Stefán Egilsson fæddist 4. mars 1918. Hann lést 17. september síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Garðvangi. Foreldrar hans voru, Egill Jónsson, sjómaður, f. 20.9.1889 í Hafnarfirði, fórst með enska togaranum Robertson á Halamiðum 8.2.1925 og kona hans Þjóðbjörg Þórðardóttir, f. 18.11.1891 á Stóru Borg í Grímsnesi, d. 27.1.1984. Þau áttu saman auk Stefáns, Helgu, sem var elst, f. 1916, d. 2006, Aðalstein f. 1919, d. 1994, Jón f. 1921, d. 2008, Guðnýju f. 1922, d. 2007 og Egil f. 1925. Síðari maður Þjóðbjargar var Jón Jónsson f.1900, d. 1973 þau áttu saman synina Guðjón f. 1930, d. 1994 og Jóhann Gunnar f. 1933, d. 1982. Stefán flutti til Keflavíkur 1956 og hóf sambúð með Ágústu Kristínu Ágústsdóttir, kaupmanni og húsmóðir f. 14.9.1908, d. 20.1.2004 og giftust þau 11. desember 1960. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Ólafsdóttir húsmóðir, og Ágúst Sigurður Sveinbjörnsson, sjómaður. Barn þeirra Stefáns og Ágústu er Ástdís Björg Stefánsdóttir, bankastarfsmaður f. 1954, gift Sveinbirni Sigurði Reynissyni, pípulagningameistara f. 1956. Ágústa átti með fyrri manni sínum Sverri Júlíussyni, útgerðar- og alþingismanni f. 1912, d. 1990, 3 börn, Kristinn Ágúst, kaupmaður f. 1932, d. 1957, Sigurður Júlíus, nemi, f. 1934, d. 1953 og Ölmu Valdísi, lögfræðingur f. 1943. Þá dvaldi sonarsonur Ágústu, Sigurður Júlíus Kristinsson mikið á heimili þeirra fyrstu 7 ár ævi sinnar. Stefán vann hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í 23 ár. Á sínum yngri árum stundaði Stefán íþróttir með Haukum í Hafnarfirði í handbolta og fótbolta og varð íslandsmeistari með liðinu í handbolta 1943. Hann var gerður að heiðursfélaga Hauka. Stefán og Ágústu hófu sambúð 1957. Þau giftust 11. desember 1960. Saman ráku þau Ágústa og Stefán matvöruverslunina Breiðablik í Keflavík og bjuggu lengst af að Hafnargötu 80 þar í bæ, síðar að Kirkjuvegi 11, Keflavík þar til hann flutti á hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík árið 2007 og þaðan ári síðar á hjúkrunarheimilið Garðvangi í Garði. Útför Stefáns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag 25. september og hefst athöfnin kl. 14:00

Ein af fyrstu minningum mínum af föður mínum er að á hverjum morgni fylgdist ég með honum signa sig áður en hann fór í nærbolinn og hef ég einnig tekið upp þennan góða og fallega sið.   Ég man þegar hann var að kenna mér fyrstu danssporinn á eldhúsgólfinu heima á Hafnargötunni, glaðvær og brosmildur. Hann var alltaf til í að gantast, fara í leiki og taka í spil. Við gengum á Helgafell, en í miðjum hlíðum var ég orðinn svo þreytt að hann tók mig á bakið og bar mig upp á topp.  Svona var pabbi, það var ekki ósjaldan sem hann bar mig þegar mig þraut  þrek vegna veikinda minna. Mikið á ég eftir að sakna hans.

Við  viljum sérstaklega þakka Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Dvalarheimili aldraða á Suðurnesjum og því frábæra starfsfólki sem þar vinnur og annaðist Stefán síðustu árinn, fyrir góða ummönnun.  Við vitum, að Stefán hefði viljað taka utan um þær og segja Takk fyrir mig".

Nú við fráfall tengdaföður míns upplifi ég bæði söknuð og þakklæti. Söknuð vegna ástvinamissis og að njóta ekki samvistar við mann sem  var okkar stoð og stytta. Jafnframt þakklæti fyrir að fá að tilheyra fjölskyldu Stefáns og fyrir það hvað hann og Ágústa tóku vel á móti mér og treystuð mér fyrir augasteininum þeirra.

Þau eru mörg  minningarbrotin sem ég mun varðveita um þig Stefán, eins og  það að í hvert skipti sem við fórum erlendis þá keyrðir þú okkur alltaf út á flugvöll, sama hvað klukkan var og í hvernig færð sem var, og þegar við komum til baka tóku þið Ágústa á móti okkur á skodanum, svo fín og hress. En eftir að þú hættir að keyra, þá var eins og það vantaði eitthvað í ferðalögin og heimkoman var hálf tómleg. Ógleymanlegar eru  líka þær stundir, þegar þú stoltur bauðst okkur Ásdísi  með á árshátíðir fjáreigendafélags Hafnafjarðar. Þar voruð þið Ágústa glæsilegasta parið á gólfinu, þú með þinn glettnisglampa í augunum og Ágústa geislandi af lífshamingju.  Þar svifu þið um dansgólfið  með meiri færni og meira úthaldi en flestir aðrir.  Nú getum við horft til himins og séð ykkur dansa saman aftur.

Alheimurinn er þinn en minningarnar okkar.

Ásdís B Stefánsdóttir, Sveinbjörn S Reynisson.