Arnar Einarsson fæddist 14. júní 1945 í Baldurshaga í Vestmannaeyjum. Hann lést í Vestmannaeyjum hinn 21. júlí sl. Móðir hans var Ásta Steingrímsdóttir fædd í Kirkjulandi í Vestmanneyjum 31.1. 1920 en alin upp að Hlíð undir Austur-Eyjafjöllum, d. 21.4. 2000. Faðir hans var Einar Jónsson, fæddur að Ásólfsskála undir Vestur-Eyjafjöllum, f. 26.10. 1914, d. 25.2. 1990. Foreldrar Arnars bjuggu í Vestmannaeyjum til ársins 1973, en þá fluttu þau til Akureyrar og bjuggu þar til 1986, er þau fluttu til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu til æviloka. Bróðir Arnars er; Hermann, f. 26.1. 1942, kvæntur Guðbjörgu Ósk Jónsdóttur, f. 26.12. 1952. Þau eiga tvær dætur, Sigurborgu Pálínu og Steinunni Ástu. Hinn 12.8. 1972 kvæntist Arnar eftirlifandi eiginkonu sinni Margréti Jóhannsdóttur, f. 6.3. 1953. Hún er dóttir hjónanna Halldóru Ingimarsdóttur, f. 19.6. 1920, og Jóhanns Gunnars Benediktssonar, f. 9.1. 1916. Arnar og Margrét eiga þrjú börn. 1) Jóhann Gunnar, f. 26.4. 1973. Maki Kristín Ólafsdóttir, f. 3.5. 1972. Þau eiga þrjár dætur, Kristrúnu Dröfn, Katrínu Ósk og Margréti Hörn. 2) Erna Margrét, f. 3. júní 1975. Maki Ólafur Gylfason, f. 19. des. 1969. Þau eiga fjórar dætur, Svanhildi Ýri, Örnu Maríu, Ástu Sonju og Elfu Margréti. 3) Elísa Kristín, f. 16. okt. 1984. Maki Arnviður Ævarr Björnsson, f. 4.12. 1981. Að loknu landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1961 fór Arnar í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan 1966. Kennari við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1966-1968, auk þess að stunda sjómennsku yfir sumarmánuði. Árið 1969 hóf hann nám við Háskóla Íslands og lauk þaðan prófi í forspjallsvísindum. Hann gerðist kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1971 og kenndi þar til ársins 1987, að hann gerðist skólastjóri við Húnavallaskóla í A-Húnavatnssýslu til ársins 2002. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1982, auk þess sem hann stundaði nám við kennaraháskóla Danmerkur 1978-1979. Haustið 2001 settist hann í Háskólann á Akureyri þar sem hann stundaði diplómanám í sérkennslufræðum. Þá hóf hann kennslu við Glerárskóla á Akureyri, þar til hann gerðist skólastjóri við Grunnskólann á Þórshöfn haustið 2003 og gegndi því starfi til ársins 2008. Arnar var félagsmálamaður og sat í stjórnum hinna ýmsu félaga, m.a. Íþróttafélagsins Þórs í Vestmannaeyjum, og ÍBV. Hann starfaði með leikfélagi Vestmannaeyja og lúðrasveitinni þar. Á Akureyri var hann virkur í leiklistarlífi MA og LA sat í stjórn Þórs og ÍBA. Þá var hann framkvæmdastjóri KSÍ árið 1982. Hann var virkur félagi í Lionshreyfingunni, bæði á Akureyri og Blönduósi, ásamt því að vera félagi í Oddfellowreglunni frá árinu 1973. Að lokinni starfsævinni fluttu þau hjón til Vestmannaeyja sumarið 2008 og settust þar að þar sem hann m.a. vann að útgáfu ljóðabókar en eftir hann liggja fjölmörg ljóð og tækifærisvísur og kom hans eina ljóðabók út skömmu fyrir andlát hans. Útför Arnars verður gerð frá Landakirkju í Vestmanneyjum í dag, 27. júlí, og hefst athöfnin klukkan 15.30.

Arnar Einarsson skólastjóri, er látinn langt um aldur fram.

Við Arnar hittumst fyrst er við vorum  við háskólanám í Kaupmannahöfn fyrir rúmlega 30 árum.
Þegar við hjónin fluttum til Kaupmannahafnar og settumst að í Kagsaa kollegíinu í Gladsaxe var okkur sagt að þarna væru aðrir Íslendingar í næsta húsi, Arnar og Margrét  með tvö börn.

Við kynntumst fljótlega.  Þau kynni  þróuðust upp í mikla vináttu sem hefur haldið æ síðan.  Fjölskyldur okkar hafa haft mikinn samgang.  Arnar var einn af mínum nánustu vinum.

Ég gerði mér  strax grein fyrir mannkostum Arnars. Hann var afar vel lesinn og húmoristi eins  og þeir gerast bestir. Hann sá ætíð spaugilega hlið á hverju máli.

Arnar var mikill áhugamaður um íþróttir og fylgdist grannt með þeim alla tíð. Hann var félagslyndur og átti auðvelt að umgangast fólk.

Hann átti létt með að kasta fram vísu við ýmis tækifæri. Eru margar þeirra eftirminnilegar ekki síst frá fyrri árum.  Þá var hann listakokkur og hafði mikla ánægju af að töfra fram ótrúlegustu rétti.

