Þorvaldur Kroyer Þorgeirsson fæddist á Seyðisfirði 28. mars 1930. Hann lést á krabbameinslækningadeild á Landspítalanum við Hringbraut þann 1. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Elín Kristjana Þorvaldsdóttir Kroyer, f. 24. ágúst 1897, d. 6. september 1963, og Þorgeir Guðjón Jónsson, f. 3. október 1899, d. 5. nóvember 1977. Systkini hans eru Ragnhildur, f. 2. nóvember 1928, Guðný, f. 8. mars 1933, Helga, f. 19. apríl 1935, og Jón, f. 29. ágúst 1938, systir fædd andvana. Þorvaldur hóf sambúð með heitmey sinni þann 24. ágúst 1947, Sveinbjörgu Eiríksdóttir í Nýjabæ, f. 26. nóvember 1929, dóttir Eiríks Þorleifssonar og Siggerðar Magnúsdóttur, þau gengu í hjónaband 1. ágúst 1951. Börn þeirra eru: 1) Eiríkur Ólafur, f. 12. nóvember 1947, kvæntur Rannva Didriksen, f. 12. september 1946. Þeirra barn er Anna Eiríksdóttir, f.10. nóvember 1966, sambýlismaður hennar er Jakob Bjarnason, f. 31. ágúst 1960. Saman eiga þau eina dóttur, son á hún úr fyrri sambúð og Jakob á fjögur börn úr fyrri sambúð. 2) Elín Kristjana, f. 30. september 1952, gift Jóni Hafdal Héðinssyni, f. 29. maí 1950. Börn þeirra eru Sveinbjörg Hafdal Jónsdóttir, f. 16. september 1969, gift Þorvarði Helgasyni, f. 9. maí 1969, þau eiga 2 börn. Þorvaldur Hafdal Jónsson, f. 17. október 1979, í sambúð með Ingu Guðrúnu Arnþórsdóttir, f. 25. október 1979, og eiga þau einn son. Inga á fjögur börn úr fyrri sambúð. 3) Þorgeir Guðjón, f. 20. mars 1959, kvæntur Lovísu Guðmundsdóttur, f. 5. maí 1953. Þeirra börn eru Nína Sýbil Birgisdóttir, f. 14. júní 1972, gift Karli Guðna Ólafssyni, f. 6. apríl 1974, og eiga þau tvö börn. Guðmundur Oddgeir, f. 22. desember 1980. Þorvaldur Kristinn, f. 16. júní 1985, unnusta hans er Bryndís Gyða Grímsdóttir, f. 5. janúar 1991. Þorvaldur byrjaði sinn starfsferil á sjó á Véþór og Vingþór frá Seyðisfirði. Í vegavinnu starfaði hann og einnig við beitningu í landi. Þegar herinn byrjaði uppbyggingu bækistöðva sinna á Stokksnesi var hann ráðinn sem túlkur, því ensku hafði hann lært á hernámsárunum á Seyðisfirði. Þegar varnarliðið tók við var hann ráðinn sem verkstjóri heimamanna og síðan stöðvarstjóri, þeirri stöðu gegndi hann af trúmennsku. Starfsæfinni lauk hann hjá Ratsjársstofnun eftir að þeir tóku yfir starfsemi varnarliðsins á Stokksnesi 67 ára að aldri. Útför Þorvaldar hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku Valdi.

Ég er þakklát Guði fyrir að hafa fengið að kynnast þér því hjartahlýrri manneskju hef ég ekki kynnst.

Sérstaklega vil ég þakka ykkur Sveinbjörgu fyrir móttökurnar þegar við Nína komum hérna fyrst. Við vorum umvafðar hlýju og kærleika af ykkar hálfu. Það er yndislegt að hafa fengið að vera samferða þér í 30 ár. Það var alltaf gaman að koma upp í Grænuhlíð. Alltaf voru kræsingar á borðum. Svo var rölt um garðinn og gróðurinn skoðaður. Maður var allfaf að sjá eitthvað nýtt. Þú varst hafsjór af fróðleik í sambandi við gróðurinn. Þvílík Paradís sem þið voruð búin að skapa í Lóninu. En nú er ég nokkuð viss um að þú verður búin að búa til nýjan og enn fallegri garð þegar við hittumst næst. Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér.

