Karl Bóasson fæddist í Njarðvík í Borgarfirði eystra, 9. júlí 1925. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala laugardaginn 25. júlí sl. Foreldrar hans voru Bóas Eydal Sigurðsson, bóndi í Njarðvík og síðar í Reykjavík, f. á Eyvindará í Eiðahreppi í S.-Múl. 1. júní 1891, d. 20. maí 1968 og Anna Jakobína Ármannsdóttir, f. í Snotrunesi í Borgarfirði eystra 26. feb. 1892, d. 16. jan. 1989. Systkini Karls eru Gunnar Sigurgeir, f. 10. júní 1927, d. 10. október 2004, Sigurður, f. 13. feb. 1929, d. 11. júní 2008, Elín Guðný, f. 31. ágúst 1931, Ólína Aðalheiður, f. 19. okt. 1933, Árni Ármann, f. 17. sept. 1936, og hálfbróðir Karls, samfeðra, Ragnar, f. 18. maí 1918, d. 2. ágúst 1993. Karl kvæntist 7. ágúst 1948 Halldóru Jónu Stefánsdóttur, f. 28. júlí 1926, Foreldrar hennar voru Stefán Árnason Scheving, verslunar- og bankamaður á Seyðisfirði, f. á Hrærekslæk í Tunguhreppi í N.-Múl. 23. ágúst 1898, d. 1. nóv. 1963 og Sigríður Ragnhildur Haraldsdóttir, f. á Seyðisfirði 3. des. 1900, d. 10. júní 1990. Börn Karls og Halldóru eru: 1) Emil Brynjar, f. 4. jan 1949, kvæntur Sigrúnu Sigtryggsdóttur, f. 3. maí 1949, þau eiga 3 börn og 6 barnabörn. 2) Anna Sigríður, f. 14. júní 1952, gift Bjarna Rúnari Þórðarsyni, f. 30. júlí 1950, þau eiga 3 börn og 5 barnabörn. 3) Örn, f. 7. sept. 1955, sambýliskona Siriworraluck Boonsart, f. 29.des. 1971, þau eiga 1 barn, en fyrir á Örn 6 börn og 2 barnabörn. Karl stundaði nám í Íþróttaskólanum í Haukadal 1939-1940 og Lögregluskólanum 1946. Í lögreglunni í Reykjavík starfaði hann frá 1. nóv. 1946 til 1. des. 1985 er hann lét af störfum. Karl sérhæfði sig í því að opna og gera við skrár og lása og hafa margir notið snilli hans við að opna læstar dyr og hirslur þar sem lyklar höfðu glatast. Áður vann Karl ýmis störf, m.a. við smíðar, flísalagnir, málun, vélgæslu og leigubílaakstur svo eitthvað sé nefnt. Í frítíma sínum frá lögreglustörfum ók hann oft leigubíl og var ökukennari, en eftir að hann lauk störfum í lögreglunni, starfaði hann sem leigubílstjóri, þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Karl var mikill fuglaskoðari og hafði unun af að fylgjast með fuglum, ekki hvað síst á vorin. Einnig hafði hann gaman af lax- og silungsveiði og fór margar veiðiferðirnar. Ekki minnkaði það ánægjuna að veiða á eigin flugur, enda hafði hann yndi af því að hnýta veiðiflugur og bera þær glöggt vitni um vandvirkni hans. Útför Karls fer fram frá Neskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13.
Góður félagi og vinur Karl Bóasson tengdafaðir minn er fallinn frá eftir baráttu við illvígan sjúkdóm.
Ég horf´i út um gluggann og horfi á sólina bjarta
og hugsa um tímann er saman við áttum tveir hér.
Handan við vatnið er fegurð sem fjöllin þar skarta
fegurð er lýsir því besta sem fann ég hjá þér.
---
Ei gleymi þeim stundum er saman við bústaðinn byggðum
bústaðinn Aldin sem er þér í huga svo kær.
Allt sem við gerðum, með vandvirkn´i og alúð við tryggðum
svo ávallt það lit´i eins og gert hafi verið í gær.
---
Þingvallavatnið í logni nú glitrar og sólin björt skín
Og spegilmynd fjallanna ljósmyndin fagra og bjarta.
Í vísunum mínum er vináttukveðja til þín
vinar, sem ætíð mun næra mitt örlitla hjarta.
(BRÞ)
Þessar ljóðlínur urðu til er ég sat við gluggann á sumarbústaðnum og hugsaði til samverustunda okkar sem við áttum við byggingu bústaðarins Aldins á Þingvöllum.
Kalla Bó, eins og hann var oftast kallaður, kynntist ég fyrir rúmum 40 árum er ég kynntist Önnu dóttur þeirra Dóru og Kalla. Frá fyrstu tíð var mér afar vel tekið af þeim hjónum og hefur aldrei borið skugga á hlýju í minn garð og fyrir það vil ég þakka.
Kalli starfaði sem lögreglumaður í 39 ár en stundaði leigubílaakstur og ökukennslu í hjáverkum. Eftir að hann hætti sem lögreglumaður starfaði hann sem leigubílstjóri þar til hann hætti því kominn á aldur.
