Margrét Herdís Thoroddsen fæddist á Fríkirkjuvegi 3, 19. júní 1917. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 23. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María Kristín Claessen, f. 25.4. 1880, d. 24.6. 1964 og Sigurður Thoroddsen, f. 16.7. 1863, d. 29.9. 1955. Systkini Margrétar voru Sigríður, f. 1903, d. 1996, Kristín Anna, f. 1904, d. 1988, Jean Valgarð, f. 1906, d. 1978, Þórður Jónas, f. 1908, d. 1982 og Gunnar, f. 1910, d. 1983. Margrét giftist 7. apríl 1945 Einari Egilssyni innkaupastjóra hjá RARIK, f. í Hafnarfirði 18.3. 1910, d. 28.3. 1999. Foreldrar hans voru Egill Guðmundsson, f. 1881, d. 1962 og Þórunn Einarsdóttir, f. 1983, d. 1947. Börn þeirra: 1) María Louisa, f. 29.10. 1945, gift Hannesi Sveinbjörnssyni, f. 1946. Börn þeirra: a) Sveinbjörn, f. 1967, maki Lisa Scordato. Sonur Sveinbjörns og Bjarkar Bjarkadóttir er Hannes Þór. b) Einar, f. 1974, kvæntur Magndísi Andrésdóttur. Börn þeirra Andrea, Bjarki Freyr og Hlynur Þór. c) Ásgerður Þórunn, f. 1980, maki Heiðar Örn Stefánsson, sonur þeirra Einar Arngeir. d) Sigurður, f. 1984, maki Hildur Guðmundsdóttir, sonur þeirra Guðmundur Hrafn. 2) Egill Þórir, f. 25.2. 1948, kvæntur Hlaðgerði Bjartmarsdóttur, f. 1951. Börn þeirra Einar Bjartur, f. 1988 og Guðrún Agla, f. 1991. Dóttir Egils og Hólmfríðar Gunnlaugsdóttur, f. 1959, er Salvör, f. 1985. Dóttir Hlaðgerðar er Hafrún Eva Arnardóttir, f. 1973. 3) Þórunn Sigríður, f. 24.2. 1950, gift Halldóri Árnasyni, f. 1950. Börn þeirra: a) Árni Björgvin, f. 1972, kvæntur Kristínu Bjarnadóttur, börn þeirra Bryndís Inga, Bjarni Björgvin, Snorri Steinn og Snædís Tinna. Dóttir Árna og Sonju Pétursdóttur er Karín Hera. b) Margrét Herdís, f. 1974, maki Sverrir E. Eiríksson, börn þeirra Perla Sól, Halldór Máni og Valgerður Lilja. c) Einar Egill, f. 1979, maki Sjöfn Yngvadóttir, dætur þeirra Eva Sóllilja og Herdís Eik. d) Steinn, f. 1989. e) Kristín Halldóra, f. 1991. 4) Sigurður Thoroddsen, f. 10.8. 1953, kvæntur Auði Vilhjálmsdóttur, f. 1954, d. 2002. Dóttir þeirra er Margrét Dögg, f. 1976. Sonur Margrétar og Gríms Thorarensen er Darri Már. Sigurður er í sambúð með Jórunni Erlu Sigurjónsdóttur, f. 1951. Börn Jórunnar Erlu eru Svanlaug og Helgi Kjartansbörn. 5) Margrét Herdís, f. 11.6. 1961, giftist Bjarna Má Bjarnasyni, f. 1955. Þau skildu. Börn þeirra Sandra, f. 1987, Símon Rafn, f. 1991 og Sunneva, f. 1992. Fyrrverandi sambýlismaður Margrétar er Stefán Steinarsson, f. 1954. Dætur þeirra Margrét Vigdís, f. 1997 og Rebekka Sól, f. 1999. Margrét varð stúdent frá MR 1937. Hún starfaði í Reykjavíkurapóteki og á Bæjarskrifstofum Reykjavíkurborgar og síðan í New York frá 1941 til 1944 við skrifstofustörf. Margrét starfaði sem heimavinnandi húsmóðir í 23 ár og síðan sem fulltrúi hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Hún fór 57 ára í viðskiptafræðinám í Háskóla Íslands. Eftir að námi lauk starfaði hún hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem deildarstjóri upplýsingadeildar til ársins 1988. Hún stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands veturinn 1992-93. Margrét var um tíma í stjórn Félags eldri borgara og auk þess varaformaður Landssambandsins. Heimili Margrétar og Einars var fyrstu árin á Fríkirkjuvegi 3. Árið 1950 fluttu þau til Mexíkó og bjuggu þar til 1954. Einar gegndi þar starfi forstjóra Canada Dry verksmiðju. Eftir heimkomu bjuggu þau lengst af á Hjarðarhaga 17, í sama húsi bjó einnig María móðir Margrétar. Frá árinu 1982 bjuggu þau í Sólheimum 25. Margrét verður jarðsungin frá Langholtskirkju í dag, 4. maí, og hefst athöfnin kl. 15.
