Kurt Sigurður Nielsen f. 14. 04. 1946 d. 07.10. 2009 Kurt Sigurður Nielsen fæddist á Amager í Danmörku þ. 14. april 1946. Hann lést á sjúkrahúsinu í Silkiborg þ. 7. október sl. af völdum krabbameins. Foreldrar hans voru Hougaard Nielsen sjómaður og Sigríður Sigurðardóttir verslunarkona. Systur Kurt Sigurðar eru: Brynja Breiðfjörð Herbertsdóttir og Þórunn Huld Nielsen. Hinn 15. apríl 1967 giftist Kurt Sigurður Fríðu G. Hafberg. Börn Kurt Sigurðar og Fríðu G. Hafberg eru: 1) Guðmundur Þór Sigurðsson. Eiginkona, Freyja Lárusdóttir. Börn, Andrea Jónsdóttir, Ívar Örn Guðmundsson og Alexandra Guðmundsdóttir. 2) Nína Rún Nielsen. Eiginmaður, Gunnar Rúnarsson. Barn, Axel Þór Gunnarsson. Útför Kurt Sigðurðar fer fram í kyrrþey fimmtudaginn 15. október í Horsens og verður hann jarðsettur í eystri kirkjugarðinum í Horsens.
Kæri pabbi, takk fyrir stundirnar sem við vörðum saman.
Það gleður mig að þú sást mig mennta mig, varst með mér þegar ég gifti mig og náðir að kynnast honum Axel Þór.
Þegar ég hugsa til þín þá man ég eftir stoltum manni sem elskaði fjölskylduna sína. Ég man eftir manni sem var ekki mikið fyrir að bera tilfinningarnar sínar framan á sér. Ég man eftir þér brosandi, því það var aldrei langt í brosið þitt og þú áttir ekki erfitt með að sjá það fyndna í hlutum eða að hlæja að sjálfum þér.
Takk fyrir að leyfa mér að njóta þín, takk fyrir að hafa verið faðir minn, takk fyrir að hafa verið þú.
Ég mun sakna þín ávallt.
Ég elska þig, sofðu rótt.
Þín dóttir,
Þ
Nína Rún Nielsen
Það er sárt að hugsa til þess að eiga aldrei eftir að hitta þig aftur og hlæja saman Við höfum frá fyrstu kynnum átt gott með að tala saman og höfum alltaf virt skoðanir hvors annars. Það var alltaf stutt í brosið hjá þér og gaman af því hvað þú sást oft spaugilegu hliðarnar á hinum ýmsu málum.
Veikindi þín breyttu öllu á stuttum tíma. Það var ljóst frá fyrsta degi hvað það átti illa við þig að vera ekki heill heilsu og þess vegna smá sárabót að hugsa til þess nú þegar þú ert farinn.
Elsku Siggi, takk fyrir góðar stundir í gegnum árin og ekki síst undanfarna mánuði hér í Danmörku.
Farðu í friði góði vinur
þér fylgja hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.
( Magnús Eiríksson.)
Þín tengdadóttir,
Freyja Lárusdóttir
Það særði mitt hjarta að sjá þig fara
Fara frá mér og koma ekki aftur
En þú ert ei farin ég veit það bara
Því þú gefur mér ljós og ert minn kraftur
/
Ég leita til þín á einmanna stundu
Og hugsa hvað þú hefðir gert
Fletti í visku þar sem þú sagðir mundu
Ég elska þig mikið, þú veist hver þú ert
/
Þessari visku ég koma þarf frá mér
Og færa það áfram til barnanna minna
Svo þau hafi þinn kærleik ávalt hjá sér
Og læri að lifa og kærleiknum sinna
/
Já læra að lifa og kærleiknum sinni
Og braut þína og spor þau sannlega fylgi
Ég veit það er málið og á mig það minni
Að þú ert minn styrkur ég ávalt þig syrgi
/
Með sorg fylgir reynsla og sorg fylgja kvaðir
Mér finnst það svo margt sem ég þarf þér að segja
Þegar tár mín þau renna hvar ert þú minn faðir
Ég horfi til himins en stjörnurnar þegja
/
Frá himni ég horfi og fylgi þér allt
Og finn þína sorg og ást þína á mig
Ég umfaðma þig þegar þér verður kalt
En eitt skalt þú vita ég fullkomna þig.
(Guðmundur Þór Sigurðsson.)
Mun ávallt sakna þín, ég elska þig pabbi minn.
Guðmundur Þór Sigurðsson
Guðmundur Þór Sigurðsson