Lárus L. Sigurðsson rafvirkjameistari fæddist á Kvennabrekku , Miðdölum Dalasýslu 2. júní 1931. Hann lést 24. september síðastliðinn á heimili sínu Skúlagötu 20. Foreldrar hans voru Sigurður Ólafsson f.17. september 1889 d.14.janúar 1968 bóndi á Kvennabrekku og kona hans Ágústína Sigurðardóttir f. 16. nóvember 1895 d. 12. apríl 1988. Systur Lárusar voru Ingibjörg Þóra f. 6. desember 1917 d. 16. febrúar 2007, Valgerður Guðrún f. 31. maí 1919 d. 13. maí 2000 og uppeldisbróðir Haraldur Ragnarsson, f.13. júní 1928 d. 30. maí 1972. Lárus giftist 27. nóvember 1954 Jónínu Þorsteinsdóttur, leikskólakennara f. 12. júní 1936. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Kristjánsson, iðnrekandi f. 28. júní 1915 d. 20. ágúst 2006 og Sigríður Ásta Finnbogadóttir f. 4. desember 1913 d. 25. maí 1982. Börn Lárusar og Jónínu eru: 1) Sigríður Ásta f. 28.05.1955, maki Runólfur Gunnlaugsson f. 29.12.1953. Dætur þeirra eru: a) Elva Björk f. 19.03.1979 b) Ásta María f. 01.02.1985 c) Sunna Ösp f. 26.04.1991. 2) Ágústa f. 23.07.1958, maki Sigurður Þór Kristjánsson f. 30.01.1956. Börn þeirra eru: a) Atli Þór f. 16.12.1979, maki Sara Valný Sigurjónsdóttir f. 08.08.1981. Sonur þeirra er Sigurjón Þór f. 24.05.2006. b) Hrefna Lára f. 14.02.1987. 3) Þorsteinn f. 31.01.1960, maki Steinunn Eiríksdóttir f. 15.05.1960. Börn þeirra eru: a) Berglind f. 24.08.1982, maki Sævar Þór Rafnsson f.08.09.1981 b) Eiríkur Örn f.13. 05.1988 c) Nína Katrín f. 15.09.1991. 4) Sigurður f. 01.11.1968 maki Ásta Björk Ólafsdóttir f. 28.06.1972. Börn Sigurðar eru: a) Daníel Freyr f. 03.01.1992 móðir hans er Svanhildur Erla Benjamínsdóttir. b) Þórunn Birta f. 04.09.2001 móðir hennar er Sigríður Mjöll Marinósdóttir. Dóttir Ástu Bjarkar er Guðrún Ingibjörg Rósmundsdóttir f. 28.10.1994. Lárus hóf nám í rafvirkjun hjá Johan Rönning 1950. Hann lauk burtfararpróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953, sveinspróf 1954, meistarabréf 1959. Einnig sótti hann ýmis eftirmenntunarnámskeið. Hann vann rafvirkjastörf frá 1950-1981 hjá Johan Rönning, Ljósvirkja og Landspítalanum, síðan bankastarfsmaður. Hann var varamaður í stjórn Félags íslenskra rafvirkja og starfaði í skemmtinefnd félagsins. Einnig sat hann í samninganefnd fyrir rafvirkja og var trúnaðarmaður á vinnustað. Útför Lárusar fer fram frá Áskirkju í dag 5. október og hefst athöfnin kl. 13.00.

Elsku afi

Það var mikið áfall að fá fréttina um það þegar þú greindist með þennan illvíga sjúkdóm, þú Lalli afi sem alltaf varst svo hress og kátur.  Það tók sjúkdóminn ekki langan tíma að ná yfirhöndinni og þú varðst að láta undan. Eftir sitja ótal minningar um þann einstaka mann sem þú hafðir að geyma.

Alltaf var jafn notalegt að koma til ykkar ömmu á Ásveginn og nú síðustu árin á Skúlagötuna.  Skemmtilegt var að sitja með ykkur og hlusta á ykkur tala um gamla tímann. Þú hafðir einstaklega gaman að því að miðla þessari reynslu þinni af lífinu í gamla daga til okkar hinna og fórst þá allur á flug.  Seinni heimstyrjöldin var tímabil í mannkynssögunni sem þú varst sérfræðingur í enda sendi mamma mig beint til þín þegar ég gerði ritgerð um það efni í skólanum og fékk ég vitanlega hjá þér góða sögustund og bækur að láni til að nota við ritgerðarsmíðin.

Þú varst alltaf hress og hraustur þar til veikindin fóru að herja á þig og minnist ég þess þegar þú varst komin á fjórar fætur um síðustu jól til að leika við Sigurjón langafabarnið þitt, og veit ég ekki hvor skemmti sér betur þú eða hann.

Ég á eftir að sakna þín mikið elsku afi, sakna þess að heyra ekki allar sögurnar þínar um gömlu tímanna, sakna þess að heyra ekki tístið í þér þegar þú hlærð og sakna þess að sjá ekki brosið þitt og hvernig augun nánast hverfa um leið og sakna þess að fá ekki knús frá þér.

Ég minnist allra góðu stundanna sem ég átti með þér og mun geyma þær í huga mínum um ókomna tíð.

Ég vil kveðja þig afi minn með þessu fallega ljóði sem mér finnst segja svo margt:

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þí,

Ásta María