Vigdís Magnúsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítala, fæddist í Hafnarfirði hinn 19. febrúar 1931. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 25. apríl 2009. Foreldrar hennar voru Sigríður E. Erlendsdóttir, f. 27. maí 1896, d. 16. mars 1990 og Magnús Snorrason skipstjóri, f. 30. nóv. 1892, d. 29. júní 1938. Systkini Vigdísar voru Snorri Kristinn, f. 2. apríl 1924, d. 5. nóv. 1992 og Elín Gróa, f. 27. sept. 1925, d. 4. okt. 1947. Vigdís lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1956. Á árunum 1958-1960 var hún við nám og störf á Presbyterian St. Lukes í Chicago í Bandaríkjunum. Síðar fór hún til framhaldsnáms í spítalastjórnun við Norges Höyere Sykepleieskole, Ósló í Noregi, og lauk þar námi í desember árið 1972. Vigdís starfaði sem hjúkrunarfræðingur á skurðstofu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á árunum 1961-1970, á skurðstofu St. Jósefsspítala Kaupmannahöfn sumarið 1967, aðstoðarforstöðukona Landspítala 1970-1973, hjúkrunarforstjóri Landspítala frá 6. júní 1973 til 1. desember 1995 þegar hún tók við starfi forstjóra Landspítala sem hún gegndi til ársins 1999. Árið 1999 var henni falið fyrir hönd sjúkrahúsanna í Reykjavík að kynna sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki ný lög um réttindi sjúklinga. Síðustu starfsárin vann hún við hjúkrun á Sjúkrahóteli Rauða kross Íslands. Vigdís var í skólanefnd Hjúkrunarskóla Íslands um árabil, kenndi þar stjórnun sem og í Nýja hjúkrunarskólanum. Hún gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála m.a. í stjórn Krabbameinsfélags Íslands frá 1973 til 1999 en þá var hún kjörin í heiðursráð félagsins, í stjórn minningargjafasjóðs Landspítala frá 1988-2008, formaður fagráðs Rjóðursins, hvíldar- og endurhæfingarheimilis fyrir langveik og fötluð börn, frá árinu 2003, heiðursfélagi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vigdís var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Vigdís var um árabil leiðandi í æskulýðsstarfi KFUM og K í Hafnarfirði. Vigdís var ein af brautryðjendum Kristilegs félags heilbrigðiskvenna sem stofnað var árið 1952, formaður félagsins 1964-1970, í stjórn Kristilegs félags heilbrigðisstétta og formaður 1990-2003 og síðan varaformaður félagsins. Í minningu Vigdísar hefur verið stofnaður styrktarsjóður Kristilegs félags heilbrigðisstétta sem mun styrkja málefni í samræmi við lög og anda félagsins um að styðja og efla andlega og trúarlega þjónustu innan heilbrigðisþjónustunnar. Vigdís verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag kl.15.

Síðsumarsólin vermdi Ósló borg, ég var bæði eftirvæntingafull og kvíðin yfir því að vera að hefja framhaldsnám við Óslóarháskóla. Í salnum var einnig annar íslenskur hjúkrunarfræðingur sem ég hafði talað við áður en ég fór frá Íslandi, fannst það styrkja mig. Þegar nafnið mitt var lesið upp reis um leið kona á fætur og veifaði mér. Í fjarlægð fannst mér hún flott og falleg. Þetta var Vigdís Magnúsdóttir og þegar við hittumst eftir skólasetninguna, fannst mér hún geisla. Við urðum góðar vinkonur, vinátta sem hefur haldist öll árin og ég er þakklát fyrir. Starfsvettvangur er heim var komið var á sömu hjúkrunartorfunni, hún á Landspítalanum, ég í Hjúkrunarskólanum, þar sem hún sat í skólanefnd. Litlu-jólaboðin hennar Ingibjargar Magnúsdóttur eru ógleymanleg, að ganga inn í jólin þegar allt var á hvolfi hjá manni sjálfum var dásamlegt og alltaf Vigdís sem hjálpaði. Fagurkerinn Vigdís sem átti svo undurfallegt og hlýtt heimili. Ég kom til hennar í byrjun febrúar áður en ég fór vestur til starfa. Við skröfuðum saman um lífið og tilveruna, báðar búnar að fá sitthvað í reynslusekkinn. Allt sem lifir leitar jafnvægis, þú færð í lífinu bæði gott og slæmt og til að jafnvægi náist þarf að vinna úr því. Slíkt gerir maður ekki nema með Guðs hjálp um það vorum við Vigdís sammála.

Hver morgun nýr, hugvekjur Jónasar heitins Gíslasonar vígslubiskups í Skálholti er einstök bók. Þar tekur hann fyrir alla helgidaga ársins með skírskotun kristinnar trúar til nútímans. Eitt ljóðið fjallar um hvort nafn þitt sé skráð í Lífsins bók. Mikið held ég vér yrðum undrandi,ef vér flettumLífsins bók,er geymir nöfn þeirrasem lofsyngja lambinuí hvítklæddum skaranum á himnum. Þar ber lítið á mörgum þeim valdsmönnum veraldarer skreytaspjöld sögunnar.Meir á nöfnum þeirra, er fáir tóku eftirhversdagslegaþeir þjónuðu Guðií kyrrþeyog vöktu sjaldanathygli fjöldans.
Vigdís hefur fengið nafn sitt skráð í Lífsins bók; hún er farin til Guðs og hefur með sinni hlýju og gleði sagt við Lykla Pétur.
Ljúktu uppfyrir mér.Mér er boðið í himinn Guðs.
Og Pétur hefur lokið upp því himnaríki er fyrir boðsgesti Jesú Krists og Vigdís er einn af þeim.

Guðlaun fyrir vináttu þína og umhyggju Vigdís mín.

Sigþrúður Ingimundardóttir

Frá Kaldárseli.

Vigdís Magnúsdóttir var sérstaklega þægileg og traust manneskja. Það var gefandi að vera nálægt henni hvar sem hún var stödd. Ung valdi hún sér lífsstarfið, hjúkrun sem var ævistarf hennar. Á unga aldri valdi hún líka leiðtoga lífs síns, Jesúm, sem markaði allt hennar líf og starf. Hún kaus að lifa lífi sínu í þjónustu við skapara sinn og náungan  og það fórst henni ákaflega vel úr hendi.

Í öllum þeim störfum sem henni var treyst fyrir kom greinilega fram hversu mikill mannvinur hún var. Hún lagði sitt daglega starf  og þá sem hún umgekkst fram fyrir Drottin í bæn. Lífsstarf hennar var mörgum okkar sem samferða vorum henni mikil blessun.

Í sumarbúðunum í Kaldárseli var hún leiðtogi stúlkna í sumardvalarflokkum. Hún átti sæti í stjórn sumarbúðastarfs KFUM og KFUK í Hafnarfirði og hún var traus félagskona í KFUK allt sitt líf.

Það er með mikilli virðingu og þakklæti sem stjórn Kaldársels sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Ásgeir Markús Jónsson.