Þórir Magnússon fæddist í Reykjavík 11. apríl 1937. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 7. júlí sl. Foreldrar hans voru Magnús Pétursson, ættaður úr Borgarfirði, f. 12. okt. 1905, d. 21. ág. 1965, og Jóhanna Magnea Sigurðardóttir, ættuð af Álftanesi, f. 4. feb. 1911, d. 29. jan. 1997. Systkini Þóris eru Sigurlín Ester, Gunnar Helgi, Grétar, Hulda og Hafdís. Þórir kvæntist 27. sept. 1958 Maríu Jóhannsdóttur frá Akureyri, f. 28. júní 1939. Foreldrar hennar voru Jóhann V. Jóhannsson, f. 24. ág. 1898, d. 3. feb. 1991, og Halldóra Kristjánsdóttir f. 11. apríl 1905, d. 5. des. 1991. Börn Þóris og Maríu eru: 1) Halldór, f. 22. júní 1960, fyrrv. maki Jane Alexander. Börn þeirra Viktoría, f. 1990, Elísabet, f. 1993, og Tómas, f. 1998. 2) Jóhanna Magnea, f. 4. júní 1962, fyrrv. maki Stefán Guðfinnsson. Börn þeirra: Guðfinnur Þórir, f. 1990, og Sunna Ósk, f. 1994. 3) Þórir, f. 18. mars 1970, maki Halldóra Kr. Valgarðsdóttir. Börn þeirra Alexandra Ýr, f. 1990, Arnar Daði, f. 1992, Auðunn Atli, f. 1995, og Alma Björt, f. 2005. Dóttir Þóris og Ingunnar Ragnarsdóttur er Ragna Heiðbjört, f. 9. júlí 1966, maki Kristján Guðmundsson. Börn þeirra Vilhjálmur Ragnar, f. 1988, Heiða Björg, f. 1990, og Hugrún Birta, f. 2000. Þórir hóf störf hjá Ísbirninum hf. að loknu grunnskólanámi og varð þar fljótlega vörubifreiðarstjóri. Eftir um 10 ára starf þar hóf hann störf hjá Bifreiðastöð Steindórs við leigubílaakstur, rútuakstur og bílaafgreiðslu og var þar í um níu ár. Þá fékk hann atvinnuleyfi á leigubíl og vann við það til æviloka, fyrst hjá BSR og síðustu árin hjá Hreyfli-Bæjarleiðum. Reyndar tók hann sér frí frá leigubílaakstri í nokkur ár og ók þá rútum fyrir Guðmund Jónasson hf. Þórir starfaði mikið fyrir Slysavarnafélag Íslands og þá aðallega Björgunarsveitina Ingólf. Hann var áhugamaður um stangveiði, skotveiði, skák og bridge. Útför Þóris var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 16. júlí.
Fallinn er í valinn félagi okkar góður Þórir Magnússon. Í mörg ár höfum við nokkur hjón haldið hópinn og kallað okkur árshátíðarhópinn sem kom til af því að allir karlmennirnir í hópnum óku hér áður fyrr á BSR. Eftir að við hættum akstri þar fórum við að halda okkar eigin árshátíðir með því að fara út fyrir borgina og gista á hótelum. Síðar bættust við sviðaveislur, ferðalög í sumarbústaði eða bara útilegur í íslenskri náttúru.
Í þessum hóp létu þau Þórir og Mæja ekki sitt eftir liggja og var Þórir t.d. hvatamaður að flestum þeim uppákomum sem hópurinn tók sér fyrir hendur. Í byrjun sumars tjáði Þórir okkur að hann hefði greinst með illkynja sjúkdóm, en eins og endranær þá ætlaði hann ekki að gefast upp og horfði bjartsýnn fram á veginn eins og ætíð.
Í enda júní s.l. héldu þau hjón heilmikla veislu í tilefni að sjötíu ára afmæli Mæju og var veislan haldin í sumarbústað þeirra hjóna í Þjórsárdal og var Þórir eins og alltaf hrókur alls fagnaðar og er gott að eiga þá minningu um hann. Þegar við kvöddum þau hjón daginn eftir og héldum heimleiðis bjóst ekkert okkar við því að við værum að kveðja Þórir vin okkar í síðasta sinn. Við í hópnum komum til með að sakna Þóris en mestur er söknuður Mæju og fjölskyldu hennar. Við biðjum guð almáttugan að styrkja Mæju og fjölskylduna alla á þessari sorgarstund.
Árshátíðarhópurinn.
Árni, Geiri, Gulli, Jón, Kristgeir, Óskar og eiginkonur.