Halldór S. Gröndal fæddist í Reykjavík 15. október 1927. Hann lést á heimili sínu Bræðraborgarstíg 18 í Reykjavík 23. júlí sl. Hann var sonur hjónanna Mikkelínu Maríu Sveinsdóttur Gröndal húsmóður, f. 9.1. 1901, á Hvilft í Önundarfirði, d. 30.11. 1999, og Sigurðar Benediktssonar Gröndal yfirkennara og rithöfundar, f. 3.11. 1903 í Reykjavík, d. 6.6. 1979. Systkini Halldórs eru: Benedikt, fyrrv. alþingism. og ráðherra, f. 7.7. 1924, Sigurlaug Claessen húsmóðir, f. 8.5. 1926, Ragnar skrifstofum., f. 17.7. 1929, Þórir, ræðism. og frkvstj., f. 8.5. 1932, Ragnheiður húsmóðir, f. 20.9. 1934, og Gylfi rithöfundur, f. 17.4. 1936, d. 29.10. 2006. Halldór kvæntist Ingveldi Lúðvígsdóttur f. 9.7. 1929, dóttur Lúðvígs Guðmundssonar skólastjóra og konu hans Sigríðar Hallgrímsdóttur húsmóður. Þau eignuðust fjögur börn; Lúðvík. f. 18.8. 1955. Sigurbjörgu. f. 12.5. 1957. Hallgrím, f. 1.5. 1960 og Þorvald f. 21.7. 1972. Lúðvík er kvæntur Kristbjörgu Konráðsdóttur, f. 4.6. 1960. Barn: Ingveldur, f. 1998. Fyrir á Kristbjörgu Eydísi Ósk, f. 1993, og Konný Björgu, f. 1993. Stjúpsonur Lúðvíks er Björn Zakarías, f. 1979, sambýliskona Björns er Eyrún. Börn: Saga Karitas, f. 1998, Ingibjörg Eva, f. 2000, og Jóhanna Lísa, f. 2005. Sigurbjörg er gift Ólafi Hauki Ólafssyni, f. 9.2. 1949. Börn: Ólafur Haukur, f. 1979, sambýliskona Ellen, Inga Lára, f. 1981, sambýlismaður Gunnar Bjarni. Barn: Katrín Björg, f. 2009. Fyrir á Inga Lára Victor, f. 2003. Ásdís Björg, f. 1985, sambýlismaður Karl Halldór. Katrín Lilja, f. 1988. Hallgrímur er kvæntur, Sólveigu Fanný Magnúsdóttur, f. 4.11. 1961. Börn: Halldór, f. 1988, Fanný Ragna, f. 1991, og Hafsteinn, f. 1995. Þorvaldur er kvæntur Láru Sveinsdóttur, f. 18.6. 1974. Barn: Þórunn, f. 2006. Halldór lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1949. Hann lauk námi í hótelrekstrarfræðum frá Cornell University í Bandaríkjunum 1952. 1954 stofnaði hann ásamt félögum úr Verzlunarskólanum veitingastaðinn Naust og veitti Halldór honum forstöðu til ársins 1965. Hann var forstjóri Iceland Food Centre í Lundúnum í Englandi 1965-1967. Hann lauk síðan guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1972. Hann vígðist sem farprestur þjóðkirkjunnar 1972 og þjónaði á Borg á Mýrum og í Keflavík 1972-1973. 1973 vígðist hann til Grensásprestakalls sem sóknarprestur og þjónaði þar til ársins 1997. Hann lauk þjónustu sinni við þjóðkirkjuna sem sóknarprestur við Laugarnesprestakall árið 1998. Árið 2000 tók hann kaþólska trú, en í henni fann hann trú sinni sinn rétta farveg. Halldór sat í stjórn Sambands veitinga- og gistihúsaeig. 1954-1965. Formaður skólanefndar Hótel- og veitingaskóla Íslands 1962-1965. Hlaut heiðurspening fyrir veitingastörf frá forseta Íslands 1960 og frá Svíakonungi og Finnlandsforseta á sjöunda áratugnum. Halldór skrifaði bókina Tákn og undur, útg. 1990. Hann hlaut síðar viðurkenningu landbúnaðarráðherra fyrir það frumkvæði að hefja þorramatinn á ný til vegs og virðingar hjá þjóðinni. Halldóri verður sungin sálumessa í Kristskirkju Landakoti í dag, 5. ágúst, og hefst hún kl. 15.

Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.. Réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú." Þessi orð Rómverjabréfs draga fram gildi fagnaðarerindis Jesú Krists. Fagnaðarefni er að stærstu kirkjudeildir hafa viðurkennt að trúin í Jesú nafni er farvegur Guðs náðar og verka og eflt samstöðu sína. Sú samstaða var sr. Halldóri Gröndal hjartans mál. Eftir áföll og afturhvarf fann Halldór traustan lífsgrundvöll í trúnni á Jesú Krist. Þótt væri að komast á miðjan aldur fylgdi hann þeirri köllun að nema guðfræði og gerast prestur.

Halldór var elstur og lífsreyndastur okkar níu guðfræðinema sem hófu nám í guðfræðideild H. Í. haustið 1968. Hann hafði numið viðskiptafræði og hótelrekstur í Vesturheimi, stofnað veitingahúsið Naust og rekið Icelandic Food Centre í Lundúnum. Halldór hafði fágað yfirbragð og var okkur styrkur sem glímdum við efasemdir því trúarviðmið voru honum sannur veruleiki þótt tæki áskorun guðfræðinnar að horfa gagnrýnið yfir vítt svið hennar.

Halldór lauk embættisprófi og vígðist til prests fyrr en við flestir og setti mark sitt á íslenskt kirkjulíf sem sóknarprestur í Grensássókn. Hann prédikaði orðið klárt og kvitt, snerti hjörtu og var næmur á þörf og vanda, nærgætinn og hlýr í boðun sinni. Messur voru vel sóttar í Grensáskirkju og oft var þar troðfullt á kvöldsamkomum. Sr. Halldór gaf ungu fólki hlutverk og svigrúm til að tjá trú sína í líflegri lofgjörð er hrærði við þeim sem eldri voru og glæddi trúarvitund þeirra.

Í bók sinni Tákn og undur lýsir sr. Halldór skírn sinni í heilögum anda og tungutali. Hann vitnar um bænasvör og lifandi trú í gleði og raunum með þeim hætti að vitnisburður hans mun áfram vera virkur til hjálpræðis. Sr. Halldór Gröndal uppfyllti köllun sína vel sem prestur í Þjóðkirkju Íslands og leiddi fjölmarga inn á veg Guðsríkis með áhrifaríkri boðun sinni, fyrirbænum og sálusorgun. Hann hafði helgast af og miðlað endurleysandi krafti Guðs anda og sótti sér föng í stórbrotinn arf kristinnar kirkju. Sú vitund mótaði trú hans að sígild messa með brotningu brauðs og blessun víns í Jesú nafni tengdi kynslóðir kristinna manna í einingar og kærleiksbandi. Helgihald kaþólskrar kristni, messa og tilbeiðsluhættir sem drógu það glöggt fram höfðaði til hans einkum þegar á ævina leið.

Frá Bræðraborgarstíg þar sem sr. Halldór og Ingveldur Ludvigsdóttir, ástrík eiginkona hans, áttu sér fagurt heimili heyrist vel í klukkum Kristskirkju á Landakotstúni. Sr. Halldór sótti hana og gerðist kaþólskur. Hann var trúr sannfæringu sinni og fann samhljóm í frjálsri lofgjörð andans og öguðum tíðasöng og messu í kirkju Krists. Sr. Halldór leit á þá kirkju sem eina þótt af stofni hennar yxu margar greinar. Dýrmætast væri að þær bæru Guði fagra ávexti fyrir trú. Guði sé lof fyrir vitnisburð og verk sr. Halldórs Gröndal og fullkomni líf hans í upprisubjarma frelsarans og líkni og lýsi ástvinum hans.
Gunnþór og Þórhildur

Gunnþór og Þórhildur.

Halldór Gröndal, eiginmaður bernskuvinkonu minnar, er látinn. Hann sat í stól í stofunni sinni þegar hann sofnaði inn í bjarta sumarnóttina. Hann var í umhverfinu sem þau höfðu mótað sameiginlega í nágrenni við æskustöðvar hans sjálfs í Vesturbænum.

Líf Halldórs var litríkt og lærdómsríkt. Hann var sannarlega einn af þeim, sem settu svip á bæinn. Hann hafði áhrif á samborgara sína, einkanlega ungt fólk, bæði nemendur sína í hótel- og veitingastörfum og svo síðar í kirkjulegu starfi. Honum tókst að skipta starfsævi sinni í tvö áhrifamikil tímabil. Á hinu fyrra tímabili var hann umsvifamikill veitingamaður en síðara tímabilið og lengra var hann aðsópsmikill og vinsæll sóknarprestur.

