Guðríður Guðrún Jónsdóttir Chitow, eða Stella, eins og hún var kölluð allt frá barnæsku, andaðist í Norður Karólínu í Bandaríkjunum 29. september síðastliðinn. Hún var fædd í Reykjavík 23. desember 1944. Foreldrar hennar voru Steinunn Þorbjörnsdóttir, fædd 1. desember 1917, dáin 23. nóvember 1985 og Jón Salvar Rósmundsson, fæddur 3. september 1914, dáinn 14. marz 2004, bókari og síðar borgargjaldkeri í Reykjavík. Stella á þrjá bræður, sem allir búa ásamt fjölskyldum sínum í Reykjavík. Þeir eru Rósmundur,fæddur 8. desember 1942, Garðar, fæddur 10. nóvember 1946 og Þorbjörn, fæddur 4. janúar 1949. Stella lauk gagnfræðaprófi frá Réttarholtsskóla og starfaði síðan hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík.Hún tók þátt í félagsstarfi handknattleiksdeildar Víkings og lék þar í meistaraflokki kvenna. Árið 1968 kynntist hún Bandaríkjamanninum William Louis Chitow og felldu þau hugi saman. Þau giftust sama ár og fluttu til Flórída. Eignuðust þau þrjú börn, Jón Axel, fæddan 24. október 1968, sem býr í Houston, Texas, Thor Christian,fæddan 14. apríl 1973, sem kvæntur er Katherine og búa þau í Norður Karólínu. Yngst er dóttirin Natasha Aili,fædd 7. febrúar 1983, og býr hún í Kissimee í Flórída. Hjónaband Stellu og Williams endaði með skilnaði 1995. Hún var alla tíð í góðri vinnu, fyrst hjá tölvurisanum IBM og síðar hjá öðrum skyldum fyrirtækjum. Hún var einn af stofnendum Íslenzk/Ameríska félagsins í S-Flórída og sat þar lengi í stjórn. Ættingjar og vinir munu hittast á heimili Ásu Gunnlaugsson í Pompano Beach í Flórída í dag, 9. nóvember, til að minnast Stellu og rifja upp ánægjulega daga í hennar návist á liðinni tið. Minningarathöfn verður seinna í Reykjavík. Þeir, sem vilja minnast hinnar látnu, geta látið fé af hendi rakna til The Hospice of Iredell County. 2347 Simonton Road, Statesville, North Carolina, USA 28625 (www.hoic.org).

Íslenska sumarið skartar nú sínu fegursta. Angan af birki, blóðbergi og lyngi fyllir vitin og nýfædd folöldin bregða á leik í gleði sinni yfir lífinu.  Farfuglarnir allir löngu komnir yfir hafið og heim, stilla saman strengi sína svo enn og aftur hljómar sú fagra hljómkviða nóttlausan sumardaginn.

Þetta er íslenska sumardýrðin sem hún Stella unni svo mjög.

Fyrir rúmum 40 árum fluttist stúlkan Stella vestur um haf og hóf þar búskap ásamt eiginmanni sínum og ungum syni. Hún dvaldi þar allar götur síðan. Heimsóknir heim til Íslands voru þó fastur liður og jafnan tilhlökkunarefni þegar von var á Stellu og fjölskyldu.

Stella var greind og skemmtileg kona með einstaklega góða nærveru.  Yfirbragðið róglegt og yfirvegað en ætíð stutt í léttleikann og dillandi hláturinn.

Hún var höfðingi heim að sækja, hugmyndarík og fundvís á hvað líklegt væri til þess að gera samveru eftirminnilega og stundina góða.

Það varð okkur öllum mikið reiðarslag þegar fréttist af alvarlegum veikindum Stellu, sem lögðu hana af velli eftir stutta en snarpa sjúkralegu.

Nú er hún Stella komin heim í sína hinstu för. Heim til föðurlandsins þar sem ræturnar lágu og hugurinn dvaldi gjarnan, einkum á sumrin.

Um  leið og ég kveð hana mágkonu mína vil ég þakka og minnast allra samverustundanna.  Ég ætla að geyma vel og lengi minningu um Stellu í hestaferðalagi, þeysandi  á honum Létti gamla á  íslenskri grund í bjartri sumarnóttinni.  Síðustu geislar miðnætursólarinnar slá roða á vanga knapans og fax hestsins niður með síðum.  Hún þeysir á undan samferðarfólkinu, snýr svo örstutt höfðinu til okkar og hrópar „Þetta er lífið“

Fjölskyldan Ásum vottar Bill og börnunum sína dýpstu samúð.

Sigríður Johnsen