Kristján Guðmundsson fæddist á Fáskrúðarbakka í Miklaholtshreppi 12. október 1918. Hann andaðist 10. júní 2009. Hann var sonur Sigríðar Gunnhildar Jónsdóttur, f. 22.11. 1877, d. 1.4. 1944 og Guðmundar Björns Jónssonar, f. 13.5. 1889, d. 15.10. 1965. Kristján kvæntist Guðnýju Þóru Árnadóttur, f. 18.10. 1915, d. 13.12. 1997. Börn þeirra eru Sigríður Gunnhildur, f. 8.10. 1943 og Árni Hafþór, f. 5.9. 1950. Kristján kvæntist Gyðríði Sigvaldadóttur, f. 6.6. 1918, d. 11.7. 2007. Sonur hennar var Björn Ellertsson, f. 18.7. 1949, d. 26.1. 1994. Dóttir þeirra er Hólmfríður, f. 20.5. 1963. Fósturdóttir Þorbjörg Árný Oddsdóttir, f. 1.9. 1952. Kristján flutti ásamt foreldrum og systkinum til Reykjavíkur 11 ára gamall. Stundaði nám meðal annars við Héraðsskólann að Reykjum í Hrútafirði. Að loknu námi stundaði hann sjómennsku um árabil. Síðar gerðist hann vörubílstjóri á Þrótti nokkur ár en síðan var hann vagnstjóri hjá SVR í 18 ár og gegndi þar trúnaðarstörfum fyrir hönd vagnstjóra. Samhliða störfum hjá SVR ók hann leigubifreið hjá Steindóri og fleirum. Fékk úthlutað eigin leigubílaleyfi 1975 og vann við það út starfsæfina. Ásamt því að aka leigubíl stundaði hann ökukennslu allt fram á efri ár. Kristján tók þátt í stjórnmálum og var í framboði fyrir Frjálslynda og vinstrimenn á þeirra tíma, eftir það hætti hann virkri þátttöku í stjórnmálum. Kristján var virkur félagi í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur, var þar formaður og var síðar gerður að heiðursfélaga þess. Kristján verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag, 23 júní, kl. 15.
Kristján Guðmundsson var einn af elstu félögum Fjáreigendafélags
Reykjavíkur. Hann var einn af frumbyggjunum í Fjárborg og byggði þar fjár-
og hesthús um 1970. Kristján var alltaf einn af áhugasömustu félögum
Fjáreigendafélagsins og hafði óbilandi áhuga á sauðfjárhaldi í Reykjavík.
Hann fylgdist vel með í Fjárborg og passaði að allt færi vel fram. Kristján
gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, var í stjórn sem meðstjórnandi,
ritari og formaður.
Þegar ákveðið var árið 1989 að telja allan búpening landsmanna að tilskipun
yfirvalda var Kristján einn talningarmanna í Reykjavík. Í skýrslu til
Lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að nákvæmust hafi talningin verið í
Fjárborg enda lagði Kristján metnað sinn í verkið.
Félagar hans í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur ákváðu að heiðra hann og
samþykktu samhljóða á aðalfundi að gera Kristján að heiðursfélaga.
Félagar Fjáreigendafélags Reykjavíkur kveðja með söknuði mætan félaga og
vottum fjölskyldu hans innilega samúð okkar.
Blessuð sé minning Kristjáns Guðmundssonar.
F.h. Fjáreigendafélags Reykjavíkur
Árni Ingason formaður.
Það sem gerði samband okkar afa sérstakt í mínum huga var það að frá því ég var lítil stelpa spjallaði afi mikið við mig og alltaf á miklum jafningja grundvelli. Þegar ég var 5 ára og stoltur nemandi í Ísaksskóla hlustaði hann af miklum áhuga á það sem daga mín dreif í skólanum. Eins þegar gelgjan helltist yfir var hann alltaf til í að hlusta og ræða málin. Hann ræddi þetta allt við mig eins og áhyggjur mínar væri alls ekki síðri áhyggjur en þær sem skýrt var frá í kvöldfréttum sjónvarpsins.