Kalli var greiðvikinn mjög og nei var varla til í hans orðaforða, ef hann var beðinn að rétta hjalparhönd. Það var sama hvort beðið var um að opna læstar dyr eða peningaskápa, þar sem lyklar höfðu týnst, þá vafðist það ekki fyrir honum. Flísalagnir, málun, fluguhnýtingar eða viðgerðir veiðihjóla, allt lék þetta í höndunum á honum. Hann hafði alla tíð unun af því að veiða lax og silung og margar veiðiferðirnar fór hann.
Mikill samgangur var á milli heimila okkar alla tíð og oft setið og spjallað. Kalli hafði gaman af að segja frá ýmsum atburðum liðinna ára, en starf sitt innan lögreglunnar ræddi hann ekki, þar var hann sem lokuð bók.
Börnin okkar hafa alla tíð verið tíðir gestir hjá afa og ömmu og var þá oftast boðið upp á heitt kakó og kringlu ásamt öðru bakkelsi þegar komið var í heimsókn.
Eftir að Halldóra tengdamóðir mín greindist með alzheimersjúkdóm fyrir allmörgum árum varð Kalli æ meira bundinn heima. Þegar að því kom að ekki var lengur hægt að annast hana heima fór hún inn á stofnun og hefur hin síðari ár dvalið á Hrafnistu í Reykjavík.
Fyrir um fimm árum var ákveðið að selja íbúðir okkar í Hafnarfirði og kaupa íbúðir í sömu blokk í Kópavogi til að auðvelda samgang.
Svo vel vildi til að hægt var að fá íbúðir á sömu hæð og bjó Kalli því í íbúð við hlið okkar síðustu æviárin, tæp 5 ár, en var í fæði hjá okkur.
Kalli og Dóra áttu sumarbústað á fallegum stað á Þingvöllum. Þar undi hann sér vel við veiði og að lagfæra bústaðinn.
Þegar þau árið 1998 ákváðu að selja, gátum við ekki hugsað okkur að missa þennan stað og keyptum.
Nú er kominn nýr bústaður í stað þess gamla og aðstoðaði Kalli mig við að innrétta hann, ganga frá rotþró, lóð og öðru því sem til þarf. Oft vorum við bara tveir á Þingvöllum og hafði hann mikla ánægju af þessu og naut þess tíma meðan heilsan leyfði.
Ógleymanlega 3ja vikna ferð fórum við til Spánar með Dóru og Kalla, börnum okkar Önnu og móður minni 1993.
Sumarið 2005 sigldum við með Kalla til Færeyja ásamt elsta barnabarni okkar og dóttur, en þá var Dóra orðin of veik til að fara með. Þar gistum við í sumarhúsi og keyrðum og skoðuðum eyjarnar í viku áður en siglt var heim á ný.
Ferð í Karabíahafið með félögum úr samtökunum Komið og dansið árið 2006 er ógleymanleg. Þar naut Kalli sín til fulls og höfðu samferðamenn okkar orð á því hversu gaman væri að hlusta á frásagnir hans. Oft sátu menn tímunum saman á dekki eða matsal skemmtiferðaskipsins og hlýddu á.
Síðasta ferð okkar Önnu með Kalla sem var í október sl. bar heitið Malta og Miðjarðarhafið. Eftir svona ferð hafði Kalli beðið lengi, og sagði að Miðjarðarhafið væri sá staður sem hann hafi lengi langað til að heimsækja.
Þessarar ferðar naut Kalli ekki sem skyldi, þar sem hann veiktist fljótlega í þessari 4ra vikna ferð og lá að mestu rúmfastur meðan á 12 daga siglingunni stóð.
Þegar heim kom greindist hann með illvígt krabbamein.
Þrátt fyrir veikindin gat hann búið heima í sinni íbúð, og nutum við samvista við hann, allt þar til hann var lagður inn á sjúkrahús 13. júlí sl. Það var í fyrsta skipti í 84 ár sem hann hafði lagst á sjúkrahús til dvalar, en hann lést á líknardeild Landakotsspítala 25. júlí sl.
Að leiðarlokum vil ég þakka Kalla samfylgdina og þá vináttu og tryggð sem hann hefur sýnt okkur Önnu og fjölskyldu okkar.
Megi minningin um góðan félaga og vin lifa að eilífu.
Blessuð sé minning Karls Bóassonar.
Bjarni Rúnar Þórðarson.
Ég elska þig svo mikið, mér finnst þú frábær og æðislegur afi.
Nú sit ég í náttúru Þingvalla og finn fyrir þér. Þingvellir voru yndi afa og sumarbústaðurinn Aldin sem er á Þingvöllum. Afi gaf honum það nafn.
Veiðimaðurinn Karl Bóasson vissi allt um veiði og átti mikið af flugum sem hann gerði sjálfur.
Honum þótti gaman að spjalla og fræða fólk um ýmis málefni og alltaf vildi ég hafa Kalla afa nálægt mér. Mér fannst gott að fara til Kalla afa til að fá hjálp, ráð og upplýsingar.
