkar ríkir í.

Skátaminning, skátaspor,

skilja eftir sól og vor.

Blessuð sé minning Sigurðar Oddssonar.

Þorsteinn Fr. Sigurðsson.