Njáll Skarphéðinsson fæddist á Selfossi 23. apríl 1960. Hann varð bráðkvaddur í sumarbústað fjölskyldunnar föstudaginn 24. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Skarphéðinn Sveinsson húsasmiður, f. 5.10. 1934, og Íris Bachmann Haraldsdóttir verslunarkona, f. 20.7. 1940. Bræður hans eru Haraldur, f. 3.9. 1963, kvæntur Eygló Lindu Hallgrímsdóttur, f. 25.9. 1968, þau eiga tvær dætur, Írisi Bachmann og Margréti Leu Bachmann, og Sveinn Skorri , f. 4.8. 1967, kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur, f. 2.10. 1970, þau eiga tvö börn, Andra Má og Andreu Maríu. Hinn 4. nóvember 2000 kvæntist Njáll Hrefnu Sigurbjörgu Jóhannsdóttur lífeindafræðingi, f. 29.9. 1972. Foreldrar hennar eru Jóhann Guðjónsson, f. 4.9. 1942, og Hallgerður Linda Pálmadóttir, f. 9.7. 1949, d. 12.5. 1996. Börn Njáls og Hrefnu eru: Illugi, f. 13.2. 2000, Hrafntinna, f. 21.2. 2003, og Hallgerður, f. 28.2. 2009. Fyrri kona Njáls var Jónína Hugborg Kjartansdóttir, f. 15.12. 1963, d. 16.1. 1998. Synir þeirra eru: Kjartan Hreinn, f. 14.7. 1987, og Skarphéðinn, f. 8.2. 1990. Hrefna gekk þeim í móðurstað og ættleiddi þá. Einnig gekk Njáll bræðrum Jónínu í föðurstað, þeir eru Sigurbjörn Snævar Kjartansson, f. 5.1. 1969, kvæntur Wichuda Buddeekham, f. 29.2. 1962, þau eiga eina dóttur, Áslaugu Dóru, og Jóhann Bjarni Kjartansson, f. 12.1. 1976, unnusta Borghildur Sverrisdóttir, f. 18.5. 1974. Njáll ólst upp á Selfossi og gekk sína skólagöngu þar en fluttist í Kópavoginn 2001 og bjó þar til æviloka. Hóf hann ungur að vinna í húsasmíði með pabba sínum og lauk sveinsprófi í húsasmíði 1981 og vann við þá starfsgrein til æviloka. Hann sérhæfði sig aðallega í lagningu og slípun á parketi. Seinustu árin sneri hann sér að byggingarstarfsemi. Njáll var formaður knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss árin 1990 til 1992 og vann mikið og fórnfúst starf fyrir deildina. Útför Njáls fer fram frá Selfosskirkju í dag, 5. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Njáll Skarphéðinsson, pabbi minn, hetja mín og besti vinur er dáinn. Þegar hann gekk í gegnum sín síðustu andartök hélt ég um hönd hans og reyndi að tala hann til lífs, hann hreinlega gat ekki dáið frá mér, það var óhugsandi. Ég hef aldrei fundið fyrir slíkri reiði áður. Þessari reiði beindi ég út í loftið, hún var stefnulaus og kæfandi. Ég blótaði heiminum og öllum þeim sem í honum búa. Mig langaði að brenna alla regnskóga, og þjóðfána ef þetta er heimurinn eins og hann er þá langar mig ekkert með hann hafa, hann getur ekki átt rétt á sér. Hvers konar réttlæti er það að taka mann eins og þennan frá okkur, maður sem er svo yfirfullur af reynslu? Hvað réttlætir það að þurfa að lifa án föður míns?
Þetta hugsaði ég.
Rétt eins og líf hans hafði tekið enda hafði mitt nú byrjað að molna niður; án hans er ég ekkert. Án handleiðslu hans og nærveru er ég allslaus. Hann var sá sem ég snéri mér til þegar mig vantaði ráðleggingar og núna hef ég engan. Engan til að hughreysta mig, engan til að kenna mér, engan til að segjast vera stoltur af mér. Ég var jafn dauður og hann. Svo gerðist það; þar sem ég sat einn með sjálfum mér og íhugaði hversu ósanngjarnt allt væri og hversu sterk og einlæg sorg mín væri og ávallt yrði, þá fann ég fyrir fullkominni ró. Ég hætti að skjálfa og fyrst þá gat ég opnað augu mín. Ég man ekki hver neistinn var, hugsanlega einhver minning um pabba, en ég efa það. Mun frekar leið mér eins og að einhverju nauðsynlegu hráefni hefði verið bætt í veruleika minn. Andardráttur minn varð svalur og rólegur og ég hætti að ana um, grátandi og leitandi að engu. Á þessu eina augnabliki ákvað ég að tileinka lífi mínu ekki endalausri melankólíu eða depurðar vegna atburðar sem er endanlegur. Slíkt er tilgangslaust. Ég fór að hugsa um allt það sem pabbi hafði kennt mér: hvernig einstaklingur hann hefði viljað að ég yrði. Depurðin hvarf samstundis.
