Jóhanna Lárusdóttir fæddist í Borgarnesi 11. nóvember 1923. Hún lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 25. júní sl. Foreldrar hennar voru Jón Lárus Sigurðsson, f. 10. ágúst 1891, d. 26. júní 1962 og Marzibil Ingunn Jóhannsdóttir, f. 31. ágúst 1893, d. 5. október 1975. Þau bjuggu í Borgarnesi. Systkini Jóhönnu eru Unnur, f. 16. janúar 1928, og Sigurður Guðmundur, f. 7. ágúst 1936, kvæntur Auði Sesselju Þorkelsdóttir, f. 1937. Jóhanna giftist 25. ágúst 1945 Baldri Halldórssyni frá Búlandi í Arnarneshreppi, f. 15. janúar 1924 og hafa þau búið á Hlíðarenda við Akureyri frá 1951 og eignuðust þau 6 börn. Þau eru: 1) Ingvar, f. 21. mars 1943, kvæntur Jónínu Valdemarsdóttir, f. 1947, börn þeirra eru: a) Helga, f. 9. ágúst 1967, sonur hennar Elvar, f. 1988. b ) Baldur, f. 21. júní 1971, maki Sigríður Hrund Pétursdóttir, f. 1974, synir þeirra Kolbeinn Sturla og Starkaður Snorri, f. 2004. c) Guðrún Elín, f. 28. des. 1978, maki Anton Traustason, f. 1975, börn þeirra eru Berglind Nína, f. 2004 og Ingvar, f. 2008. 2) Ólafur Lárus, f. 11. febrúar 1946, kvæntur Jóhönnu Láru Árnadóttur, f. 1948. Börn þeirra eru: a) Geir, f. 17. maí 1966, kvæntur Dagný Diðriksdóttur, f. 1966, synir þeirra eru Grímur Óli, f. 1995 og Dagur Lár, f. 2001. b) Íris, f. 1. jan. 1972, dætur hennar eru Anita, f. 1990 og Shavonne Lára, f. 2002. c) Fjalar, f. 27. ágúst 1973, maki Jóhann Freyr Björgvinsson, f. 1973. 3) Baldur Örn, f. 4. júlí 1951, kvæntur Maríu Arnfinnsdóttir, f. 1953. Börn þeirra eru: a) Baldur Jón, f. 8. júní 1972, sambýliskona Harpa Ragnarsdóttir, f. 1978, dætur þeirra eru Anita Rut, f. 1992, Ragnhildur Inga, f. 1996, Freydís Ósk, f. 1997, og María Björk, f. 2003. b) Jóhann Lárus, f. 8. okt. 1975, sambýliskona Herdís Katrín Bjarnadóttir, f. 1979, börn þeirra eru Júlía Fanney, f. 1996, Baldur Freyr, f. 2004, og Elmar Bjarni, f. 2008. c) Henrý Þór, f. 30. sept. 1981, sambýliskona Arna Björk Baldursdóttir, f. 1986, synir þeirra eru Heimir Már, f. 2004 og Matthías Huginn, f. 2008. 4) Halldór Guðmundur, f. 18. apríl 1954, kvæntur Önnu Katínu Eyfjörð Þórsdóttir, f. 1958. Börn þeirra eru: a) Lára, f. 14. apríl 1970, sambýlismaður Valdemar S. Þórisson, f. 1970, synir þeirra eru Brynjar Ingi, f. 1987 og Halldór Georg, f. 1991. b) Sandra, f. 17. júlí 1979, sambýlismaður Jóhann K. Hjaltason, f. 1978, sonur þeirra er Hjalti, f. 2007. c) Karen, f. 26. apríl 1990. 5) Sigurður Hólmgeir, f. 22. mars 1960, sambýliskona Hildur Magnúsdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru: a) Katla f. 19. okt 1982, dóttir hennar Elísabet Sól, f. 2002. Selma, f. 15. febrúar 1988. Róbert, f. 10. ágúst 1995 og Sigríður Halla, f. 20. janúar 1997. 6) Ingunn Kristín, f. 28. maí 1962, sambýlismaður Helgi Pálsson, f. 1966, börn þeirra eru: a) Jóhanna Steinunn, f. 2. des 1983, sambýlismaður Björn Helgason f. 1978, sonur þeirra Ingvar Helgi, f. 2006. b) Baldur Helgi, f. 4. apríl 1991. c) Kristjana Íris, f. 18. okt. 1996. d) Silja, f. 16. apríl 1995. Útför Jóhönnu verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júlí, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Minning um ömmu.

