Júlía Ólafsdóttir fæddist 20. júlí 1924 á Álftarhóli í Austur-Landeyjum. Hún lést 7. júlí síðastliðinn á Landspítalanum í Fossvogi. Hún var 9. í röð 12 systkina. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurbjörg Árnadóttir húsmóðir, f. 27.8. 1885, frá Miðmörk, Vestur-Eyjafjöllum, d. 28.10. 1975, og Ólafur Halldórsson bóndi, f. 16.8. 1874, frá Rauðafelli, Austur-Eyjafjöllum, d. 5.7. 1963. Systkini Júlíu eru; Óskar, f. 1911, d. 1989, Jónína Geirlaug, f. 1913, Engilbert Maríus, f. 1914, d. 1989, Laufey, f. 1915, d. 1999, Björgvin Árni, f. 1917, Unnur, f. 1919, Katrín, f. 1921, d. 1994, Rósa, f. 1922, Ólafía Sigurbjörg, f. 1927, d. 2008, Kristín, f. 1928 og Ágúst, f. 1930. Fósturforeldrar Júlíu voru Margrét Þórðardóttir, húsmóðir, f. 14.3. 1872, d. 12.1. 1947, og Ólafur Jónsson, bóndi, f. 7.11. 1872, d. 20.7. 1955 sem bjuggu á Leirum, Austur-Eyjafjöllum. Uppeldissystkini Júlíu eru; Guðrún María, f. 1908, d. 2000, Guðmundur, f. 1903, d. 1989, Jón, f. 1910, Kjartan Þórarinn, f. 1913, d. 1990, og Halldór Jón Guðmundsson, f. 1900, d. 1976. Eiginmaður Júlíu var Hjörleifur Már Erlendsson, f. 13.10. 1927, frá Reykjum í Vestmannaeyjum, d. 3.12. 1999. Foreldrar hans voru Erlendur Erlendsson veitingamaður, f. 1905, frá Giljum í Hvolshreppi, d. 1958 og Guðbjörg Oktavía Sigurðardóttir, húsmóðir, f. 1897 frá Eystri-Skógum, Eystri- Eyjafjallahreppi, d. 1977. Bræður Hjörleifs sammæðra; Páll, Óli Markús, Karl og Þórir Rafn. Systkini samfeðra; Sigríður Alda, Valgerður, Gísli, Erla, Jóhanna og Ingibjörg. Börn Júlíu og Hjörleifs eru; 1) Ómar, f. 16.7. 1947, 2) Hulda, f. 10.9. 1948, maki Owe Berlin búsett í Svíþjóð . Börn Huldu eru; Björn og býr hann í Svíþjóð, börn hans eru Emelie og Daníel og Júlía Árdís, maki hennar er Hörður, sonur hennar er Hallur. 3) Guðbjörg Alma, f. 26.12. 1949, maki Albert Erlingur Pálmason. Börn þeirra eru; Pálmi, Júlía Kristín, synir hennar eru Erlingur Bergmann og Gunnar Ríkharður, Þór og Elsa, dóttir hennar er Rakel Eir. Þau Júlía og Hjörleifur slitu samvistir. Júlía vann mestan hluta starfsaldurs síns hjá Flugfélagi Íslands, ásamt fatasaumi og ýmsum hannyrðum. Júlía var ljóðelsk og sanntrúuð kona, m.a. voru hennar uppáhaldsskáld Einar Ben. og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Júlía bjó yfir 50 ár ævi sinnar á Kleppsvegi 4, ásamt syni sínum. Útför Júlíu fór fram í kyrrþey að hennar eigin ósk frá Fossvogskapellu hinn 17. júlí 2009, jarðsett var í Gufuneskirkjugarði. Bragi Skúlason jarðsöng.
Elsku mamma mín, mig langar til að þakka þér fyrir allt það góða sem þú veittir
mér í lífinu bæði sem móðir og góður félagi. Megi sú birta og ljós sem fylgdi þér, verða þér sem leiðarljós í nýja heima. Mig langar til að kveðja þig með þessum fallegu ljóðlínum eftir eitt að þínum uppáhalds skáldum.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist, er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
(Davíð Stefánsson.)
Megi þú hvíla í friði eftir langt og strangt en ánægjulegt líf.
Bless mamma mín. Guð geymi þig.
Þinn sonur,
Ómar.
Elsku amma mín.
