Friðbjörg Steinþórsdóttir fæddist á Flögu í Þistilfirði 26. febrúar 1917. Hún lést á St.Franciskusspítala í Stykkishólmi 1. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sveinbjörg Pétursdóttir og Steinþór Pálsson. Systkini Friðbjargar voru, Þórhallur garðyrkjubóndi í Hveragerði, f. 29.1. 1914, d. 9.3. 1986. Eiginkona hans var Steinunn Guðrún Helgadóttir, f. 15.8. 1911, d. 29.6. 1988. Steinunn, f. 5.1. 1919, dó um eins árs gömul. Steinunn Sesselía, f. 29.3. 1921, d. 25.3. 2007. Eiginmaður hennar var Leó Jósepsson, f. 17.6. 1913, d. 7.3. 2000. Systkini Friðbjargar sammæðra, Lilja Kristjánsdóttir, f.12. 2. 1929. Eiginmaður hennar er Már Ársælsson. Fjóla Kristjánsdóttir, f. 28.10. 1931 d. 23.8. 1975. Eiginmaður hennar var Karl Andreas Maríusson, f. 21.4. 1925, d. 21.3. 1962. Pálmi Kristjánsson, f. 20.6. 1933, d. 17.11. 1997. Eiginkona hans var Elsa Georgsdóttir, f. 31.8. 1937, d. 12.5. 2003. Friðbjörg ólst upp hjá föðursystur sinni Láru Pálsdóttur og manni hennar Tryggva Hjartarsyni,13 ára fer hún sem matvinnungur og síðan vinnukona að Snartarstöðum í Núpasveit, eftir 6 ár þar ræður hún sig í vist, fyrst á Húsavík og síðan á Akureyri. Árið 1941 flytur hún til Reykjavíkur, og starfar í Iðunnarapóteki til 1949 en þá ræður hún sig til starfa í Reykjavíkurapóteki, þar vinnur hún næstu 29 árin. Hún lauk starfi í Breiðholtsapóteki 1986 er hún flutti til Stykkishólms, mágkonu sinni Steinunni til aðstoðar. Bjó Friðbjörg næstu 14 árin á Ægisgötu 1 í Stykkishólmi, þar til hún flutti í þjónustuíbúð á Skólastíg 14, og síðan á Dvalarheimilið. Útför Friðbjargar fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 9. október og hefst athöfnin kl. 14.
Elsku frænka er dáin, södd lífdaga.
Ég var um 10 ára þegar Friðbjörg frænka flutti til okkar í Hólminn og eftir það átti hún sama hlut í lífi okkar systra og amma okkar. Hvað skyldi kalla hana var ekki stórmál, hún var bara kölluð frænka af okkur öllum.
Ég var alltaf velkomin í litla húsið á Ægisgötunni og ávallt dró frænka fram eitthvað gott að maula, til dæmis súkkulaðidropa sem hún setti í lítil kínversk glös. Pönnsurnar hennar frænku voru í sérflokki, enda sykurinn settur beint á þegar þær komu af pönnunni. Ef vinkona kíkti með mér var sjálfsagt að hún kæmi inn, fengi súkkulaðidropa og við tækjum spil á stofugólfinu. Þegar ég varð eldri aðstoðaði ég hana stundum við þrif fyrir jól og páska og mátti hún þá ekki heyra það nefnt að skipt yrði um stöð í útvarpinu, það væri ekki víst að ég fyndi rás 1 aftur.
Ég átti erfitt með að skilja þessa vankunnáttu hennar varðandi útvörp og fannst þetta frekar hallærislegt en ekki var nokkru tauti komið við gömlu konuna. Ég á margar góðar minningar af samvistum við frænku enda liðu ekki margir dagar milli heimsókna til hennar.
Sumarið 1997 var haldið ættarmót norður á Þelamörk og varð úr að ég og kærastinn færum norður með frænku og yrðum henni innan handar. Ferðin norður var örlítið stressandi fyrir frænku enda fannst henni 25 ára snáði varla orðinn nógu gamall til að keyra. Við vorum rétt komin á staðinn þegar hún sagði að svona ungt fólk eins og við nenntum varla á ættarmót, rétti okkur talsverðan pening og sagði okkur að fara bara inn á Akureyri og kaupa okkur pissu. Þó hún væri ekki mikið inni í nútímanum var hún með það á hreinu að pissur væru fæði unga fólksins.
Eftir að ég varð fullorðin og flutti úr Stykkishólmi urðu heimsóknirnar stopulli, en alltaf var kíkt á frænku þegar við komum vestur. Þegar börnin mín fæddust var frænka kölluð langamma og var greinilegt að hún var frekar sátt með þann titil. Þegar ég stundaði nám í Kennaraháskólanum átti ég að taka viðtal við einhvern sem hafði alist upp í torfbæ. Ég hafði samband við frænku og hún var alveg til í að tala við mig þó hún skildi ekki hvað ég ætlaði að gera við upplýsingarnar. Orðið vefsíða sagði henni ekkert og það endaði með að við sættumst á að þetta væri ritgerð sem margir gætu séð í tölvunni. Við áttum góða daga þar sem við ræddum skipan torfbæjarins á Miðfjarðarnesi og harða lífsbaráttu. Ýmis önnur mál slæddust með í umræðuna mér til mikillar skemmtunar. Frænka hafði ákveðnar skoðanir á því sem var í fréttum og þeir sem stjórnuðu landinu fengu oft titla eins og snáðar og jafnvel skítbuxar ef þeir voru að gera einhver axarsköft að hennar mati. Frænka mín átti mjög stórt hlutverk í minni barnæsku og það er ég þakklát fyrir. Minningarnar eru uppfullar af hlýju og öryggi sem einkenndi litla húsið og tímaleysið sem ríkti þar.
Langþráð hvíld er fengin, Guð blessi minningu góðrar konu.
Auður Björgvinsdóttir.