Amma Jóhanna var besta amma sem hægt var að hugsa sér og nú er hún farin frá mér og okkur öllum, hún var búin að vera lasin en hún var svo spræk fyrir um einu ári síðan.

Hún mátti ekki fara frá mér, en nú er gott að vita að hún sé komin á góðan og öruggan stað og að henni líði vel.

Alltaf þegar ég hitti ömmu var hún vön að segja " æji faðmaðu mig nú" og þegar við vorum búnar að faðmast sagði hún  "nú líður mér strax betur". Nú vildi ég að amma væri hér svo ég gæti faðmað hana því mér líður ekki vel því ég sakna hennar svo.

Ég man þegar ég, mamma og Balli bróðir bjuggum hjá ömmu og afa í smá tíma þá var ég 5 ára, þá var svo gott að kúra á milli ömmu og afa í rúminu þeirra og halda í hendurnar á þeim og amma strauk mér um vangann og afi raulaði vísu.

Þegar ég byrjaði í skólanum þá gaf amma mér GSM síma svo ég gæti alltaf hringt í mömmu ef eitthvað væri að, hún hugsaði fyrir öllu.

Við vorum búnar að ákveða að þegar hún væri orðin frísk og kæmi heim þá ætluðum við að fara að prjóna saman því amma var svo flink að prjóna, en hún kom aldrei heim.

Hvíldu í friði fallega amma mín.

Ástarkveðjur

Kristjana Íris Árnadóttir.

Elsku amma.
Í mínum huga eiga amma og afi að vera eilíf. Þau hafa alltaf verið til staðar í lífinu. Í mínum huga eru þau alltaf eins alveg eins og ég man þau fyrst. Í minningunni áttu amma og afi heima í ævintýralandi. Þau áttu heima í sveit með öllum þeim ævintýrum sem sveitinni fylgidi og ekki nóg með það, afi smíðaði báta í skemmunni og bara það, var veröld útaf fyrir sig. Ég naut þess að vera næst elsta barnabarnið og ég var stelpa, fékk að vera prinsessa. Ég man ekki eftir því að amma hafi nokkru sinni skammað mig eða ég hafi nokkru sinni gert neitt sem ekki var alveg ljómandi.
Það fer svo margt í gegnum hugann sem ég hefði aldrei upplifað og notið nema af því að þú varst amma mín. Þú kenndir mér bænirnar, fórst með Faðirvorið með með á hverjum degi þá daga sem ég var hjá þér, og ekki ófáar ferðirnar sem farnar voru að tína ullarlagða á girðingunum meðfram túnunum, það átti að nýta hlutina. Þú kenndir mér að prjóna og það eru ekki ófáar peysurnar sem þú prjónaðir um daganna. Þú varst ein sú mesta hannyrðakona sem veit um og það sem meira var þú varst jafn víg á saumvél, að prjóna, að hekla og sauma út. Þegar fyrstu Heklu úlpurnar komu varst þú ekki lengi með hjálpa afa að útbúa snið og við fengum Heklu úlpur. Það vari ekkert var of stórt eða ómögulegt að sauma.
Amma og afi hafa alltaf verið sem eitt. Það skein alltaf ást og hamingja úr augum þeirra og þau voru yndisleg við hvort annað, hreinlega sköpuð fyrir hvort annað. Þó svo að það væri alltaf stutt í Borgarfjarðarhúmorinn hjá ömmu.
Amma var úr Borgarfirði, alin upp í Borgarnesi og hitti afa þegar hann fór í nám í Bændaskólann á Hvanneyri og hann náði í sætustu stelpuna í Borgarfirðinum og hún flutti með honum norður á Akureyri. Þau eignuðust 6 börn. Hún amma gaf alltaf af sér en bað ekki um mikið til baka. Hún átti sex börn og fullt af barna- og barnabörnum og henni fannst hún rík af því að eiga alla þessa heilbrigðu afkomendur. Hún bað ekki um meira.
Elsku amma nú leggur þú af stað í ferðalag á góðan stað og munt halda áfram að passa okkur eins og þú hefur alltaf gert.

