Guðbjörg Hjartardóttir fæddist í Fáskrúðsfirði 29. mars 1937. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 18. júlí 2009. Foreldrar Guðbjargar voru Hjörtur Guðmundsson og Guðrún Bjarnadóttir frá Lækjamóti í Fáskrúðsfirði. Guðbjörg átti 6 systur auk fóstursystkyna. Eiginmaður Guðbjargar var Sigurjón Jónsson. Þau eignuðust fjögur börn: Jón Gunnar giftur Huldu Gísladóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn, Gíslína Ingibjörg gift Karli Jóhanni Karlssyni og eiga þau þrjá syni, Páll Lárus giftur Berglindi Einarsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn, Hjörvar Moritz giftur Sigrúnu Júlíu Geirsdóttur og eiga þau tvö börn. Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu fimmtudaginn 23. júlí 2009.
Það var alltaf rosalega gaman að fara í fýlu hjá þér, því þér fannst svo leiðinlegt ef við frændsystkinin vorum eitthvað ósátt og var manni alltaf mútað" til að hætta í fýlu og beið maður alltaf eftir besta tilboðinu sem var þá ís og nammi.
Þegar ég fór að búa sýndir þú því mikinn áhuga. Þú spurðir mig oft hvort að ég myndi ekki elda heitan mat handa manninum mínum í hádeginu og í kvöldin. Þegar ég sagði svo að ég væri nú ekkert alltof dugleg við það þá gafstu mér bókina Maturinn hennar ömmu" svo ég gæti nú farið að reyna við mig í eldhúsinu, þú varst nefnilega svo dugleg í eldhúsinu og voru alltaf þvílíkar kræsingar hjá þér, það er sko hægt að segja að fólk fór ekki svangt út úr þínu húsi.
Ég man svo vel þegar ég sagði þér frá því að ég væri ólétt af mínu fyrsta barni. Þú grínaðist þá við mig og spurðir hvort að ég ætlaði að gera þig gamla þar sem þú yrðir þá langamma því að ég gekk með fyrsta barnabarnabarnið.
Það er svo skrítið að hugsa til þess að þú sért ekki enn þá hjá okkur, enda varstu ekki nema 72 ára, en ég vil trúa að þér líði betur núna og þjáist ekki lengur. Ég vil líka trúa að afi hafi tekið vel á móti þér og að þið sitjið núna saman og vakið yfir okkur. Mér líður vel að vita af svona yndislegum englum sem ég á himnum sem vaka yfir mér og fjölskyldunni minni. Elsku amma mína ég sakna þín rosa mikið og vil bara segja að þú munt alltaf eiga stórann sess í mínu hjarta ásamt elsku afa mínum.
Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)
Ástar og saknaðarkveðjur
Eva Dögg Pálsdóttir
Eva Dögg Pálsdóttir