Erna María fæddist í Reykjavík 1. ágúst 1947. Hún lést á Líknardeild Landspítalans þann 18. ágúst 2009. Foreldrar hennar voru Ludvig Leopold Hjálmtýsson, f. 1914, d. 1990, og Kristjana Pétursdóttir, f. 1918, d.1992. Bróðir Ernu er Pétur Ludvigsson, f. 1945, maki Nína Kristín Birgisdóttir, f. 1949. Sonur Ernu og Karls J. Steingrímssonar, f. 1947, er Pétur Albert, f. 1963. Erna María giftist 1966 Haraldi Schiöth Haraldssyni, f. 1940, sem ættleiddi Pétur. Eiginkona Péturs er Berglind Johansen, f. 1966, dætur þeirra eru Kristjana, f.1992, Karólína, f. 1995, og Erna Katrín, f. 2001. Börn Ernu og Haralds eru 1) Unnur María, f. 1968, sambýlismaður Helgi Bjarnason, f. 1962, sonur þeirra er óskírður, f. 2009, sonur Helga af fyrra sambandi er Árni Freyr, f. 1995. 2) Haraldur Ludvig, f. 1978, dóttir hans og Ingibjargar Jónu Jakobsdóttur, f. 1980, er Viktoría María, f. 2006. Útför Ernu Maríu fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 4. september, kl 13.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi

Hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi

Og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Kær vinkona er fallin frá eftir erfið veikindi.  Ég kynntist Ernu fyrir mörgum árum og yndislegri konu hef ég varla kynnst. Hlýtt viðmót, geislandi gleði og hlátur sem var svo smitandi að allir urðu glaðir sem voru í nánd við hana. Ég á erfitt með að lýsa þakklæti mínu til hennar og Harry fyrir allan þann stuðning sem þau veittu mér þegar ég þurfti á því að halda. Þegar sonur minn Orri veiktist nítján ára gamall, af krabbameini,  veitti hún okkur alla þá hjálp sem hún mögulega gat.  Ég dvaldi á fallegu heimili þeirra þegar Orri þurfti að vera á sjúkrahúsi í Reykjavík,  og þau hjón veittu mér mikinn stuðning þegar hann lést ári síðar.  Ég vil þakka Ernu, þessari yndislegu konu, fyrir allar gleðistundir sem við áttum saman og allan þann styrk sem hún veitti mér á erfiðum stundum. Guð geymi þig elsku Erna.   Kæri vinur Harry og fjölskyldan öll, ég bið Guð að gefa ykkur styrk og ljós til að horfa fram á veginn.

Súsanna Möller