Ungum er það allra best
að óttast guð, sinn herra.
Þeim mun viskan veitast mest
og virðing aldrei þverra.
Þessa vísu og restina af heilræðavísum Hallgríms Péturssonar kenndi amma
mér af miklum ákafa enda mikil kvæðakona. Og má segja að hún lýsi því sem
afi kenndi mér í samskiptum okkar. Enda einkenndust þau af mikilli og
gagnkvæmri virðingu.
Því kveð ég þig afi með miklu þakklæti fyrir það veganesti sem þú veittir mér inn í lífið.
Þín
Gyð.
Hér er miklu mannlífi og örlögum slegið saman í eitt með þeirri réttlætingu einni, hve samslungið lífshlaup þessa fólks reyndist verða, og kallar á skýringu til yfirlits. Hófst það með hjúskap Sigríðar Gunnhildar frá Skiphyl og Hallvarðar á hlutareign hans í Skutulsey 1898 og tilurð sjö barna þeirra þar til á fardögum 1912, er þau fluttu þaðan til framtíðarheimilis á Fáskrúðarbakka í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Jörðin var ríkisjörð og talin fremur miður setin, og voru talsverðar vonir bundnar við áhrif þessa dugnaðarfólks til framfara í sveitinni. Örlögin gripu þó skjótt í taumana, er í ljós kom, að Hallvarður var heltekinn krabbameini, sem uppskurður syðra fékk ekki bjargað, og andaðist hann í nóvember sama ár aðeins 41 árs, en Sigríður þá 35 ára. Þetta reiðarslag bugaði hana þó ekki, heldur hélt hún ótrauð áfram búskapnum, ráðin í að koma börnum sínum til manndóms og mennta. Svo ung sem þau voru, elsti sonurinn 13 ára, hlaut hún að ráða sér mannkraft. Kom þá til skjalanna Guðmundur Björn Jónsson, fæddur 1889 og þannig 12 árum yngri en hún, ötull verkmaður og skyldur henni í 5. og 6. lið og talinn af sómafólki, en hafði ekki orð á sér fyrir snyrtimennsku. Var hann skráður ráðsmaður hjá henni og hafði nokkurn eigin fjárstofn, en átti ekki aðra aðild að búinu. Svo sem vænta mátti varð slíkt nábýli að sambýli, og spruttu af því tvö síðustu börnin á heimilinu, Hulda fædd 10. ágúst 1916 og Kristján fæddur 12. október 1918. Með tilkomu þeirra var hafinn annar kapituli í fjölskyldusögunni, án þess þó að samhengið rofnaði við hina fyrri og stærri fjölskylduheild.
Það lætur að líkum, að slíkt samlíf í þrengslum gamals torfbæjar er ekki auðvelt stoltum og viðkvæmum barnahópi, sem átti sína hetju í horfnum föður, sem örðugt var við að jafnast, svo að vanmat og tortryggni átti sér greiða leið inn í samskiptin. Ekkjan og móðirin tregaði að sjálfsögðu sína æskuást og hlaut að hafa vissa samvisku af hinu nýja sambandi. Tæpast var ymprað á einlægu ástarsambandi né hjónabandi, sem systkinin munu hafa verið andsnúin alla tíð, enda aldursmunur og aðrar afstöður óhagstæðar slíkum ráðahag. Þó minntist Kristján undir lokin yfirvegana móður sinnar um, hvort hún skyldi gefa kost á hjónabandi, sem hafa mundi í för með sér sameign