Birna Salómonsdóttir fæddist þann 11.apríl 1943. Foreldrar hennar voru Salómon Einarson f. 4.október 1914, d. 8.febrúar 2002 og Sigurbjörg Björnsdóttir, f. 10.mars 1923, d. 12.júlí 2004. Birna giftist árið 1966 Reyni Ásgrímssyni, þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Salómon Viðar, f. 1961, maki Þóra Lind Karlsdóttir, f. 1963. Börn þeirra: Reynir Viðar, f. 1987, Birna Björg, f. 1991 og Karl Cesar, f. 1993. Fóstursonur Salómons Viðars og sonur Þóru Lindar er Svavar Örn Eysteinsson, f. 1981, maki Steinunn Björnsdóttir, f. 1980, börn þeirra eru Jónas Breki, f. 1999 og Ásdís Svava, fædd 2007. Áður átti Salómon Viðar Gylfa Snæ f. 1984. Barnsmóðir Margrét Gylfadóttir, f. 1964. 2) Ásgrímur Víðir, f. 1970, maki Helga Þorsteinsdóttir, f. 1973. Börn þeirra: Þorsteinn Arnar, f. 1992, Petra Sigurbjörg, f. 1994 og Stefán Björn, f. 2008. Sambýlismaður Birnu er Georg Hermannsson, sem dvelur nú á hjúkrunardeild heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar. Birna ólst upp í Fljótunum í Skagafirði við gott atlæti foreldra sinna, sem og móðurömmu og afa. Hún gekk í barnaskólann að Sólgörðum og á unglingsárunum lagði hún land undir fót og settist á skólabekk í Reykholti í Borgarfirði. Árið 1960 flyst fjölskyldan suður í Kópavog þar sem þau komu sér vel fyrir í Löngubrekkunni. Birna stundaði almenn verslunarstörf, þar á meðal hjá Kron og í Sogaveri sem hún átti og rak um tíma. Birna fylgdi fyrri manni sínum um víðan völl vegna starfa hans, til dæmis bjuggu þau um tíma í Þorlákshöfn, Færeyjum, Danmörku og í Ísrael. Birna breytti um vettvang árið 1994 og hóf störf í Kópavogsskóla sem gangavörður. Nokkrum árum síðar flytur hún sig yfir í Foldaskóla þar sem hún sá um skólaeldhúsið og í kjölfarið flutti hún í Grafarvoginn, þar sem hún undi sér vel. Síðustu starfsárin starfaði hún í Rimaskóla, en varð að hætta fyrir aldur fram vegna heilsubrests. Birna var mikil hannyrðakona og liggja eftir hana margir munir, hvort sem það var prjón, hekl, útsaumur eða perlusaumur, allt lék þetta í höndum hennar. Hún hafði gaman að öllum söng, og þá sérstaklega karlakórum og harmonikkutónlist. Birna og Georg ferðuðust mikið saman síðustu árin, innanlands fóru þau á harmonikkumót og erlendis til sólarstranda og í borgarferðir. Sveitin hennar, Fljótin voru Birnu kær og eyddi hún frítíma sínum að miklum hluta þar. Börnin og barnabörnin gengu fyrir öllu hjá Birnu og hún var sjaldan ánægðari en þegar allir voru samankomnir hjá henni að borða góða matinn hennar. Birna lést þann fjórða júní 2009 og verður útför hennar gerð frá Barðskirkju í Fljótum þann 13 júní klukkan 11.
Hann var glæsilegur fjallahringurinn í Fljótunum laugardaginn 13. júní sl., þegar við nokkrir skólafélagar úr Reykholti fyrir hálfri öld, sátum í heimakirkjunni að Barði við útför skólasystur okkar, Birnu Salómonsdóttur. Það var eins og uppeldissveitin hennar væri að kveðja í sínu besta skarti, græn undan snjónum. Snillingarnir frá Álftagerði fylgdu okkur úr kirkjunni með söng sínum - skín við sólu Skagafjörður, skrauti búinn fagurgjörður.
Fyrir nokkrum árum tók hún sig til - ótilkvödd og tók að hóa okkur saman, gömlum skólasystkinum frá Reykholtsárunum og úr urðu frábærir fagnaðir. Sumir voru að hittast í fyrsta skipti eftir útskriftina. Aldrei var spurt um fé og fyrirhöfn og hvernig sem reynt var, fékkst ekki einu sinni að borga fyrir símann. ,,Ég hef bara svo gaman að þessu" var svarið. Og það voru ekki aðeins samkomurnar bæði í Reykjavík og Reykholti, sem skiluðu endurfundum og góðum minningum, heldur varð Birna að trúnaðarvini margra og fylgdist með lífsbjástri okkar í blíðu og sorg.
Hún deildi því með föður sínum, öðlingnum Salómon, að bæði bundust þau tryggðum við Reykholtsskóla eftir árin þar. Hún sagði mér m.a. frá því, að pabbi hennar hefði skrifað dagbók í skólanum og hún teldi þá bók best geymda þar á staðnum. Sú bók getur orðið frábær heimild við ritun sögu skólans sem nú er unnið að.