Halldór stjórnaði Nausti við Vesturgötu. Þar naut sín vel eldmóður hans, menntun, smekkvísi og fágun. Hann gerði til dæmis hversdagsmat fyrri tíðar að veislukosti, þorramat og mótaði þar með nýja hefð í dagamun almennings. Hönnun og handbragð innandyra var auk þess menningarverðmæti, sem eftirsjá er að.

Hann varð sóknarprestur í Grensásprestakalli, þar sem hann þjónaði í aldarfjórðung vinsæll og virtur af sóknarbörnum sínum. Þar vakti hann marga til kristilegs starfs. Hann hafði mikla hlýju til að bera enda leitaði margur til hans í erfiðleikum og fékk stuðning í bænum hans. Hann sá draum sinn rætast um kirkjubyggingu fyrir söfnuðinn.

Halldór fór ekki troðnar slóðir. Það hefur ekki verið einfalt mál að fara úr umsvifamiklum veitingarekstri, setjast í guðfræðideild og verða prestur hálffimmtugur. En þarna komu við sögu aðaldrættirnir, sem okkur þótti einkenna hann, kjarkur og trúarhiti. Við teljum, að honum hafi aldrei verið sýnt um að gera neitt með hálfum huga, heldur ganga hreint til verks. Við spurðum hann hvort því fylgdi ekki einkennileg tilfinning að söðla svona gersamlega um í starfi. Hann svaraði: Nei, hvort tveggja er þjónusta. Þannig var hann, gerði það sem starf hans og trú megnaði til að létta öðru fólki lífið.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Halldóri og átt vináttu hans. Við vitum að hans verður sárt saknað af vinafundum og úr ferðalögum stúdentsárgangsins MR ´49. Við biðjum minningu hans blessunar og vottum Ingu, börnum þeirra og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Ragnhildur Helgadóttir og Þór Vilhjálmsson.

Vinur okkar og skólabróðir, Halldór Gröndal viðskiptafræðingur, guðfræðingur og sóknarprestur lést 23. júlí sl. Foreldrar hans voru Mikkelína María Sveinsdóttir, húsmóðir og Sigurður B. Gröndal rithöfundur og yfirkennari og skólastjóri Matsveina- og veitingaþjónaskóla Íslands.  Halldór stundaði nám við Verslunarskóla Íslands á árunum 1942-1949, hann lauk verslunarprófi 1947 og stúdentsprófi 1949.  Halldór fór síðan til náms við Cornell háskólann í USA sem er einn af elstu og virtustu háskólum Bandaríkjanna.  Þaðan lauk hann námi í viðskiptafræðum árið 1952, með hótelrekstur sem aðalnámsgrein.  Halldór varð cand. theol. frá H.Í. 1972. Halldór var einn af stofnendum Veitingahússins Nausts þar sem hann var forstjóri 1953-65.  Rekstur Naustsins braut blað í sögu veitingareksturs á Íslandi m.a. með því að endurvekja gamlar íslenskar matarhefðir eins og þorrablótið.  Árin 1965-1967 veitti hann forstöðu Iceland Food Centre í London sem sett var á stofn í þeim tilgangi að kynna íslenska matarhefð.  Halldór kenndi við Hótel- og veitingaskóla Íslands 1968-1977.  Hann var vígður til prests 1972 og þjónaði sem farprestur Þjóðkirkjunnar þar til 1973, er honum var veitt Grensásprestakall í Reykjavík sem hann þjónaði til starfsloka.  Síðar gekk Halldór til liðs við Kaþólsku kirkjuna og var þar mjög virkur í starfi. Eins og áður var getið stundaði Halldór nám við Verslunarskóla Íslands.  Að loknu Verslunarprófi létu 17 nemendur af yfir 50 skrá sig í framhaldsnám til stúdentsprófs.  Halldór var virkur í félagslífi 5. og 6. bekkjar Verslunarskólans. Þessi hópur sá um að reka skólabúðina og gekk rekstur hennar afar vel.  Þá var rætt um ferðalag að loknu stúdentsprófi ásamt öðrum áhugamálum og kom sú djarfa hugmynd fram að heimsækja Norðurlöndin og nefnd sett í málið, sem Vilhjálmur Þ. Gíslason skólastjóri studdi með ráðum og dáð m.a. með því að beita áhrifum sínum innan norrænu félaganna með þeim árangri að tekið var á móti okkur með kostum og kynjum í þeim löndum, er við heimsóttum, sem voru Danmörk, Noregur og Svíþjóð.  Á leiðinni út með Dronning Alexandrine árið 1949, höfðum við 12 tíma viðdvöl í Færeyjum og heimsóttum þá m.a. Kirkjubæ, hið forna höfðingjasetur og hittum þar Kóngsbóndann.  Var þetta ógleymanleg byrjun á ferðalaginu. Tekið var á móti okkur í Kaupmannahöfn og sýnd borgin en síðan skilað á járnbrautarstöðina þaðan sem við fórum til Stokkhólms um nóttina.  Tekið var á móti okkur með kostum og kynjum í Svíþjóð.  Við heimsóttum m.a. Uppsalaháskóla, þar sem rektor bauð okkur til morgunverðarhlaðborðs.  Var ógleymanleg sú virðing sem okkur var sýnd þar.  Við skoðuðum búgarð í eigu Alva Laval skilvinduverksmiðjanna, bændasamtökin buðu okkur til hádegisverðar, við heimsóttum samvinnufélögin í Stokkhólmi og sátum kvöldverðarboð í Bellmanskjallaranum þar sem Vilhjálmur Þ. Gíslason snæddi með okkur.  Svona mætti lengi telja og má segja að Svíar hafi borið okkur á höndum sér.  Frá Stokkhólmi héldum við til Oslóar, þar sem okkur var látinn í té leiðsögumaður sem sýndi okkur ýmsa markverðustu staði, bæði innan Oslóar og svo í næsta nágrenni borgarinnar.  Þaðan héldum við svo til baka til Kaupmannahafnar þar sem við dvöldum í nokkra daga uns farið var heim að loknu ævintýralegu ferðalagi.  Því er þess getið hér að ferðalög útskriftarnema til útlanda voru sjaldgæf á þessum tíma svo skömmu eftir heimstyrjöldina síðari, og vonandi þá síðustu, þegar maður virðir fyrir sér þá ógn, sem af þeim stafa.  Ferðalagið hafði gríðarlega mikil áhrif á okkur.  Við sem höfðum verið einangraðir vegna fjarlægðar og enn frekar í heimsyrjöldinni, sáum hvernig heimurinn leit út og sú sýn hafði mótandi áhrif á æfi okkar og sýn okkar á heiminn.  Allt varð þetta okkur hvatning til framtíðar, að hverfa frá haftasamfélaginu til sjálfstæðis, atvinnuþróunar og velmegunar.  Þar lagði Halldór sitt af mörkum eins og sjá má af þeim störfum, sem hann innti af hendi í lífinu. Eiginkonu Halldórs, Ingveldi Lúðvígsdóttur Gröndal, fjölskyldu Halldórs og aðstandendum öllum sendum við samúðarkveðjur.