þeirra á búinu. Gæti flutningur Guðmundar með Sigríði og yngri börnunum til bæjarins og þar með slit hans á fyrri aðild að búskap jafnvel bent til ávænings um slíkan ráðahag. Mjög kært var með Kristjáni og móður hans, og tók hann ætíð málstað hennar gagnvart föður hans og taldi hann deilugjarnan við hana. Vera má, að þau hafi greint á um stöðu hans í búskapnum, og hann kvartað undan réttleysi sínu. Ljóst má telja, að þau hafi slitið samvistum fljótlega eftir flutning í bæinn, og muni það hafa valdið honum einangrun og einsemd til æviloka 1965. Ekki er mér þó ljóst, hvaða atlæti börn hans tvö hafi veitt honum, en hann var vinnuþjarkur sem fyrr, og féll þeim verulegur arfur í skaut við fráfall hans. Atbeini stórfjölskyldunnar sneri á hinn bóginn einkum að því að tryggja móður þeirra búsetu, svo sem gert var í svokölluðum bankahúsum á Framnesvegi 22b til æviloka, sem urðu 1. apríl 1944, og í sambýli við dæturnar Ásdísi, heilsuveila eftir heilabólgu á unga aldri, og Guðbjörgu, sem gegndi góðu verslunarstarfi. Héldu þær systur saman til láts Ásdísar 1965, og nýttust starfskraftar hennar til heimaþjónustu og barngæslu. Inn í þetta heimilisdæmi komu Hulda og Kristján um nærfellt áratug, þar til fullorðnuðust til sinna hjónabanda, hann 1941 og hún 1942. Þegar mig bar þar að garði nýkominn í bæinn haustið 1941, hitti ég fyrir vel búið heimili í föstum skorðum með Sigríði ömmu í heiðurssessi, fríða og feitlagna, eigandi um hálft þriðja ár ólifað, andaðist 1. apríl 1944 á 67. aldursári.
Hulda og Kristján höfðu ekki sem eldri systkinin af sjávarströnd og víðerni hafsins að segja, en hlutu í vöggugjöf hið mikla landmegin og fjallnánd Fáskrúðarbakka, þar sem dýrðarljómi Ljósufjalla yfirskyggir líf fólksins, og spruttu þar sem grænir laukar úr túni. Sótti Kristján æ síðan hugsvölun í átthagana og kærar minningar úr uppvextinum þar. Fátt af því er þó orðað í frásögn eða blaðfest. Þar varð hver og einn að bjargast sem best af eigin dugnaði og leggja sitt af mörkum til lífsbaráttunnar. Eitt minni stóð þó up úr, sem Kristján taldi þess vert að bera fram að skilnaði við Guðbjörgu systur sína. Þá hverfur hugurinn heim í torfbaðstofuna á Fáskrúðarbakka, þegar ég lítill drengur var að stíga mín fyrstu spor í þessu mannlífi. Þó Guðbjörg væri bara 6 árum eldri, var hún mér sem önnur móðir. Hún tók sér það fyrir hendur að kenna mér að lesa og var það ekki vandræðalaust, því hæfileikarnir voru ekki miklir og löngun til að læra enn minni, en þetta hafðist þó með óbilandi þolinmæði systur minnar, og er ég þakklátur fyrir það. Við þessa fögru, en máske óþarflega hógværu játningu, bætti hann svo þakkargjörð fyrir hönd systkinanna fyrir að annast móður þeirra og systur í elli og sjúkleika.