Í spjalli okkar bárust stundum í tal kringumstæður foreldra Birnu á efri árum og barátta fyrir viðunandi hjúkrun og aðstöðu þeim til handa. Þá skynjaði ég einstaka hugulsemi og tryggð Birnu við sína nánustu og hvern mann hún hafði að geyma. Öll hvíla þau nú hlið við hlið innan við sáluhliðið í Fljótunum fögru.
Skjótt var hún hrifin úr þessum heimi og þá kviknar spurningin sígilda - hvort er betra að eiga andartaki stutt eða bíða lengi sjúkur og gamall eftir kallinu. Einhvern veginn fannst mér þetta vera Birnu stíll.
Við gamlir félagar frá Reykholtsárunum, kveðjum Birnu Salómonsdóttur með miklum söknuði og vottum ástvinum hennar, dýpstu samúð.
Reynir Ingibjartsson
Það var fagurt í Fljótum hinn 13. júní sl. er Birna Salómonsdóttir var til grafar borin í Barðskirkjugarði við hlið foreldra sinna. Öll hafa þau hlotið þar leg á þessum fyrsta tug aldarinnar, foreldrar hennar háaldraðir og saddir lífdaga en hún sjálf mitt úr dagsins önn, skyndilega og ótímabært kvödd á fund skapara síns. Barðskirkja stendur í minni Flókadals sem er vestari hluti sveitarinnar. Þaðan sér niður í Haganesvíkina þar sem Birna ólst upp. Til norðausturs sér til fjallanna ofan austurhluta sveitarinnar. Þar eru enn miklar fannir í hlíðum þótt komið sé fram á sumar og minnir á að snjóþyngsli á vetrum hafa löngum einkennt þessa sveit. Þetta er í senn fagurt og stórbrotið og ekki að undra að Birna hafi unnað þessum reit öðrum fremur.
Nú í vor er rétt hálf öld síðan okkar fyrri vetri í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði lauk. Um hundrað nemendur á milli tektar og tvítugs stunduðu árlega nám í Reykholti og bjuggu nær allir á heimavist. Heimavistarskólar á þessum árum voru einangruð og þröng samfélög en með mikilli gerjun í gangi sem gjarnan fylgir nefndu aldursskeiði en einnig væntingum til þess sem framtíðin muni bera í skauti sér. Margir nemendanna voru langt að komnir úr fjarlægum héruðum, gjarnan af þeirri ástæðu að ekki var kostur á sambærilegu námi í heimabyggð en aðrir af löngun til þess að kanna nýjar lendur. Lengra að komnir nemendur áttu þessi yfirleitt ekki kost að komast heim í helgarleyfi því samgöngur voru ótryggar og fjallvegir oftar en ekki lokaðir um lengri eða skemmri tíma á vetrum. Að fara í heimavistarskóla í fjarlægu héraði var því æði langt úthald og jólafríið jafnvel eina tækifærið til heimferðar allan veturinn. Auðvitað gekk nemendum misvel að samlagast slíkum aðstæðum en yfirleitt tókst það ágætlega og reyndist þroskavænlegt. Flestir eiga góðar minningar frá þessum árum, nógu góðar til þess að ala með sér þá löngun að hitta aftur gömlu skólafélagana.
En eitt eru væntingar en annað að láta þær verða að veruleika. Árin höfðu liðið, nær þrír tugir, og hver sinnti sínu eins og gengur. Samfundir voru stopulir, háðir tilviljunum og breytilegum aðstæðum. En þá hringdi síminn og Birna var á línunni að kanna hug skólasystkina sinna til að hittast í einum hópi, hvað varð úr og í þó nokkur skipti síðan, alltaf að hennar frumkvæði; órjúfanlega tengt hennar nafni og persónu. Þessir samfundir hafa verið afar ánægjulegir, hvort sem þeir hafa varað eina kvöldstund syðra eða um helgi í Reykholti sem auðvitað var skemmtilegra. Nokkur misseri eru liðin frá því síðast var hitzt og enn var Birna farin að huga að samfundum og leita liðsinnis við að koma þeim til leiðar. En ...á snöggu augabragði ..... líf mannlegt endar skjótt. Aftur og aftur erum við minnt á þá staðreynd og einnig það að enginn veit hver næstur er. Fyrir nokkrum mánuðum stóðum við all mörg yfir moldum skólabróður okkar, grunlaus um hverjum klukkan glymdi næst, en Birnu gerðum við ráð fyrir að hitta aftur á næsta nemendamóti. Það fór á annan veg og enn hefur skarðazt í hópinn við óvænt fráfall hennar. Birna var þeim kostum búin sem prýða hverja góða manneskju. Hún gerði sér far um að fylgjast með okkur hinum, var meðvituð um hagi okkar margra og því betur sem eitthvað hallaðist á í tilveru sumra.
Við skólasystkin Birnu úr Reykholti minnumst hennar með söknuði og virðingu og þökk fyrir hennar líf og hennar elju við að halda hópinn. Ástvinum öllum eru færðar hugheilar samúðarkveðjur.
Jón G. Guðbjörnsson.