Tómas Haukur Jóhannsson fæddist í Reykjavík 20 janúar árið 1921. Hann lést á Hjartadeild Landspítalans við Hringbraut þann 16. júlí eftir skamma sjúkrahúslegu. Hann var sonur hjónanna Jóhanns Þorleifssonar, sjómanns og verkamanns sem fæddur var 9. júlí 1888, látinn 5 desember 1985, og Jóhönnu Guðrúnar Tómasdóttur fæddri 30. nóvember 1890, látin. 12. desember 1980, bæði ættuð af Vestfjörðum. Systkini Tómasar Hauks hans voru Svanfríður fædd 24. desember árið 1916, látin 6. febrúar árið 1993, Unnur sem fædd var 12. apríl árið 1923, látin 21. mars á þessu ári. Kristín fædd 27. mars árið 1929 og er hún nú ein eftirlifandi af systkinunum. 23. janúar árið 1954 giftist hann Erlu Andrésdóttur frá Borgarnesi fæddri 25. ágúst árið 1930 en hún var dóttir hjónanna Andrésar Björnssonar og Stefaníu Ólafsdóttur. Erla lést 26. ágúst árið 2002. Sonur þeirra er Andrés Tómasson viðskiptafræðingur fæddur 16. febrúar árið 1969. Tómas Haukur hóf ungur sjómennsku og starfaði í fyrstu sem háseti og bátsmaður en síðar sem stýrimaður. Hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1950. Sigldi hann bæði á fiskiskipum en þó lengst á farskipum og endaði sinn sjómennskuferil sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni. Síðar tók hann við starfi húsvarðar við Fellaskóla í Reykjavík og gengdi því starfi til 71 árs aldurs árið 1992 er hann fór á eftirlaun. Tómas Haukur var virkur í starfi samtaka hjartasjúklinga, Hjartaheilla og var sæmdur gullmerki Hjartaheilla árið 2000. Útför hans fór fram í kyrrþey þann 27. júlí frá Kapellunni í Fossvogi.
Taktu við þessari stöng, vinurinn, og farðu vel með hana. Þannig hófst áhugi minn á flugustangveiði aðeins 10 eða 12 ára gamall. Haukur frændi gaf mér fyrstu flugustöngina mína. Undrun og gleði umvafði þessa stund. Að eignast forláta fluguveiðistöng voru forréttindi fyrir lítinn strák úr Keflavík. Þessi stund er lýsandi fyrir Hauk frænda, sem var afar góður, brosmildur og hjartahlýr maður sem mér þótti vænt um.
Á uppvaxtarárum mínum í Keflavík eru bæjarferðirnar til Reykjavíkur mér í fersku minni. Við heimsóttum ættingja og vini. Alltaf var litið í kaffi til Hauks frænda, Erlu og Adda, en Haukur var bróðir ömmu, sem lést í mars sl. Ég og Addi erum jafnaldrar og urðu alltaf fagnaðarfundir, er við hittumst. Gott var að taka hús á þessari litlu fjölskyldu og var alltaf tekið vel á móti okkur.
Haukur vann áður á frökturum og komst stundum í hann krappann. Hann gat sagt margar skemmtilegar sögur frá sjónum. Hann var handverksmaður mikill og góður smiður og vann sem slíkur eftir að hann kom í land. Hann smíðaði leikföng handa börnunum í fjölskyldunni.
Mér eru minnisstæðar veiðiferðirnar okkar Hauks og Adda. Þetta voru skemmtilegar ferðir, þar sem ég kynntist vatnaveiði í fyrsta skipti.
Við Haukur hittumst í hinsta sinn nú á vordögum, þegar hann og Addi komu suður til Keflavíkur í fermingu dóttur okkar. Það var greinilega byrjað að draga af frænda mínum, en það stóð ekki á fallega brosinu hans og góða fasi.
Við munum sakna þín, kæri frændi. Takk fyrir allar góðu stundirnar, takk fyrir veiðistöngina, ég mun passa hana.
Fjölskylda mín sendir Adda og Kristínu, okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls góðs manns, Hauks frænda.
Þórólfur, Vilborg og börn.