Helgi Ólafsson og Már Elísson

Genginn er góður maður með mikla visku. Sr. Halldór S. Gröndal var sóknarprestur okkar í Grensássöfnuði frá árinu 1973-1997. Hann var mikill og góður ræðumaður, sterkur predikari og hreif söfnuð sinn með sér í predikunum sínum. Hann var sterkur og mjög bænheitur maður, og gott var að leita til hans með fyrirbænir. Ég átti þess kost að syngja með kirkjukórnum í Grensáskirkju og þannig kynntist ég sr. Halldóri persónulega. Seinna fór ég svo að taka þátt í störfum sóknarnefndar og hvatti hann mig þar til dáða. Fyrir það allt er ég honum mjög þakklát. Hann var mikill vinur okkar allra sem komu að starfi safnaðarins, hreif okkur með sér í bæn sinni. Ef einhver þurfti á hans persónulegu hlustun að halda var það alltaf meira en velkomið. Gott var að tala við sr. Halldór ef eitthvað lá manni þungt á hjarta. Þá var gott að fá hjá honum blessun og gott handtak. Hann var sannur og traustur vinur sóknarbarna sinna. Sr. Halldór þjónaði söfnuði sínum alla tíð hið besta og var hans saknað er hann lét af starfi sóknarprests Grensássafnaðar. Hann var afar ánægður að fá að taka þátt í að vígja nýja kirkju, Grensáskirkju, en hann sagði við mig eitt sinn að safnaðarheimilið okkar sem hafði verið kirkjan okkar til ársins 1996, væri samt stór og góð kirkja, þar hafði honum liðið vel. Að leiðarlokum eru Sr. Halldóri S. Gröndal færðar bestu þakkir fyrir hans góðu prestsstöf við Grensáskirkju. Frú Ingveldi og fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur við fráfall sr. Halldórs.

Með virðingu og þökk,

f.h. Grensássafnaðar,

Kristín Hraundal, formaður sóknarnefndar.

Að morgni 23. júlí sl. varð sr. Halldór Gröndal bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjavík.