Minning þín er ljós í lífi mínu. Mig langar til að þakka þér fyrir samfylgdina. Þú varst fyrir mér amma og einnig mjög góður vinur, þú leiðbeindir mér á svo margan hátt . Þú varst trúuð kona en fórst svo vel með trúna , þú varst ekki öfgafull í þér varðandi hana. En þú lést mig samt sem áður vita að í trúnni gæti ég leitað styrks á erfiðum tímum og beindir mér á þá braut að nota bænina alla daga í gegnum lífið. Læddir að mér bréfi með fallegri bæn til að hafa með mér til hliðsjónar og sagðir "Stína mín, það er hægt að biðja til guðs án þess að leggjast á bæn í vissar stellingar, þú getur beðið hvar sem þú ert án þess að allir taki eftir því, því að guð tekur eftir að þú talir við hann." Þú varst minn vinur hin síðari ár þó svo að sjálfstæðisbaráttan hafi verið svolítið sterk á meðan ég var á yngri árum . Og ég var nú ekki alveg til í að láta segja mér hvernig væri best að fara fram í lífinu. Þó náði það að lokum inn og ég fór að meta þig, þú hafðir skilning á erfiðleikum þar sem þú hafðir reynt þá sjálf. Það var gott að tala við þig því að þú gafst þér tíma til að hlusta á mig. Við hringdumst oft á til að heyra um líðan hverra annarra og skipti aldur þar engu um og enduðum alltaf samtalið á að þú baðst guð að geyma okkur Gunnar. Og er hann nú farinn að segja það sama við mig ef hann kveður mig . Mín trú er að okkar samfylgd sé ekki lokið þó svo að lífið sé svo að við þurfum að kveðjast í bili og hugga ég mig við það . Það var mér mikils virði að fá að fylgja þér síðustu sporin þín í þessu lífi og fá að sitja hjá þér í þá viku sem þú þurftir að liggja á spítalanum, fá að hlúa að þér og kveðja þig almennilega áður en þú kvaddir þennan heim Þú varst glæsileg kona og einstök sál. Gunnar mun sakna að komast ekki í kakóið til þín þar sem honum fannst kakóið úr ekta súkkulaðinu hjá langömmu það besta, hann naut þess að koma með Ómari á sunnudagsmorgnum til þín. Ég mun sakna þess að fá þig ekki í matarboðin okkar saman þegar þú og Ómar komuð til mín og Gunnars, það var gaman að gefa þér að borða því að ég fann hvað þú kunnir að meta matinn sem ég eldaði. Ég mun halda því áfram með Ómari og þú munt haldast í minningunni hjá okkur um ókomna tíð. Ég er þakklát fyrir að þú fékkst friðinn og að þetta stríð þurfti ekki að vera langvinnt úr því sem komið var, því að ég veit að þú hefðir ekki viljað það. Megi guð varðveita þig á þinni för og við sjáumst síðar. Ég og Gunnar elskum þig amma mín og þökkum fyrir okkur.
Ömmubæn
Góði Guð kærleiksríki faðir.
Leggðu líknarhendur þínar yfir okkur,
læknaðu meinin okkar bæði andleg og líkamleg
og láttu varðenglana þína allt í kringum okkur,
svo ekkert illt geti hent.
Taktu reiði, angur, sorg og kvíða
út úr hugum okkar og hjörtum,
og fylltu þau af þökk og kærleika.
Ég bið í nafni sonar þíns.
Amen
Ljúfi drottinn lýstu mér
svo að lífsins veg ég finni.
Láttu ætið ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum)
Kærleikskveðja,
Júlía Kristín og Gunnar Ríkharður.
Hinsta kveðja til þín elsku mamma mín. Þótt þú sért farin til Guðs, þá á ég allan þann fjársjóð í hjarta mér sem þú fylltir af kærleika, réttlæti, vináttu, þolgæði, réttsýni, gleði, blíðu, góðleika, og baráttuvilja þér sé þökk fyrir allt og allt. Við hittumst aftur í himnaríki, hjá Guði vorum.
Mor, kära Mor
Så fattiga blir orden, när jag vill tacka Dig. Du bästa Mor på jorden, som varit allt för mig.
Elsku hjartans mamma mín,
ég hef elskað þig takmarkalaust, þú varst mér allt. Guð geymi þig um alla eilífð.
Þín,
Hulda.