Rósa Aðalheiður Georgsdóttir fæddist á Patreksfirði 26. febrúar 1919. Hún lést á sjúkradeild Hrafnistu í Reykjavík, fimmtudaginn 6. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Georg Grundfjörð Jónasson frá Hömrum í Grundarfirði, f. 7. ágúst 1884, d. 4. júní 1962 og Guðfinna Bjarnadóttir frá Haga í Staðarsveit, f. 31. maí 1900, d. 24. október 1984. Þau eignuðust 14 börn og var Rósa Aðalheiður þeirra næstelst. Fyrir átti Georg eina dóttur. Rósa Aðalheiður eignaðist sex börn, fimm dætur og einn son, þau Sigríði Guðmundsdóttur, f. 13. apríl 1939, Kristínu Kjartansdóttur, f. 5. ágúst 1945, d. 3. maí 1947, Kristínu Björgu Kjartansdóttur, f. 6. júlí 1948, Jón Kjartansson, f. 25. september 1949, d. 5. júlí 2000, Ástríði Pétursdóttur Thorarensen, f. 31. júlí 1954 og Önnu Maríu Pétursdóttur, f. 19. janúar 1962. Afkomendur Rósu Aðalheiðar eru nú 47. Rósa Aðaheiður gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og lærði þar m.a. fatasaum. Sem ung kona vann hún við sauma og var mikil hagleikskona. Seinni hluta ævinnar var hún heimavinnandi húsmóðir ásamt því að taka þátt í ýmsum góðgerðarmálum. Rósa Aðalheiður studdi ýmiss líknarfélög og var ávallt mjög umhugað um þá sem minna mega sín. Hún stofnaði m.a. Kærleikssjóð Sogns árið 2004. Rósa Aðaheiður verður jarðsungin frá Áskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 15.

Í minningu ömmu Rósu - Heiðu frá Hlíð

Vor
Kvöldgeislar flæða um víkur og voga,
vitund mín skynjar þá fegurð og tign.
Húmslæður sveipast um himinsins boga,
hafaldan sefur í djúpinu lygn.

---

Vefur allt faðminum vornóttin þíða,
viðkvæm er kyrrðin sem ríkir hér ein.
Morguninn kemur með blæinn sinn blíða,
blómin öll vakna í dögginni hrein.

---

Sólin hún ljómar um gróandi grundir,
gleður hvert hjarta, sem komast má við.
Skógarins iðgrænu angandi lundir,
óma af þrastanna fagnandi klið.

---

Dalur og hlíðarnar skrúðinu skarta,
skínandi vordýrðin brosir til mín.
Við þessa fegurð þá fyllist mitt hjarta,
fögnuði og þakklæti, drottinn til þín.
(Heiða frá Hlíð.)

Elsku amma Rósa,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Kiddý og Sara.