Drottinn er minn hirðir, mig mun
ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig
hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér...

(Úr 23. Davíðssálmi.)

Hvíldu í friði elsku amma mín.
Þín

Helga Ingvarsdóttir

Lifið er svo sérstakt.  Guð setur gott fólk á meðal okkur hinna og það er svo okkar ákvörðun að kynnast því og vonast til að læra eitthvað af því.  Ein af þessu góða fólki var Hanna frænka mín, hún var einstök og yndisleg kona og fá að umgangast hana var mér ómetanleg  gjöf.  Það var sérstök vinátta á milli okkar, mér leið alltaf eins og ég væri að tala við allra bestu vinkonu mína þegar við spjölluðum saman.  Innst inni hef  ég alltaf vilja líkjast henni  þessu ljúfmenni. Viljinn er fyrir hendi svo nú þarf ég að stíga í rétta átt.

Hún Hanna frænka var alltaf vel til höfð og brosandi, hún var alltaf með einhverja handavinnu í gangi. Hún var vinkona mín frá því ég man eftir mér og heimsóknir hennar til okkur til USA voru alltaf svo skemmtilegar enda  var alltaf skemmtilegt í hennar nærveru.  Hún fyllti húsið okkar með gleði og hamingju og ég óskaði þess alltaf að hún þyrfti ekki fara aftur heim til sin þegar hún var í heimsókn hjá okkur.

Síðasta heimsóknin hennar til USA kom hún og amma og voru hjá mér og fjölskyldu minni.  Að hafa þær systur var alveg yndislegt, þær voru til í allt, ískalda sundlaug, heitan pott  og versla,  en mest voru þær þó til í að vera bara saman úti á veröndina og prjóna og tala saman. Vináttu þeirra systra var dýrlegt að upplifa.

Eftir að ég og fjölskyldan mín fluttum aftur til Íslands strengdi ég þess heit að fara alltaf til Akureyrar einu sinni yfir sumarið.  Ég vildi sjá og umgangast elsku Hönnu frænku og hennar eiginmann sem var henni svo góður og ljúfur í rúm 60 ár.  Þegar komið var til Akureyrar, var farið beinustu leið upp á Hliðarenda til að heilsa upp á þau hjónin Hönnu og Baldur og þá fannst manni að maður væri komin til Akureyrar.  Við hjónin gátum setið og talað við þau yfir kaffibolla í marga klukkutíma um allt milli himins og jarðar og skipti hún þá gjarnan út kræsingum  á meðan að kaffiboðinu stóð.

Hún var svo hlý og góð og ánægð með Baldur, sinn mann, og eins og hún sagði var hún alltaf að bíða eftir honum enda var hann duglegur  að vinna en kom heim í kaffitímum  og matartímum.  Hún var alveg einstaklega klár í höndunum og prjónaði verðlaunapeysur á skyldmenni sín. Það var alveg yndislegt að sjá alla sem hún hafðir prjónað peysur á í kirkjunni þegar verið var að kveðja hana.

Frænka þú breyttist ekkert í mínum minnum öll árin þau ár sem ég þekkti þig.  Takk fyrir að vera líka svona yndisleg við Bjössa minn og strákana, að vera nálægt þér var besta gjöf sem ég upplifði. Ég veit að þú ert í góðum höndum hjá Guði en ég vildi að þú værir enn uppi á Hlíðarenda og ég gæti fengið að drekka með þér kaffi í sumar. Börnin þín eru svo yndisleg og maður vonast til að geta ræktað tengsl við þau meira núna þar sem við eigum mikið sameiginlegt, en það er að hafa þekkt yndislegustu konu í heimi.

Ég sakna þín svo mikið og ég mun biðja fyrir Baldri og aðstandendum þínum sem nú hafa þig aðeins hjá sér í anda.Bless elsku  Hanna frænka.

Jacalyn Fia Grétarsson