Halldór Sveinn Rafnar fæddist í Reykjavík 20. janúar 1923. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 1. maí 2009. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Sigurður Jónasson Rafnar, aðalbókari hjá SÍS í Reykjavík, f. 5.4. 1896, d. 17.4. 1947 og Ásthildur Sveinsdóttir Rafnar, húsmóðir í Reykjavík, f. 24.4. 1894, d. 11.6. 1934. Hálfsystur Halldórs samfeðra: Þórunn Rafnar f. 1941, d. 1996, var gift Hallgrími Jónssyni; og Hildur Rafnar, f. 1943, búsett í Bandaríkjunum, gift Jim Patshic. Halldór kvæntist 14. ágúst 1946 Þorbjörgu Jónsdóttur Rafnar, fyrrverandi bankamanni, f. 23.07. 1926. Hún er dóttir Jóns Þorsteinssonar, verslunarmanns á Seyðisfirði og konu hans Sigríðar Stefánsdóttur, húsmóður. Dætur Halldórs og Þorbjargar eru: 1) Ásthildur Sigríður, f. 22.8. 1947, gift Þorsteini Ólafssyni. Börn þeirra eru: a) Halldór Friðrik, hans börn eru Þorsteinn Friðrik, Magnús Friðrik og Sigrún Ásta. b) Bergljót, gift Magnúsi Stephensen, þeirra synir eru Kristófer Konráðsson, Ólafur Flóki og Hrafn. c) Þórhallur Eggert, kvæntur Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, börn þeirra eru Ólafur Bjarni og Ásthildur Jóna. 2) Jónína Þórunn, f. 6.5. 1951, gift Guðmundi Þorgrímssyni. Börn þeirra eru: a) Hallgrímur, í sambúð með Gíslínu Ernu Valentínusdóttur, þeirra börn eru Bergþóra Hrönn, Gyða Kolbrún og Guðmundur Óli. b) Þórólfur, í sambúð með Áslaugu Rögnu Ákadóttur, þeirra dætur eru Bryndís Rún og Birna Rún. c) Áslaug, í sambúð með Unnari Þór Garðarssyni, þeirra dóttir er Sigrún Egla. 3) Andrea Þorbjörg f. 10.9. 1960, gift Einari Þór Þórhallssyni. Börn þeirra eru Sunna Björg og Stefán Arnar. Halldór fékkst við bókaútgáfu á námsárum sínum og gaf m.a. út ýmis rit eftir afa sinn, séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Hann starfaði við Borgarfógetaembættið í Reykjavík í 25 ár. Hann var skipaður borgarfógeti 1967 og gegndi því starfi þar til hann missti sjónina árið 1974. Að lokinni dvöl í endurhæfingu fyrir nýblinda í Torquay í Bretlandi setti hann á stofn lögfræðilega ráðgjöf fyrir skjólstæðinga Öryrkjabandalags Íslands. Halldór var formaður Blindrafélagsins á árunum 1978-1986 og framkvæmdastjóri félagsins 1985-1994. Hann var varaformaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í nokkur ár. Einnig sat hann í stjórn samstarfsnefndar blindrafélaga á Norðurlöndum og var formaður þeirra um nokkurt skeið. Hann var fulltrúi Íslands við stofnun Evrópusambands blindra í Osló 1984 og við stofnun Heimssambands blindra í Rihjad í Saudi-Arabíu sama ár. Halldór sat í stjórn Umferðarráðs f.h. Öryrkjabandalags Íslands og Félags eldri borgara auk þess sem hann var fulltrúi blindra í stjórn Hjúkrunarheimilisins Eirar 1990-2008. Halldór var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1987 fyrir störf í þágu blindra á Íslandi. Þorbjörg og Halldór héldu lengst heimili í Fossvogi en síðustu ár hefur hann dvalið á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. Útför Halldórs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveðjum við félagsmenn Blindrafélagsins kæran vin og félaga til margra ára Halldór S. Rafnar, fyrrverandi formann og framkvæmdastjóra félagsins.

Þegar okkur barst sú frétt um síðustu helgi að Halldór okkar Rafnar væri látinn komu upp í hugann margar hlýjar og ljúfar minningar um þann ágæta mann. Ég kynntist Halldóri upp úr 1990, fljótlega eftir að ég gekk í Blindrafélagið, þá ungur að árum. Það var alltaf gaman að koma á skrifstofu hans og spjalla við hann um heima og geima. Hann var víðlesinn maður, fróður um flesta hluti og hafði mikla og góða eiginleika sem leiðtogi. Hann var alltaf mjög yfirvegaður, sama á hverju gekk. Undir hans stjórn náði félagið merkilegum áfangasigrum í réttindabaráttu sinni. Hann var einn af þeim aðilum sem kom að stofnun Blindrabókasafns Íslands, Sjónstöðvar Íslands og sambýlis fyrir blinda og sjónskerta. Einnig var hann framkvæmdastjóri þegar þríkrossinn var blessaður af Jóhannesi Páli páfa þegar hann kom til Íslands árið 1989. Þríkrossinn er fallegur skartgripur sem hannaður var af Ásgeiri heitnum Gunnarssyni, og hefur hann verið mjög vinsæll meðal landsmanna í gegnum árin og margir Íslendingar bera sem verndargrip.