Þetta hafði ekkert með það að gera að minnast góðu tímanna, sem ég gerði og mun gera, eða það að vegir guðs væru órannsakanlegir, heldur var þetta mun dýpri og merkari sannleikur. Á einni stundu skildi ég hvernig óreiðan virkaði, eða virkaði alls ekki, og um leið fylltist ég ólýsanlegri löngun ... löngun sem ég hafði aldrei fundið fyrir fram að þessu; aldrei áður hafði ég verið jafn yfirfullur af þeirri þrá að lifa lífinu, að gera rétt gagnvart öllum. Allir múrar sem áður sýndust óyfirstíganlegir urðu hjákátlegir, lélegir brandarar. Þessi grófi og ófágaði metnaður heltók mig og ég vissi sem aldrei fyrr að markmið mín væru í raun ekki hylling, heldur raunverulegir tímapunktar sem ég myndi einhverntíma finna mig á, eins og það væri óhjákvæmilegt. Frá þessu augnabliki hefur hver einasta sekúnda verið yfirfull af nýjum tilfinningum og hughrifum. Ég hef fundið fyrir barnslegum ótta þegar sólin sest, ótti sem ég hef ekki fundið fyrir í mörg ár, og með hverjum rauðvínssopa hef ég fundið ilminn af moldinni sem vínbersþrúgurnar þroskuðust í. Tilvera mín er einbeitt, ég fylgist betur með og þakka fyrir mig þegar við á.
Það má vel vera að þetta hljómi eins og að einhverju fargi sé af mér létt, og hver veit, kannski er það svo. Það eina sem ég veit er hver kenndi mér að takast á við stundir sem þessar og ég fylgi sannfæringu minni í einu og öllu. Ég er faðir minn, allt það sem hann kenndi mér og kynnti mig fyrir og einmitt núna þegar ég þarfnast hans hvað mest er ég fullkomlega öruggur í ákvörðunum mínum.
Ég mun aldrei hitta pabba aftur. Ég var sviptur mikilvægasta hluta tilveru minnar og þar sem tómarúm ríkti er eitthvað allt annað myndast. Mig langar að upplifa allt það sem veröldin hefur upp á að bjóða og sú tilhlökkun skelfir mig. En fyrst núna er ég að átta mig á að ég bý yfir verkfærunum til þess að geta það. Það eru áhöldin sem pabbi gaf mér, þau sem hann gaf mér og hjálpaði að móta með nærveru og ást sinni, ráðleggingum og skilningi. Pabbi kenndi mér að elska þennan heim, sama hversu gerræðislegur hann á til með að vera. Reiðin og hatrið sem ég fann fyrir hefur því að hluta til umturnast yfir í ást og skilning, en umfram allt yfir í forvitni og lotningu gagnvart lífinu.
Þessi skilningur minn er einungis mögulegur vegna þess að ég er faðir minn, fjölskylda mín er hann og allir þeir sem ég hef nokkurn tíma kynnst eru hann ég sé pabba í öllum. Ég sé nú að tilgangsleysi og óreiða er einungis orð orð yfir ekki neitt. Þau þýða ekkert, tilgangsleysi þeirra er algjört þegar kemur að stundum sem þessum og það að velta sér upp úr þeim er tilgangslaust, glundroðinn er til og verður ávallt til staðar, fögnum honum, rannsökum og virðum; lífið er hvort eð er ekkert nema leiktæki sem við njótum, hamingjusöm án þess að vita aldrei nákvæmlega hvernig það virkar. Því ætla ég ekki að festa fætur mína í nýorpnu leiði pabba er ég stampa á því í reiði minni öskrandi Nei! nei! nei! Hann hefði ekki viljað að ég léti sorgina heltaka mig, frekar að ég héldi áfram að skoða heiminn, sama hvort það er grasflötin fyrir utan, fjallstoppar eða framandi lönd, héldi áfram að skrifa niður hugmyndir, berðist fyrir því sem ég trúi á, en umfram allt að treysta tilfinningum mínum, og það ætla ég svo sannarlega að gera.
Sorgin er síðasta gjöfin frá pabba, hún er mér nauðsynleg og ég elska hann enn heitar fyrir að hafa gefið mér lífið.


