Kristín Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1930. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 13. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kristín Pálsdóttir f . 29. júní 1908, d. 17. júlí 1984 og Þórður Þorsteinsson, skipstjóri, f. 26. október 1903, d. 18. febrúar 1943. Bróðir Kristínar er Valur Páll Þórðarson, f. 6. febrúar 1940. Seinni maður Kristínar Pálsdóttur var Jón Bjarnason, f. 4. maí 1909. d. 14. apríl 1975. Systir Kristínar sammæðra er Þórhildur Jónsdóttir, f. 12. desember 1950. Fósturbróðir Kristínar er Jens Jónsson, f. 2. janúar 1935. Hinn 3. febrúar 1951 giftist Kristín Magnúsi Axelssyni, f. 11. nóvember 1927, d. 19. desember 1988. Foreldrar hans voru Sesselja Margrét Magnúsdóttir, f. 19. janúar 1905, d. 4. mars 1999, og Axel Pálsson, f. 22. mars 1907, d. 9. febrúar 1979. Börn Kristínar og Magnúsar eru 1) Þórður Kristinn Magnússon, f. 21. desember 1951. Kona hans var Guðný Húnbogadóttir, þau skildu. Börn þeirra eru: Kristín Andrea, Gunnhildur, Brynhildur, Hörður og Kjartan. Sambýliskona Þórðar er Rósa Sigurðardóttir. 2) Sesselja Margrét Magnúsdóttir, f. 28. janúar 1956, d. 28. ágúst 2005. Maður hennar var Ólafur Jón Briem. Börn þeirra eru Eiríkur Atli, Anna Margrét, Benta Magnea og Þóra Kristín. 3) Auður Guðlaug Magnúsdóttir, f. 31. október 1959. Maður hennar var Sigurður Hróarsson, þau skildu. Dóttir þeirra er Halla. Sambýlismaður Auðar er Mats Granér. Sonur þeirra er Magnús Axel. 4) Magnús Axel Magnússon, f. 16. júlí, 1967, d. 19. janúar 1992. 5) Anna Kristín, f. 27. júlí 1969, d. 27. júlí 1969. Langömmubörn Kristínar eru fimm talsins. Kristín ólst upp á Patreksfirði til 13 ára aldurs, er fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Eftir gagnfræðapróf vann Kristín við ýmis verslunar- og skrifstofustörf, m.a. hjá Verslun Ragnars H. Blöndal og hjá Kristjáni G. Gíslasyni. Kristín og Magnús hófu búskap sinn í Reykjavík. Árið 1957 fluttu þau búferlum til Keflavíkur. Bjuggu þau lengst af á Skólavegi 38, en síðustu ár sín bjó Kristín á Nónvörðu 10A. Kristín var heimavinnandi húsmóðir til ársins 1982 er hún hóf störf hjá Heilsugæslu Suðurnesja. Hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1999. Útför Kristínar Þórðardóttur verður gerð frá Ytri Njarvíkurkirkju miðvikudaginn 22. júlí, kl. 13.00.

Hinsta kveðja.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð.

Lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.


Rósa Jónsdóttir Nónvörðu 12 Reykjanesbæ.

Þökk fyrir okkar stundir

Þökk fyrir brosið þitt

Þú hefur sól og hlýju

sent inn í hjarta mitt

(Höf. ók.)

Með innilegum söknuði og samúð til fjölskyldu þinnar

Gréta