Guð geymi þig Valdi minn.

Þín tengdadóttir,

Lovísa.

Elsku afi, nú er komið að kveðjustund.

Margt kemur upp í hugann þegar hugsað er til baka. Við höfum átt margar góðar stundir þó svo að við hefðum viljað hafa þær miklu fleiri og lengri. Betri mann þekki ég ekki, enda var ég mikið hjá ykkur ömmu alla tíð og mikill samgangur á milli heimila og höfum við notið þess að hafa þig hjá okkur. Ekki var komið að tómum kofanum hjá þér, því þú hafðir sterkar skoðanir og munninn fyrir neðan nefið og var rómurinn hár. Hlýrri mann var ekki hægt að finna Í okkar huga varst þú og amma eitt, og ástfanginn varst þú af kellu þinni. Alltaf var fjölskyldan númer eitt hjá þér. Á þínum draumareit í Lóninu leið þér best enda var gróðursetning þitt líf og yndi og ber Grænahlíð þess merki. Grænahlíð verður aldrei eins án þín. Það er hægt að segja svo ótal margt um þig, listinn væri ótæmandi og þessar minningar lifa í hjörtum okkar alla tíð.

Þín er sárt saknað. Við pössum ömmu og Rósý, missir þeirra er mikill.

Sveinbjörg og Þorvarður.

Elsku langafi, nú ert þú farinn frá mér og prakkaralegu augun þín horfa aldrei aftur á mig. Minningarnar um þig mun ég ávalt varðveita og ég gleymi því aldrei hvað þú varst fullur af lífi, enda varstu alltaf að segja mér að brosa. Þú varst mikill spaugari og ég mun alltaf muna eftir því þegar þú sagðir alltaf að ástæðan fyrir því að ég væri með brún augu væri því ég væri með skít upp að enni.

Minningin um þig lifir alltaf með mér og í hvert sinn sem einhver talar um brúnu augun mín verður mér hugsað til þín.


Kristjana Hafdal.

Elsku Valdi

Það er með söknuði og tár í augum sem ég skrifa til þín þessa hinstu kveðju.

Eftir sit ég með þær góðu minningar sem við áttum saman, en þeim glata ég aldrei. Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að venja komu mína til ykkar Sveinbjargar á Hrísbrautina. Enda slógu hjörtu okkar alveg samstíga í sambandi við bestu vini okkar: hundana. Loksins þegar stóra stundin hjá mér rann upp og ég eignaðist minn fyrsta hund, þá gat ég ekki hugsað mér betri vin heldur en þig til að fara með mér á Klaustur og velja hann. Ást þín á Sveinbjörgu, fjölskyldu ykkar og dýrunum var áþreifanleg. Þú varst með hjarta úr gulli.

Elsku Sveinbjörg og fjölskylda guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.


Siggerður Gísladóttir.

Við viljum þakka elsku besta Valda fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur í gegnum árin. Þín verður sárt saknað.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér.
Því veit mér feta veginn þinn
og verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)

Elsku besta Sveinbjörg, Elín, Eddi, Þorgeir og fjölskyldur. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Gísli Eysteinn og Jónína.

Elsku afi, nú ertu farinn á annað plan sem er okkur hulið en ég veit að nú líður þér vel eftir erfið veikindi.

Mér fannst ég hafa lært svo mikið á því að hafa kynnst þér. Glaðlyndur og laus við alla tilgerð.

Þegar ég var lítil stúlka og kom til ykkar ömmu fannst mér ég vera komin heim, enda vildi ég hvergi annars staðar vera en á Hornafirði. Þið tókuð mig opnum örmum og var ég þessi litla stúlka dekruð upp úr skónum.

Ég gleymi seint þeim ófáu stundum þegar ég var hjá ykkur ömmu í Grænuhlíð. Hvað ég naut mín ein með ykkur heilu dagana að spila, héldum þorrablót og fórum í steinaleit, syngjandi kát.