Nú angar húmið, vindur vakinn lætur
veifast sem ilmker sérhvert garðsins blóm;
kvöldið er full af sumri og söngvahljóm.
Seiðandi dans, og þungi um hjartarætur!
/
Veifast sem ilmker sérhvert sumarblóm;
nú svellur fiðla í hljóm við kvöl sem grætur.
Seiðandi dans, og höfgi um hjartarætur!
Himins dýrð er svöl sem kirkja tóm.
/
Nú svellur fiðla í hljóm við hjarta er grætur,
hjarta sem skelfist dauðans þunga róm.
Himins dýrð er köæd sem kirkja tóm;
kulnuð sól í myrku hafi um nætur...
/
Hjarta sem skelfist dauðans dimma róm
dvelur við liðna sæld sem meinabætur.
Kulnuð sól í svörtu hafi nætur...
Svipur þinn ljómar um minn helgi dóm.

(Hljómar Kvöldsins eftir Baudelaire
þýðing Helga Hálfdánarsonar.)

Kjartan Hreinn Njálsson.

Íris hringdi, við komum að Vöðlum, allt var breytt. Njáll var dáinn. Óskiljanlegt að þetta gæti hafa gerst svo skyndilega og miskunnarlaust.

Njáll átti hug og hjarta ömmu Margrétar og afa Haraldar á Selfossi, fyrsta barnabarnið, alltaf glaður og ekkert til sem hann vildi ekki taka þátt í.  Strákurinn var mikill fjörkálfur, kröftugur og hugmyndaríkur. Það var aldrei nein lognmolla í kringum hann.

Þegar hann varð eldri gerðist hann framkvæmda- og athafnamaður. Listamiður var hann eins og fleiri í fjölskyldunni.  Hann lét ekkert stoppa sig ef hann hafði trú á því sem hann vildi gera.

Þrátt fyrir annir og álag í vinnunni var frábært að sjá hvað Njáll var mikill fjölskyldumaður.  Hann vildi eiga mörg börn og hafa mikið fjör í kringum sig. Tók þátt í öllu sjálfur og ekki þótti honum það miður að standa við grillið og galdra fram veislumat í mannskapinn.

Hann ásamt Jónínu fyrri konu sinni höfðu gengið bræðum hennar, Sibba og Jóa í foreldrastað af mikilli alúð.  Sorgin kvaddi dyra í lífi fjölskyldunnar fyrir 11 árum.  Jónína dó af völdum krabbameins frá sonunum Kjartani og Skarphéðni og bræðrunum Sibba og Jóa.  Með mikilli samheldni foreldra og fjölskyldu komust þeir í gegnum þær raunir.