Þegar Kristján leit ljós þessa heims, hafði elsti bróðirinn Jón þegar verið í tvö ár í skóla syðra, Flensborg í Hafnarfirði, og síðan tóku bræðurnir hver við af öðrum að gera garðinn frægan: Einvarður, Jónatan og loks Sigurjón. Leit hann þessa myndarstráka koma heim úr skóla og sumar- eða vertíðarvinnu, æ kröftugri hverju sinni, og taka til hendi við torfristu, heyskap og önnur bústörf, og spreytti sig á fordæmi þeirra í sömu átökum. Þeim var að sönnu ljúft að taka hann sér við hönd, sem heitinn var eftir Kristjáni bróður þeirra og dálæti fjölskyldunnar, sem hafði fæðst 6. í röðinni í Skutulsey, en dáið úr barnaveiki á 6. ári 1915 á Fáskrúðarbakka, myndarpiltur og hvers manns hugljúfi. Sé þessi menntasókn bræðranna lögð við það orð, sem fór af óvenju miklum bókakosti heimilisins, væri nærtækt að spyrja, hvort þeir hafi orðið honum hvatning og fyrirmynd til mennta, en þó virðist lítt tjóa að leita svars við því, svo margt sem hafði tekið stakkaskiptum og valdið breyttum högum, svo sem kreppa í landi og umheimi og þrenging aðgangs að menntastofnunum, nema hinum alþýðlegustu, héraðs- og gagnfræðaskólum, sem beindust meir að lífsbjörg og félagsmálum. Víst er um, að honum var mikils virði að komast í Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði árin 1935-7 og var vel þroska búinn að takast á við námið að sögn skólabróður, og naut góðra kennslukrafta og þroskandi félagsskapa og hugðarefna. Svo merkilega höguðu atvikin því, að í Reykjaskóla kynntust þau Gyða Sigvaldadóttir án þess að gera sér þá grein fyrir, hve mikils virði þau gætu orðið hvort öðru, og urðu því að þreyja meira en tvo áratugi til að verða þeirri lífsreynslu ríkari.
Á mörkum náms og starfs lagði hann leið sína til okkar í Stykkishólm sumarið 1938 með móður sína, sem var honum ætíð mjög náin og hann vildi reynast sem best, þá tvítugur og vel mannaður og myndarlegur. Heimsókn þeirra var okkur mikil hátíð og eftirminnileg, m.a. af góðum myndum, enda höfðum við krakkarnir varla verið með honum að ráði fyrr. Sem ungur frændi var hann skilningsgóður á þarfir okkar bræðra og skenkti okkur blossapístólur og nóg af hvellhettum að hrella með grandalausa Hólmara. Um þetta leyti lék hann knattspyrnu með KR og efldist við það mjög sem hetja okkar að halda með ásamt hinum kempunum, eins og Schram með sparkhljóð í nafninu.
Kristján var vaskur maður og kjarkaður og vílaði ekki fyrir sér erfið og jafnvel áhættusöm störf. Segja má, að starfsval hans hafi þróast reglubundið frá grófum átakastörfum, á togurum um árabil og vörubílaakstri hjá Þrótti í nokkur ár, yfir í strætisvagnaakstur við SVR í 18 ár, ásamt leigubílaakstri hjá öðrum fyrst og á eigin bifreið frá 1975, og síðan í vaxandi mæli með ökukennslu. Samfara þessu ferli var stöðug leitun og þroskun samfélagslegrar ábyrgðar og stefnumótunar bæði á eigin vegum og stéttarsamtaka, sem hann átti aðild að. Hann starfaði alllengi sem aðaltrúnaðarmaður vagnstjóra í túlkun samninga um vinnuskilyrði o.fl., sem reyndu gjarnan á sanngjarna málamiðlun með gagnkvæman hag fyrir augum. Minnist ég væns hóps vagnstjóra, að miklum hluta einkennisklæddra, sem heimsóttu hann á tímamótum, og var vart unnt að hugsa sér eindrægnari hóp. Kennslunni sinnti hann af samfélagslegri ábyrgð, svo að sjáfgert var að biðja hann fyrir börnin okkar. Í stjórnmálalegu trausti Frjálslyndra og vinstri manna varð hann loks formaður Skipulagsnefndar fólksflutninga, sem fjallaði um veitingu sérleyfa o.þ.h. til að halda utan um starfsemina. Þessar stjórnmálahræringar hans voru þó ekki meiri en svo, að í mínum augum var hann áfram hinn gamli og góði krati, bundinn almennum hag alþýðufólks einum saman. Þó varð mér næstum hverft við þá fágætu dirfsku Kristjáns að láta útfararkórinn þruma Internationalinn, Fram þjáðir menn í þúsund löndum, en hreifst þó með.