Þú varst alveg sérstaklega ástríkur maður og hvað þú elskaðir ömmu alltaf jafnmikið. Það segir allt um þig.

Þú átt hlut í hjarta mínu sem ég ávallt geymi.

Þín,

Nína.

Það er vor í lofti og allur gróður að lifna. Fyrirheit um laufskrúð sumarsins liggur í ilmi vorsins. Ekki hvað síst á þetta við í Grænuhlíð í Lóni og undarlegt til þess að hugsa að Valda sé ekki ætlað að sjá þau fyrirheit vorisins sem liggja í loftinu.

Við fráfall gamals fjölskylduvinar hvarflar hugurinn ósjálfrátt til æskuáranna. Hluti af mínum fyrstu minningum úr barnæsku er utan úr Álaugarey þar sem pabbi og Valdi voru saman með kindur, hænsni og hesta. Ég fékk að fara með pabba að gefa frá því að ég var smábarn og þannig er Valdi í Nýjabæ nátengdur mínum fyrstu bernskuminningum. Og þeir voru ekki bara saman í fjárræktinni heldur áttu leiðir foreldra minna og Valda og Sveinbjargar einnig samleið í skógrækt og garðrækt. Valdi var mikill frumherji í garðrækt í Lóninu. Þau hjónin urðu fyrst til að byggja sumarbústað inn með Stafafellsfjöllum í Lóni og hafa margir fengið að kynnast þeirra natni og kraftmikla ræktunarstarfi í Grænuhlíð. Ég er ekki í neinum vafa um að ræktunarstarf þeirra hjóna varð mörgum Hornfirðingum mikil hvatning og öðrum þeim sem hafa orðið þess njótandi að fá að skoða trjáræktina í Grænuhlíð. Valdi var líka frumkvöðull í sínu ræktunarstarfi. Það var ekkert hikað við að prófa nýjar tegundir og það oft með góðum árangri.

Valda leið best upp í Lóni, þar naut hann sín og plöntuuppeldið var honum fyrst of fremst gleðigjafi í lífinu, enda var alltaf mikil gleði og hressandi andblær í kring um hann. Þótt hógværðin einkenndi þetta starf þá er mjög mikilvægt að halda nafni hans og þeirra hjóna á lofti þegar horft er til áhrifavalda í garðrækt á Íslandi.

Þó að foreldrar mínir hafi eflaust haft mótandi áhrif á það að ég kaus að mennta mig og starfa í garðyrkju, var merkilegt ræktunarstarf Valda og Sveinbjargar eflaust einnig þar áhrifavaldur. Eftir að ég fluttist austur á Hérað fækkaði komum mínum í Grænuhlíð, þó sérstaklega fóru bernskuræturnar að trosna eftir fráfall pabba. Ég er þó ætíð minnug hvatningar Valda og þeirrar fyrirmyndar sem hann gaf mér í því að finna gleðina og sköpunarkraftinn í ræktunarstarfinu.

Ég og við systkinin úr Kaupfélagshúsinu þökkum Valda samfylgdina og sendum Sveinbjörgu, Eiríki, Elínu, Þorgeiri og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

Katrín Ásgrímsdóttir.

Við þekktumst ekki nógu lengi en nóg til að þú eignaðist hluta úr mínu hjarta sem þú munt alltaf eiga. Alltaf komstu mér til að brosa og ég fann alltaf fyrir óendanlegri væntumþykju frá þér og Sveinbjörgu. Mér finnst svo mikil blessun að hafa fengið að kynnast þér og umgengist þig. Og hvert sinn sem við Valdi komum til Hornafjarðar þá var það svo mikið tilhlökkunarefni að koma upp í Lón og hitta ykkur yndislegu hjónin og knúsa ykkur. Þú tókst börnunum mínum eins og þínum eigin langafabörnum og fyrir það verð ég alltaf þakklát.

Ég kveð þig með mikilli væntumþykju elsku Valdi minn og ég hlakka til að geta hitt þig aftur hinum megin.




Inga Guðrún