Arnar var um langt skeið skólastjóri við Húnavallaskóla og síðar við Grunnskólann á Þórshöfn.

Hann var fyrst og fremst skólamaður og vildi veg nemenda sinna sem mestan.

Þegar Arnar hætti skólastjórn flutti hann aftur til æskustöðva sinna í Vestmannaeyjum. Hann var Eyjapeyi alla tíð!

Arnar tókst á við erfiðan sjúkdóm af æðruleysi. Hann vissi hvert stefndi en kunni að takast á við núið hverja stund.

Í bókinni "Kyrrðin talar" eftir Eckhart Tolle segir: "Gerðu Núið að vini, ekki óvini. Viðurkenndu það og virtu. Þegar það er undirstaða og miðdepill lífs þíns vindur lífi þínu fram af áreynsluleysi og átakalaust."

Þessi orð eiga vel við vin minn, Arnar Einarsson.

Ég sendi eiginkonu hans og nánustu ættingjum einlægar samúðarkveðjur.

Gylfi Guðmundsson.

Sólblik Eyjanna bjó í brjósti hans og hann bar það með sóma og sann, var spegilmynd túlkunar Eyjanna í allri sinni fegurð, skáld, sögumaður, náttúruunnandi, fræðimaður, en fyrst og fremst frábær drengur og hugsjónamaður. Arnar Einarsson þynnti aldrei skoðanir sínar, flugbeittur og fínlegur í senn, stóð fyrir sínu í gegn um þykkt og þunnt og í honum bjó einlæg og áberandi sterk tryggð. Vinarþel var aðalsmerki Arnars.

Eftir langan róður fjarri heimabyggð, skólastjórn og kennslu á fastalandinu, var Arnar aftur koninn heim til Eyja og hugsaði gott til glóðarinnar. Það gerðum við Eyjamenn einnig og höfðum margar væntingar til hans til þess að leggja hönd á plóginn, færa í letur það sem hann bjó yfir, fá notið lífsgleði hans og snilldar í lífsins melódí.

Alla tíð bjó Arnar yfir mikilli ræktarsemi við  það sem hann mat þess  virði að berjast fyrir og fylgja eftir, vinamargur og sérstæður persónuleiki. Þar sem Arnar fór um hljómaði hljóðfæri lífshörpunnar og hlutirnir gerðust. Hans verður sárt saknað sigldur langt fyrir aldur fram.Allt í einu reis gafl úr hafi þessa góða drengs, gafl sem engu eirði og gekk yfir lífsandann.

Í minningunum um Arnar Einasson eiga marga leiki á taflborðinu og það er tilhlökkunarefni þótt augliti til auglitis hefði verið óskastaðan.

Megi góður Guð vernda vini og vandamenn Arnars, styrkja þá og gefa gleði til lífsins framundan. Þegar Arnar gengur himnaranninn mun góður drengur og ástsæll og glaðbeittur leggja á ráðin og það mun birta af sólbliki Eyjanna.

Árni Johnsen.

Ég kann ekkert á peninga, en ég skal gera allt annað    nema að ganga í hús. Það var snemma árs 1980 að góður hópur fólks sem hafði fallist á að mynda nýja stjórn Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri, kom saman. Arnar Einarsson sem einn fárra í hópnum hafði umtalsverða reynslu úr félagsmálum, var þar á meðal og var fljótur að kveða upp úr um æskilegar starfsskyldur sínar. Á þær var fallist og var hann kosinn varaformaður félagsins og því embætti gengdi hann næstu fimm árin með miklum sóma.

Það kann einhver að halda að þessi orð Arnars lýsi yfirgangi, en það var öðru nær. Hann vildi vera laus við sníkjur og betl sem oft fylgir fjáröflun íþróttafélaga, en taldi sig reynast félaginu betur á öðrum vettvangi. Hann vildi hlúa að grasrót félagsins og undirbjó því böll og aðrar samkomur þar sem stuðningsmenn félagsins skemmtu sér saman. Og til að halda kostnaði niðri, samdi hann oft skemmtiefni í bundnu máli enda vel hagmæltur og eldaði allan mat því listakokkur var hann. Hann hafði frumkvæði að því að útbúa borðfána, veifur, barmmerki, límmiða á bílrúður og fleira þess háttar    allt með merki Þórs. Síðast en ekki síst þá hafði hann veg og vanda að útgáfu á 65 ára afmælisriti Þórs, þar sem samdi nær allt efni sjálfur og tók öll viðtöl sem í því birtust. Við lifðum uppgangstíma í Íþróttafélaginu Þór þau ár sem Arnar sat í stjórn þess.

Það var dýrmæt reynsla að starfa við hlið Arnars í stjórn. Hann var frjór og hugmyndaríkur í verkum sínum, ráðagóður og vinnusamur og hann gleymdi því aldrei að félagið var til fyrir félagsmenn sína en ekki öfugt.

Mikilvægust er þó sú vinátta sem þar var til stofnað og hefur haldist heil allar götur síðan þótt fjarlægðir hafi stundum verið í milli. Þessi vinátta hefur svo styrkst í gegnum sameiginlegan félagsskap okkar, Oddfellowregluna.

Við færum fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Oddsson, Haukur Jónsson.