Fyrir mér var Halldór alltaf góð fyrirmynd. Hann sýndi okkur hinum sem erum blind eða alvarlega sjónskert að með þrautseigju, dugnaði og vilja eru allar leiðir færar. Þrátt fyrir litla sjón framan af ævi gekk hann menntaveginn og lauk stúdentsprófi frá MR 1943. Að stúdentsprófi loknu réðist hann ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1950. Hann stofnaði fjölskyldu og eignaðist þrjár dætur og tók þátt í samfélaginu af lífi og sál. Fyrir okkur hin sem komum á eftir Halldóri var dugnaður hans hvatning til okkar um að ýmislegt væri hægt að gera þó sjónin væri lítil eða engin eins og Halldór þurfti að takast á við seinni hluta ævi sinnar.

Þegar Halldór var framkvæmdastjóri félagsins lagði hann mikla áherslu á að vera í góðum samskiptum við félagsmenn sína. Hann var duglegur að koma með upplýsingar og tilkynningar til félagsmanna á Valdar greinar, sem er fréttabréf Blindrafélagsins og kemur reglulega út á hljóðformi.

Hann og Þorbjörg kona hans voru mjög virk á tímabili í félagsstarfi félagsins, mættu á alla fundi og skemmtanir, ferðalög, bæði hérlendis og erlendis og voru þau hjón hrókur alls fagnaðar. Það var alltaf stutt í húmorinn og honum fannst ekki leiðinlegt að segja skemmtisögur og oft urðu blindrabrandarar fyrir valinu og jafnvel hafði hann gaman af að segja blindrabrandara af sjálfum sér.

Mér er mjög minnisstætt að árið 1993 var ég að skipuleggja norrænar sumarbúðir fyrir blind og sjónskert ungmenni, sem áttu að fara fram á Íslandi árið á eftir. Þá bauðst Halldór Rafnar til að koma með mér á fund borgarstjóra til að sannfæra hann um að hann ætti að styrkja norrænar sumarbúðir myndarlega. Þegar við mættum á fundinn lagði Halldór allt kapp á að sannfæra borgarstjórann um mikilvægi þess að styrkja þetta verkefni til þess að ungt, blint og sjónskert fólk á Norðurlöndum gæti komið saman og deilt reynslu sinni. Hann talaði mikið á þessum fundi og notaði mikinn sannfæringarkraft. Þegar við komum út af fundinum sagði ég við Halldór: Það mætti halda Halldór að þú ætlaðir að taka þátt í þessum sumarbúðum, sannfæringarkrafturinn var svo mikill. Þá glotti hann við og sagði: Það er aldrei að vita nema ég mæti. Þarna var Halldór orðinn 70 ára gamall.Að lokum vil ég senda Þorbjörgu Rafnar, dætrum hans, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum mínar dýpstu samúðarkveðjur og bið góðan guð að styrkja þau í sorg þeirra. Halldórs verður minnst í Blindrafélaginu sem öflugum og farsælum leiðtoga um ókomna framtíð.

Halldór Sævar Guðbergsson, fyrrum formaður Blindrafélagsins og nú formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Til er athafnafólk sem lætur mikið fyrir sér fara og hafa. En það eru líka aðrir sem með lagni ná fram hverjum áfanganum af öðrum næstum eins og áreynslulaust. Þeirrar gerðar var heiðursmaðurinn Halldór Rafnar.

Ég naut þeirra forréttinda ungur að fá að taka við framkvæmdastjórn Blindrafélagsins við starfslok Halldórs. Ég hafði frá barnsaldri þekkt til hans sakir æskuvináttu minnar og dóttursonar hans og nafna. Jákvæðni og elskulegt glaðlyndi hans var mér eins og mörgum öðrum uppörvun og lifandi sönnun þess að afstaða manns ræður ekki síður hamingju en hlutskiptið.

Hann hafði opnað Blindrafélagið og með hjálp góðra manna komið á ýmsum stofnunum og þjónustu fyrir blinda og sjónskerta, en um leið hafði hann með samstarfsfólki sínu lagt traustan fjárhagsgrunn undir starfsemina alla með sjóðasöfnun en ekki skulda. Og þó búið væri gott sem hann skilaði varðveitti hann æsku sína í því að vera alltaf til í að hlusta á hugmyndir stráksins um eitthvað nýtt eða öðruvísi og leggja því lið.

Um leið og ég þakka hans góða starf og vináttu færi ég fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Helgi Hjörvar.