Júlíus Kristján Thomassen fæddist á Ísafirði 8. júlí 1969, hann lést á heimili sínu þann 28. september síðastliðinn. Móðir hans er Ásthildur Cesil Þórðardóttir fædd 11. sept. 1944. Foreldrar hennar eru Aðalheiður Bára Hjaltadóttir fædd 11. okt. 1922 dáin 1. nóv 2000 og Þórður Ingólfur Júlíusson fæddur 4. ágúst 1918. Faðir: Freddý Thomassen Danmörku. Fósturfaðir er Elías Skaftason fæddur 18. júní 1944. Foreldrar hans eru Skafti Sigþórsson fæddur 10. Júlí 1911 dáinn 16.nóv. 1985 og Elín Elíasdóttir fædd 7. nóv 1909 dáin 14. jan 1989. Synir Júlíusar eru Þórður Alexander Úlfur Júlíusson f. 8. mars 1997, móðir hans er Jóhanna Ruth Birgisdóttir. Sigurjón Dagur Júlíusson f. 16. Júní, móðir hans er Sigríður Inga Sigurjónsdóttir. Systkini Júlíusar eru: Ingi Þór Stefánsson f. 26. júní 1967. Unnusta hans er Matthildur Valdimarsdóttir. Börn þeirra eru Evíta Cesil og Símon Dagur. Önnur börn Matthildar eru Sóley Ebba, Kristján Logi og Aron Máni. Bára Aðalheiður Elíasdóttir fædd. 6. sept. 1971. Unnusti hennar er Bjarki Steinn Jónsson. Börn þeirra eru Hanna Sól og Ásthildur Cesil. Skafti Elíasson f. 3. júní 1974. Eiginkona hans er Tinna Óðinsdóttir. Börn þeirra eru Óðinn Freyr og Sólveig Hulda. Önnur börn Skafta eru Júlíana Lind og Daníel Örn. Arinbjörn Elvar Elíasson f. 18. apríl 1968. Eiginkona hans er Marijana Cumba Barn þeirra er Arnar Milos. Júlíus ólst upp á Ísafirði, og bjó þar mestan hluta ævinnar. Hann vann ýmis störf um ævina svo sem við sjómennsku, fiskverkun og garðyrkju. Listin átti samt hug hans allan og var hann hagur á hin ýmsu nátturuefni, svo sem leður, tré og stein. Hann fékk ekki einungis útrás fyrir listhneigð sína í náttúrulistaverkum, heldur málaði hann einnig og teiknaði. Júlíus var mikill vinur vina sinna og í hjarta sínu góður drengur. Útför hans fer fram frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 10. október kl. 14.

Fallinn er frá fyrir aldur fram, góður drengur sem átti trausta vini í mörgum samferðarmönnum sínum og sakna hans nú með góðum hug.  Þrátt fyrir ógæfu sína hafði hann mikla mannkosti og óhætt að segja að Júlíus hafi verið sjálfum sér verstur.  Þó fíknin hafi oft haft yfirhöndina var alltaf grunnt á hinum góða dreng sem við minnumst nú.  Sá Júlli hreif með sér samferðamenn á öllum aldri, hjálpsamur, vænn og gefandi. Í skáldsögunni Sjálfstætt fólk dregur Kiljan upp mynd af Íslending, Bjart í Sumarhúsum, sem leggur allt upp úr fjárhagslegu sjálfstæði sínu en lítur síður til velferðar fjölskyldu sinnar.   Bjartur er firrtur umhyggju og væntumþykju um þá sem standa honum næst og í því felst ógæfa hans. Vegna baráttu sinnar reyndist Júlla oft erfitt að standa undir því sem Bjartur lagði mesta áherslu á, en það bætti hann rækilega upp með því sem helst skorti hjá Sumarhúsabóndanum og varð honum að fótakefli í lífinu.  Mannkosti eins og umhyggju og væntumþykju sem synir Júlíusar tveir nutu í mörgum samverustundum með föður sínum.  Það er ljóst að missir þeirra er mikill og þeim föðurmissirinn mikill harmur.

Mikill vinskapur varð með Júlíusi og afa hans, Þórði Júlíussyni sem saknar nú dóttursonar og félaga.  Oft mátti sjá þá vinina aka saman um götur Ísafjarðar, koma við í Edinborg, Gamla Bakaríinu eða Tjöruhúsinu til að fá sér hressingu. Var ljóst að þeir nutu samvista og félagsskapurinn var þeim mikils virði.  Missirinn er þó mestur hjá foreldrum og systkinum Júlíusar og sendum við þeim samúðarkveðjur.  Einnig átti Júlíus fjölmennan vinahóp sem sjá eftir glaðværum og vænum dreng sem öllum vildi vel. Hugur okkar er með þeim sem um sárt eiga að binda, fjölskyldu og vinum Júlíusar en sú góða minning sem hann skilur eftir handa okkur er huggun harmi gegn.

Fjölskyldan Silfurtorgi 1,

Gunnar, Kristín, Hafdís, Jón og Gunnar Atli.