Njáll var svo lánsamur að kynnast Hrefnu og eignuðust þau þrjú börn, Illuga, Hrafntinnu og Hallgerði.  Fjölskyldan var saman komin til að fagna 22 ára afmælis Kjartans, njóta samveru hvors annars í sveitinni eins og oft áður í faðmi afa hans og ömmu. Veðrið var eins og best var á kosið og lífið virtist leika við fjöskylduna þegar skyndilega allt breyttist á svipstundu.

Við biðjum góðan Guð að styrkja þau öll. Minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar allra. Guð blessi þig frændi.

Elín Bachmann og fjölskylda

Það er mikill harmur að okkur kveðinn að Njáll Skarphéðinsson skuli vera búinn að kveðja þessa jarðvist aðeins 49 ára gamall og er sorg eftirlifandi fjölskyldu hans ekki hægt að lýsa með orðum, við vottum eftirlifandi ástvinum okkar dýpstu samúð.

Okkur langar að minnast vinar okkar Njáls Skarphéðinssonar örfáum orðum, en kynni okkar hófust á unglingsárum þegar þau Jónína urðu kærustupar. Með árunum styrktist sú vinátta en Njáll tók okkur, vinkonum Jónínu og þeirra fylgifiskum, opnum örmum og var heimili þeirra okkur oft einskonar félagsmiðstöð. Þar voru öll heimsins vandamál rædd og spáð og spekúlerað um framtíðina, og lagt var á ráðin um ýmsar ævintýraferðir í Þórsmörk og víðar, því útivist varð okkar sameiginlega áhugamál. Þau hjónin voru bæði ákaflega félagslynd, gestrisin og einstakir vinir, blessuð sé minning þeirra.

Snemma komu mannkostir Njáls í ljós þegar hann ásamt Jónínu stóðu frammi fyrir því að hún var búin að missa báða foreldra sína og sem stóra systir tóku þau yngri bræður hennar að sér. Njáll varð þannig aðeins um 25 ára aldur fóstufaðir tveggja drengja. Það var aldrei að finna hik á Njáli hvernig vinna bæri úr þessum erfiðleikum, þar sýndi hann mikla hjartahlýju, kjark og dugnað. Njáll var miklum mannkostum gæddur, hann var einstaklega jákvæður maður og hláturmildur svo hann smitaði útfrá sér mikilli gleði. Fyrir rúmu ári eftir jarðskjálftana í maí 2008 tókum við tal saman á Selfossi og skiptumst á fréttum af foreldrum okkar sem urðu fyrir skaða í skjálftunum, ... Hvað segirðu Njáll, missti mamma þín allan kristalinn sinn? Já, blessuð vertu, það fór alltsaman í mask ....... svo skellihló hann sínum stórkallalega smitandi hlátri og við hlógum bæði og leið betur á eftir með vissu um að auðvitað hefði þetta getað farið verr.

Já, sorgin kvaddi dyra aftur hjá Njáli, í ársbyrjun 1998 lést Jónína, aðeins 34 ára gömul, eftir áralanga baráttu við krabbamein. Þá stóð hann eftir með syni þeirra tvo, Kjartan Hrein 10 ára og Skarphéðinn 7 ára. Það voru erfiðir tímar en Njáll stóð alltaf heill og sannur í gegnum þá brimskafla sem lífið færði honum og einstakt að sjá hvað það var honum eðlislægt að hlúa að fjölskyldunni sinni, um það vitna börnin hans best. Hann var ekki maður sem barmaði sér og valdi ljósið og lífið og aftur fann hann ástina og lífið hélt áfram.