Oft týndi ég lyklunum, ég vissi aldrei hvað ég gerði við þá. Afi kom með lausn, að hafa húslyklana og bíllyklana saman á kippu, ég gerði það og hef aldrei týnt þeim eftir það.
Þegar ég var smá stelpa gaf ég afa tána mína, því hann vildi eiga hana.
Mér þótti kókómjólk góð og þegar ég var yngri gaf afi mér kókómjólk í afmælisgjöf. Auðvitað var hann líka með ömmu í gjöf en kókómjólkin var bara frá honum til mín. 7 ára fékk ég Barbie-hús frá Kalla afa og Dóru ömmu í jólagjöf, sem mig langaði svo mikið í.
Jólasveinn hafði komið til Kalla afa og og látið hann vita. Sama ár fékk ég dúkkustrák sem ég skírði Karl og kallaður Kalli í höfuðið á afa. Þegar ég var lítil og gefnar voru gjafir, talaði hann oft um að ég myndi fá sokka. Fallegt er að fá sokka í gjöf sagði hann, en ég vissi að þetta var grín, ég var byrjuð að þekkja Kalla afa. Afi var galdramaður þegar ég var yngri og galdraði hann oft nammi í poka. Hann lét nammipokann undir blað lyfti blaðinu og þá birtist nammi.
Ég passaði alltaf upp á að afi og amma settu skóinn út í glugga þegar ég var yngri því ég vildi að jólasveinninn gæfi þeim í skóinn. Afi setti skóinn út í glugga en fékk alltaf kartöflu því hann var svo óþekkur og fór alltaf svo seint að sofa. Kalli afi og Dóra amma voru mjög barngóð. Þau fengu börnin úr hverfinu í vinnu til sín þegar þau voru í Suðurhvammi. Börnin komu með litlu skóflurnar sínar og fengu verðlaun fyrir dugnað þegar þau voru að vinna í bílaplaninu á Suðurhvammi. Fyrir öskudaga voru þau búin að útbúa nammi í poka fyrir vel sungin lög. Keyptu af börnum þegar þau voru að selja og safna pening. Ég fékk flöskur frá þeim til að fara með í endurvinnslu og fékk pening fyrir. Jólaböll voru haldin hjá Kalla afa og Dóru ömmu fyrir börnin í fjölskyldunni, þegar jólaboð voru á Dunhaga og Suðuhvammi. Í Suðurhvamminum gerði ég tröppurnar í stiganum að Barbie-húsi og fataherbergið í húsinu var herbergið mitt. Undir stiganum var fullt af barnadóti. Afi átti einkaherbergi í húsinu sínu á Suðurhvammi, þar var lagður kapall, hnýttar flugur, leystar krossgátur og margt annað sem afa þótti skemmtilegt að gera.
Kalli afi keyrði leigubíl, og fannst krökkum ég vera rík að taka leigubíl. Já ég var rík að eiga Karl Bóasson sem afa.
13. júlí sl. var hann að leggja kapal heima hjá sér í Rjúpnasölum og er ekki búinn með hann, en ég á eftir að klára kapalinn fyrir afa.
Síðasta stundin sem ég var með afa mínum var föstudagurinn 24. júlí sl. Síðustu orð mín til afa voru þannig að ég sagði bless elsku afi minn og gangi þér vel og afi sagði bless elskan gangi þér líka vel.
Við afi vorum alltaf í kappi að fara að sofa þegar ég var yngri. Hann sagðist ætla að vera á undan mér að sofna og þá flýtti ég mér að fara að sofa, svo afi myndi ekki verða á undan. Nú varð afi á undan að sofna og fara til Guðs. Lykla Pétur var í vandræðum, hann vantaði hjálp. Fékk Kalla afa til að hjálpa sér að opna lása. Afi hjálpaði fólki sem höfðu læst sig úti. Afi átti græjur til að opna hurðir og bjó þær til sjálfur.
Áður en afi fór á spítalann dreymdi hann bát heila nótt. Dreymi mann bát er það fyrirboði velgengni. Bátsferðin í draumnum var vegna þess að afi var svo heppinn að fá bátsferð til drottins.
Nú er sjúkdómurinn farinn og afa líður vel.
Fallegur texti frá Ingu Dóru til Kalla afa:
Lag: Guðs son kallar: Komið til mín
sálmabók 231
Sú náð, það líf, sem eilíft er,
til allra, Jesú minn, frá þér
við blessað borð þitt streymir.
Þín sæla návist seður þar
þá sál, er þyrst og hungruð var.
Þín elskan engum gleymir.
---
Þar er oss borin gjöfin góð,
þitt guðdómlega hold og blóð,
og sæll er sá þess neytir
með hjartans þrá og hreinni trú,
því honum æðstri blessun þú
á himnum með þér heitir.
(Björn Halldórsson.)
Bless elsku afi minn og gangi þér vel.
Kveðja,
Ingibjörg Dóra Bjarnadóttir.