Þar til nýlega var ég viss um að amma næði að minnsta kosti hundrað ára aldri, því að hún bar ekki aldurinn með sér og var alltaf svo hraust. Ein undantekning var á því, þegar að hún veiktist alvarlega fyrir átta árum síðan og var ekki hugað líf. Hún reis upp og náði fyrra þreki með lífsviljann að vopni á mjög svo skömmum tíma. Starfsfólkið sem hafði annast hana á gjörgæsludeildinni ætlaði vart að trúa sínum eigin augum þegar hún heimsótti deildina ekki löngu eftir upprisuna. Þessi baráttuandi finnst mér mjög lýsandi fyrir ömmu. Ég er þakklát fyrir þessi átta ár. Ég er þakklát fyrir að börnin mín þrjú hafi fengið að kynnast langömmu sinni. Amma átti góða og viðburðaríka ævi. Samband ömmu og afa var til að mynda einstakt. Það geta margir vitnað til um. Það var líkt og þeim hafi verið ætlað að hittast. Segja má að amma hafi ekki fylgt straumnum, heldur farið sínar eigin leiðir. Til að mynda hóf hún háskólanám á gamalsaldri og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur um sextugt, eitthvað sem ekki þekktist á þeim tíma.
Þegar ég var krakki bjuggu amma og afi í næstu götu og því stutt að fara. Þar var maður alltaf velkominn og ég man hvað mér fannst það ógurlega sorglegt þegar þau fluttu burt. Þau voru ófá tárin sem féllu þá. Þau fóru þó ekki mjög langt, aðeins í næsta hverfi eða í Sólheimana. Þar áttu þau góð ár saman þar til afi lést fyrir tíu árum síðan. Margar góðar minningar hafa fæðst þar, sem munu fylgja okkur ástvinum þeirra. Mikið eigum við öll eftir að sakna fjölskylduboðanna hjá ömmu í Sólheimunum. Ég hef alltaf verið stolt af því að eiga hana ömmu Möggu fyrir ömmu og þótt svo óendanlega vænt um hana. Hún var svo klár og flott. Hún hélt reisn sinni til síðasta dags, sem var alveg hennar stíll.
Elsku amma mín, ég kveð þig með grát í hjarta og fæ lánuð orð sem Halldór Máni bíður mér oft góða nótt með: Ég elska þig af öllu hjarta, tungli og sól og öllu því fallega sem er til.
Magga, Sverrir, Perla Sól, Halldór Máni og Valgerður Lilja.
Elsku amma mín,
mikið rosalega er erfitt að kveðja. Þrátt fyrir að ég viti að minning þín mun lifa í hjörtum okkar sem eftir lifa þá verður söknuðurinn mikill. Allar þessar yndislegu stundir sem ég var svo heppin að fá að njóta með þér mun ég geyma í minningunni og verð ævinlega þakklát fyrir.
Þú varst engin venjuleg kona. Fas þitt og hið góða skap var aðdáunarvert. Hlýjan og góðvildin sem stafaði frá þér var einstök. Dugnaður og gáfur þínar voru eftirtektarverðar. Það má með sanni segja að lífsleið þín hafi verið bæði merkileg og til fyrirmyndar.
Þegar Einar afi dó fyrir 10 árum síðan var missirinn einnig mikill. Þú sást þó um að halda fjölskyldunni alltaf saman og eru þær stundir sem við áttum í Sólheimum 25 ógleymanlegar. Nú hefur þú haldið í annan heim þar sem afi og fjölskylda þín mun taka á móti þér.
Elsku amma mín, það var svo gott að eiga þig að. Þú varst alltaf svo stolt af manni í öllu sem maður gerði og hvattir mann áfram. Ég var líka alltaf stolt af því að eiga þig sem ömmu. Nú kveð ég hins vegar með sorg í hjarta en þó einnig með gleði yfir að hafa kynnst jafn frábærri manneskju og þér.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Guð geymi þig.
Ásgerður Þórunn Hannesdóttir.