Á einu síðari áranna, sem voru hestamannsár okkar beggja, fékk ég inni með klára mína hjá Kristjáni, þar sem heitir Fjárborg í Hólmsheiði og komst að raunum búmannsins fullkeyptum, en þá helltist yfir okkur mesti snjóavetur á þeim slóðum. Komst ég þá að grandvarleik hans í meðferð kvikfjár, þar sem hann keypti hesta af fyrrum svila mínum, sem hafði getið sér gott orð fyrir vandaða meðferð þeirra. Því var mér kært að lesa vitnisburð í minningarorðum Ólafs Dýrmundssonar um fjárhald Kristjáns á efri árum hans á þessum sömu slóðum og framsýna fjárræktarstefnu. Þótti mér hann í því reisa fagran bautastein, ekki aðeins sjálfum sér, heldur jafvel fremur foreldrum sínum og fjölskyldu og öðru vönduðu fjárræktarfólki í heimahögunum og leita þar með upphafs síns í fagurri ræktarsemi.
Skin og skuggar skiptust á í einkalífi Kristjáns. Fyrra hjónaband hans með Guðnýju Þóru Árnadóttur frá 1941 færði að höndum missi frumburðar, en síðan komu þau upp móðurnafni hans í Sigríði Gunnhildi og föðurnafni hennar í Árna Hafþóri. Börn Sigríðar urðu: Guðni Þór, Svava Ásdís, Jóhannes Viðar, Birkir, Reynir, Sigríður Helga og Belinda Ýr. Börn Árna Hafþórs urðu Arnar Rúnar og Anna María. Hjónabandi þeirra Guðnýjar lyktaði með skilnaði. Upp úr því varð hins vegar endurnýjuð nálgun með þeim Kristjáni og Gyðríði (Gyðu) Sigvaldadóttur frá Brekkulæk, Ytri Torfustaðahreppi, Vestur-Hún., sem fyrr er getið. Hafði hún lagt fyrir sig leikskólakennslu og getið sér gott orð sem forstöðukona leikskóla í Reykjavík og að verðleikum veitt fálkaorðan fyrir þá þjónustu. Þau giftust 5. nóvembert 1960 og eignuðust dótturina Hólmfríði 20. maí 1963, sem verið hefur starfsmaður Íslenska útvarpsfélagsins, en áður áttu þau fósturdótturina Þorbjörgu Oddsdóttur, f. 1. sept. 1951. Börn Hólmfríðar og eiginmanns Jóns Eiríkssonar, f. 7. mars 1959 eru: Kristján (1979), Gyða Dögg (1983) og Eiríkur (1987), og er hér ekki lengra rakið. Gyða og Kristján voru einstaklega samhent og sem einum huga um uppeldi og heimilishagi, enda var hjónabandið samfelldur uppgangstími með batnandi hag. Þau lögðu sig í vaxandi mæli eftir að stofna til menningarlegra samfunda innan fjölskyldu sem utan og bæta sem flestum upp sambandsskort fyrri tíma. Ævinlega var drjúgt innlegg af listafólki með mikilli áherslu á söng og tónlist, og kom fyrir, að tveir til þrír toppspilarar á harmóniku léku samtímis. Eiga þau inni mikið þakklæti fyrir þann unað, sem gestir þeirra upplifðu. Utan við það og sér á parti var ræktarsemin við Jón föður minn, fyrrgreindan elsta bróður, sem án þeirra hefði farið á mis við veruleg og verðmæt mannleg samskipti. Þeim og ekki síst Gyðu var það fyllilega einlægt að kunna að meta frásagnar- og viðræðusnilld hans, sem raunar var viðbrugðið, og djúpa þekkingu á fólki og þess mannlega eðli. Fyrir allt þetta erum við þakklát af hjarta, og þó hvert með sínum hætti eftir því, hversu samskiptum var háttað.
Blessuð sé minning Kristjáns og þeirra Gyðu beggja, og megi blessun fylgja niðjum þeirra um ókomna tíma.
Bjarni Bragi Jónsson.