Ég kynntist sr. Halldóri fyrir tíu árum, þá rétt nýkominn til landsins og nemi í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands. Vegna veikinda þáverandi sóknarprests í Landakoti, sr. Jakobs, var mér falið að búa sr. Halldór undir upptöku í kaþólsku kirkjuna. Hann hafði lengi hugsað um það að stíga þetta skref. Fyrir hann þýddi það alls ekki að segja skilið við fortíð sína í Þjóðkirkjunni og við áralangt, blessunarríkt og afar farsælt starf sem prestur, sér í lagi sem sóknarprestur í Grensássókn, heldur leit hann á það sem einskonar þróun eða fullnun: Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að kaþólska kirkjan væri móðurkirkjan sem Íslendingar gengu á hönd af fúsum og frjálsum vilja þegar þeir tóku kristna trú árið 1000 og hann vildi fylgja fordæmi forfeðra sinna. Það var sérstaklega fernt sem skipti hann miklu við þessa ákvörðun: tengslin við páfann og þar með bæði við upphaf kirkjunnar og við heimskirkjuna alla, fegurð helgihaldsins, einlæg og hlý dýrkun Maríu meyjar og skýr kenning.

Við hittumst reglulega og ræddum saman og einkenndust fundir okkar af mikilli og gagnkvæmri virðingu og sívaxandi vináttu:

þótt ég hefði getað verið sonur hans leit hann á mig sem kennara sinn eða leiðbeinanda. Á hinn bóginn lærði ég af lífs- og starfsreynslu hans og hann hjálpaði mér mikið í íslenskunni, sér í lagi þegar við byrjuðum að þýða rit og bækur yfir á íslensku. Hann var mér einnig stoð og stytta í kirkju- og safnaðarstarfi. Að beiðni minni tók hann að sér starf lesara í messu og sá nokkra vetur um Biblíulestur, tók þátt í fræðslukvöldum í safnaðarheimili okkar og sýndi mikinn áhuga á lífi og starfi kirkjunnar á Íslandi. Fyrir hennar hönd og sem fyrrverandi sóknarprestur Kristskirkju þakka ég honum af hjartans einlægni og mun varðveita minningu hans ævinlega. Þrátt fyrir alla sorg og angurblíðu var mér ljúft að geta verið á Íslandi þegar sr. Halldór kvaddi þennan heim og gat verið hjá fjölskyldu hans bæði á dánardegi hans og við kistulagninguna.

Trúin og boðun trúarinnar voru hjartans mál sr. Halldórs. Nú er hann kominn á þann stað þar sem hann þarf ekki lengur að trúa heldur getur séð allan þann veruleika sem er okkur enn hulinn. Hann er farinn á undan okkur og bíður eftir okkur.

Megi sr. Halldór Gröndal sem dýrkaði Maríu mey svo innilega njóta árnaðarbænar hennar á leið til ásjónar Guðs og samvistar hennar í návist hans eins og segir í gamalli íslenskri Maríubæn:

"Bið ég María bjargi mér burt úr öllum nauðum, annars heims og einnin hér ástmær Guðs, ég treysti þér, bið þú fyrir mér bæði lífs og dauðum."

Sr. Jürgen Jamin.

Elsku besti afi okkar,


Það er svo sárt að kveðja þig en við vitum að þú ert kominn á fallegan góðan stað, stað sem þú kenndir okkur svo ótal margt um. Þegar við hugsum til þess að þú ert ekki hérna hjá okkur lengur hugsum við um allar góðu og skemmtilegu minningarnar sem við áttum saman. Núna þegar þú ert farinn fær maður líka að heyra svo ótrúlega margt um þig sem maður hafði ekki hugmynd um. Allt sem þú afrekaðir í gegnum tíðina, allt fólkið sem þú hafðir svo mikil áhrif á og hve margir litu upp til þín. Maður fyllist endalausu stolti. Jafn miklu stolti og þú fylltist í hvert einasta skipti sem við systkinin afrekuðum eitthvað í gegnum árin, maður var alltaf fyrstur að fá símhringingu frá afa Halldóri sem var svo ótrúlega ánægður með okkur og hrósaði okkur út í eitt, það hafði sko klárlega áhrif á að maður vildi standa sig vel í því sem maður tók sér fyrir hendi. Takk fyrir allt sem þú kenndir okkur og gerðir með okkur. Það eru ekki margir sem hafa átt jafn einstakan afa eins og þig.

Elsku afi okkar, þú gerðir okkur að betri manneskjum.

Þín,

Fanný Ragna og Hafsteinn H. Gröndal.