Árið 2000 gekk hann að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Hrefnu, og sama ár fæddist þeim sonurinn Illugi, lifandi eftirmynd föður síns, og 3 árum seinna fæddist Hrafntinna og nú í febrúar kom enn einn sólargeislinn hún Hallgerður litla, sem aðeins mun kynnast pabba sínum af afspurn. Það er sorglegt, en verkefni eftirlifandi ástvina er að umvefja og vernda hvert annað. Megi góður guð styrkja ykkur, fjölskyldu og ástvini Njáls í ykkar miklu sorg.

Blessuð sé minning hans.


Hverfur margt
huganum förlast sýn
þó er bjart
þegar ég minnist þín.
/
Allt er geymt
allt er á vísum stað
engu gleymt,
ekkert er fullþakkað.
(Oddný Kristjánsdóttir í Ferjunesi.)

Kristín og Magnús.

Fjölskyldumaður, glaðbeittur, vinnusamur og skemmtilegur var það helsta sem mér flaug til hugar er ég leiddi hugann að vini mínum og félaga Njáli Skarphéðinssyni til margra ára. Við kynntumst vel eftir að við hófum að starfa saman í kringum knattspyrnuna á Selfossi fyrir og upp úr 1990, eignuðumst síðan stráka í sitthvorum mánuðinum sem urðu síðar vinir og bekkjarbræður sem enn styrkti samband okkar. Njáll starfaði í stjórn knattspyrnudeildarinnar og síðar sem formaður, oft við erfið skilyrði, deildin fjárvana og stjórnarstörf á köflum vanþakklát en krefjandi, enda áhugamálið knattspyrnan sem dró okkur áfram. Frábærar samverustundir í kringum fótboltann á Selfossi, KSÍ þingin, ferðirnar á Arsenalleiki eða bara stundirnar heima á Birkivöllunum þegar farið var yfir málin og þau "leyst" á einstaklega hlýlegu og góðu heimili Njáls og Jónínu sem þá var eiginkona Njáls. Oft sátum við eftir leiki á Birkivöllunum og ræddum málin yfir einum öl en sama hvaða mál var reifað þá áttum við Njáll erfitt með að vera ósammála verandi stuðningsmenn Selfoss, Arsenal og sammála í pólitíkinni. En tíminn líður hjá, Njáll missir elskaða eiginkonu eftir langt veikindastríð frá tveimur yndislegum sonum, finnur hamingjuna á ný með Hrefnu, flytur í Kópavog á þrjú falleg börn og framtíðin blasir við. Hvað þá? Njáll hrifinn á brott í blóma lífsins og eftir sitja aðstandendur og vinir eitt spurningamerki um tilganginn? Ég á ekki svarið en eitt er víst að börnin fimm, eiginkonan, foreldrar, mágarnir, bræður og fjölskyldur sitja eftir og syrgja góðan dreng. Manni hefði nú þótt nóg um það sem á undan er gengið í fjölskyldunni systkinin Jónína, Sigurbjörn og Jóhann verða foreldralaus fyrir aldur fram og núna Kjartan og Skarphéðinn, og Illugi, Hrafntinna og Hallgerður föðurlaus. Ég bið Guð að blessa allt þetta fólk.

Ég vil fyrir mína hönd og okkar félaga í knattspyrnudeildinni þakka honum framlagið og sameiginlega vonum við að liðið okkar nái hinu langþráða áratuga langa markmiði um að komast í efstu deild í haust.

Það er skammt stórra högga á milli hér í okkar bæjarfélagi á þessu ári, margir ungir menn verið hrifnir á brott. En okkar sem eftir stöndum er að halda merki þeirra á lofti.

Kjartan Björnsson.

Þegar ég sest hér niður og hugsa um Njál þá eru fyrstu orðin sem mér dettur í hug: Hlátur, gleði og hraði. Af einhverju ástæðum fannst mér allt gerast svo hratt í kringum þig en einnig fannst mér ég alltaf vera brosandi eða hlæjandi þegar þú varst nálægt. Þetta eru þau áhrif sem þú hafðir á mig.

