Sigrid Toft Sigrid Luise Solveig Elisabet Toft fæddist í Reykjavík 12. desember 1924. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Seyðisfirði, þriðjudaginn 15. september sl. Foreldrar hennar voru Christine Toft (fædd Harms) f. 3.12.1903 í Gros Grönau í Þýskalandi og Hartwig Toft kaupmaður f. 8. 12.1900 í Ǻbenrå á Suður Jótlandi. Systur Sigrid eru Irmgard f.1934, maki Leo Munro (látinn), Margrét Kristine f. 1943, maki Björn Þór Ólafsson og Anna Luise f. 1946, maki Indriði Indriðason. Árið 1944 giftist Sigrid Einari Þorsteinssyni, f. 7.11.1919, d. 9.6.1982. Börn þeirra: 1) Kristín f. 11.1.1949, maki Kristján Már Sigurjónsson, f. 1946. Börn: a) Einar f. 1969 og b) Dagur f. 1980. 2) Guðrún f. 21.9.1950, maki (skildu) Valdimar Elíasson f. 1949. Börn: Aðalheiður f. 1970, b) Guðmundur f. 1979, c) Sigríður f. 1982, d) Magnús f. 1985 og e) Pálína f. 1987. 3) Helga f. 8.7.1952 d.8.10.1970 og 4) Þorsteinn f. 23.5.1955, maki 1 Jóna Óskarsdóttir f. 1956, börn þeirra: a) Helga Lyngdal f. 1974 og b) Einar f. 1976, maki 2 Bryndís Richter f. 1961, börn þeirra a) Harpa f. 1986, b) Jóhanna f. 1989 og Vikar f. 1998. Sigrid fæddist í Reykjavík en faðir hennar starfaði hér á vegum verslunar Braun. Þau bjuggu um skeið á Jótlandi en fluttust alkomin til Íslands árið 1930 og bjuggu í Reykjavík. Árið 1949 fluttu Sigrid og Einar til Keflavíkur. Þau skildu árið 1970. Árið 1974 giftist hún Magnúsi Pálssyni f. 28.10.1926 og fluttust þau til Egilsstaða árið 1978. Sigrid tók próf frá Verslunarskóla Íslands árið 1942. Sigrid starfaði m.a. við verslun föður síns í Reykjavík, hjá Pósti og síma, verktakafyrirtækinu Hlaðbæ og Verslunarmannafélagi Austurlands. Hún var virk í félagsstarfi, var formaður Systrafélags Keflavíkurkirkju og formaður Kvenfélagsins Bláklukkunnar á Egilsstöðum um árabil og varð heiðursfélagi þess árið 2004. Börn Magnúsar eru Eygló, Eymundur og Steinarr og hafa þau öll verið Sigrid náin sem og börn þeirra. Útför Sigrid fer fram frá Egilsstaðarkirkju föstudaginn 25. september kl. 14.

Þegar við systkinin minnumst Siggu Toft er okkur efst í huga hlýja og þakklæti. Kynnum okkar af Siggu og fjölskyldu hennar á Hringbrautinni verða ekki gerð viðhlítandi skil í fáum orðum, en þegar við horfum til baka verður ljóst hversu dýrmæt þau voru. Það sem hæst ber í minningunni er einstakt samband fjölskyldna okkar í Keflavík, allar götur frá því að þær fluttu þangað skömmu fyrir miðja síðustu öld. Foreldrar okkar skiptust á heimsóknum og gagnkvæm fjölskylduboð voru á öllum hátíðum. Mæðurnar skiptust iðulega á að líta eftir krökkunum þegar veikindi eða fjarverur gerðu foreldrunum erfitt fyrir. Þannig höfum við systkinin öll einhvern tíma gist hjá Siggu í lengri eða skemmri tíma, ýmist sem lítil kríli eða svolítið stálpaðri.

Við munum öll eftir að hafa setið í fanginu á henni, hún hafi baðað okkur, gefið að borða, þurrkað tárin þegar eitthvað bjátaði á og breitt yfir okkur sængina að kvöldi. Þá kom einnig fyrir að eitthvert barna Siggu eða jafnvel öll gistu hjá okkur og þá sváfu jafnvel átta stykki í einni bendu. Ekki var tiltakanlega stutt á milli heimilanna en vegna þess hve samgangurinn var mikill, héldu önnur börn yfirleitt að þau væru frændfólk okkar. Þegar haldin voru barnaafmæli heima hjá okkur mættu að sjálfsögðu vinir og kunningjar úr næstu húsum, Stína frænka og hennar börn og svo Sigga og hennar börn.
Þessi einstöku tengsl við Siggu og hennar fjölskyldu voru mikils virði og víst er að persónuleiki Siggu átti stóran þátt í þessum frábæru samskiptum. Hún hafði ótrúlega létta og ferska kímnigáfu, var hláturmild, jákvæð og einstaklega hlý manneskja. Greiðvikin var hún og aðstoðaði þegar á þurfti að halda. Gestrisni hennar var skemmtilega afslöppuð á danskan máta og sérstaklega var auðvelt að láta sér líða vel í návist hennar.
Eftir að Sigga flutti austur á land vorum við systkinin þar oft á ferðinni enda ættaróðal móður okkar ekki langt undan. Þá þótti sjálfsagt að líta við hjá Siggu og þiggja kaffisopa, kvöldmat eða jafnvel gistingu hjá þeim Magnúsi.
Eins og blómin fölna að loknu sumri kveður Sigga Toft jarðvist sína að hausti. Magnúsi eftirlifandi eiginmanni hennar, Kristínu, Guðrúnu, Þorsteini og fjölskyldum þeirra, sendum við samúðarkveðjur og þökkum ógleymanlegar samverustundir.


Sigrún, Sigmundur, Inga, Valborg og Valdemar Einarsbörn.