Það rifjast upp fyrir mér þegar við fórum saman til New York og vorum að verða of sein á tónleika, allir í hópnum drifu sig á tónleikana en ég, þú og Kristinn ákváðum að hlaupa 15 blokkir í Apple búðina til að kaupa I-pod fyrir börnin okkar í jólagjöf. Ekki nóg með það, heldur þurftum við að taka á okkur góðan krók því á vegi okkar í miðri New York birtist heil skrúðganga. Samtals urðu þetta því um 40 blokkir og við hlógum mikið á leiðinni, þurftum stundum að stoppa til að klára að hlæja áður en við gátum haldið áfram, þrátt fyrir þetta náðum við tónleikunum.

Þakka þér Njáll fyrir alla þá gleði sem þú færðir okkur sem í kringum þig voru.

Elsku Hrefna vinkona, megi Guð veita þér styrk, sefa sorg þína og fylla tómarúmið sem myndast hefur. Ástvinum votta ég mína dýpstu samúð.

Steinþóra Þórisdóttir.

Elsku hjartans besti vinur okkar hann Njáll er fallinn frá, hvernig má það vera, bráðhvaddur í blóma lífsins frá þessari yndislegu konu, henni Hrefnu vinkonu og fallega og góða barnahópnum þeirra á öllum aldri. Maður spyr sig hver er tilgangurinn þetta er svo ósanngjarnt, við sem héldum að hann væri ..stikk free.. eftir allt sem á undan er gengið í fjölskyldunni. Hann missti fyrri konu sína, hana Jónínu, úr brjóstakrabbameini þegar ég gekk með tvíburana mína, fyrir ellefu árum, hún var besta vinkona mín, blessuð sé minning hennar, og elsku drengirnir þeirra þeir Kjartan og Skarphéðinn urðu móðurlausir, og bræðurnir Jói og Sibbi sem Jóní og Njáll tóku að sér voru búnir að missa svo mikið. Svo aftur kemur sorgin, nú Njáll, hetjan þeirra allra, Jesús minn góður... hvernig er hægt að leggja svona mikið á börnin og okkur öll sem vorum svo heppin að þekkja hann og elska. Njáll var svo góður vinur, mikill huggari og úrræðagóður með eindæmum, hann sá alltaf leiðir út úr öllu og einnig inn í allt. Ég gleymi aldrei þegar hann sagði "lífið er eitt og stórt verkefni sem maður verður að takast á við ", sem er svo sannarlega rétt hjá honum. Þegar maður fær svona sorgarfrétir þá dofnar maður bara upp og leitar í að skoða gamlar myndir og lætur hugann reika, en er vissulega þakklátur fyrir allt sem við vorum búin að gera saman í gegnum tíðina og upplifa saman. En þarna þegar við hjónakornin flettum gömlum og nýjum myndum þá datt í fangið á okkur gömul og lúin sálmabók og opnaðist á sálmi 619 og við lásum saman einstaklega fallegan sálm sem átti aðeins of vel við, öll orðin sem okkur vantaði voru þarna ...svo falleg...og sönn...

Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
/
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
/
Héðan skal halda

heimili sitt kveður
heimilisprýðin í hinsta sinn.
Síðasta sinni
sárt er að skilja,
en heimvon góð í himininn.
/
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
/
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja' í friðarskaut.
(Vald. Briem.)


Elsku hjartans Hrefna vinkona okkar, Illugi Hrafntinna og Hallgerður litla, Kjartan og Eyrún, Skarphéðinn og Unnur, Sigurbjörn og Wichuda, Jóhann og Borghildur, elsku Íris og Skarphéðinn, Haraldur og Eygló, Sveinn Skorri og Ingibjörg, við biðjum guð og alla engla alheimsins að umvefja ykkur hlýju og senda ykkur allan þann styrk sem hægt er að senda til ykkar á þessum erfiðu tímum,

Ykkar vinir,



Sólveig Ósk Hallgrímsdóttir og Gísli Þór Guðmundsson, Kristey Briet, Haraldur, Írena Birta og Unnur Lilja.