Oddgeir Guðjónsson fæddist í Tungu í Fljótshlíð 4. júlí 1910. Hann lést föstudaginn 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, f. 20.3. 1872, d. 5.4. 1952 og Ingilaug Teitsdóttir, f. 4.8. 1884, d. 26.7. 1989. Systur Oddgeirs eru Guðrún, f. 17.3. 1908, d. 14.6. 2001, Sigurlaug, f. 8.6. 1909 og Þórunn, f. 11.8. 1911. Oddgeir kvæntist 2.5. 1942 Guðfinnu Ólafsdóttur ljósmóður, f. 19.7. 1922, d. 28.8. 2008. Hún var dóttir Ólafs Sveinssonar og Margrétar Steinsdóttur, bænda á Syðra-Velli í Flóa. Börn þeirra eru: 1) Guðlaug læknaritari á Hvolsvelli, f. 1945, gift Sigurði Sigurðssyni húsasmíðameistara, f. 1942. Börn þeirra: a) Elín Rósa, f. 1967, búsett í Reykjavík. b) Sigurður Oddgeir í Reykjavík, f. 1972, kvæntur Hallveigu Sigurðardóttur, f. 1963, sonur þeirra Sigurður Oddgeir, f. 2004. Dætur Hallveigar frá fyrra hjónabandi Þórhalla Mjöll og Rakel Sif Magnúsdætur, f. 1994. 2) Ólafur Sveinn dýralæknir í Ayton í Skotlandi, f. 1951, kvæntur Fionu MacTavish hjúkrunarfræðingi, f. 1956. Synir þeirra Geir f. 1988, og Brynjar f. 1989. Ólafur var áður kvæntur Elínu Margréti Jóhannsdóttur, f. 1952. Dætur þeirra eru a) Hulda f. 1970, gift Árna Jóni Eggertssyni, f. 1970. Synir þeirra Ólafur Þorri, f. 1996, Kjartan Bjarmi, f. 1998 og Elvar Breki, f. 2002. b) Berglind f. 1976, sambýlismaður Alexander Biesinger f. 1972. Synir þeirra Róbert, f. 2002 og Daníel, f. 2005. c) Arndís Finna f. 1978, sambýlismaður Niklas Johansson f. 1974. Sonur þeirra er Rasmus Bjarki, f. 2008. Oddgeir ólst upp í Tungu í Fljótshlíð. Hann var til sjós 1928-1941, vann sem smiður í Reykjavík 1941-1942 og tók síðan við búi af föður sínum vorið 1942. Oddgeir var hreppstjóri Fljótshlíðarhrepps 1959-1984, sat í stjórn Búnaðarfélags Fljótshlíðarhrepps 1946-1976, í stjórn Kaupfélags Rangæinga 1956-1980, formaður ungmennafélagsins Þórsmerkur, í skólanefnd frá 1954 og formaður 1958-1962, sat í sóknarnefnd, í stjórn Kirkjukórs Fljótshlíðar, var formaður Gróðurverndarnefndar Rangárvallasýslu, sat í sveitarstjórn Fljótshlíðarhrepps 1974-1982, í sýslunefnd 1977-1987, í sáttanefnd, sat í varastjórn MBF, formaður ritverksins Sunnlenskar byggðir og sat í útgáfustjórn Goðasteins. Þau Guðfinna fluttu á Hvolsvöll 1991. Oddgeiri var veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir fræðastörf og eflingu íslensks handverks árið 2003. Oddgeir stundaði fræði- og ritstörf, skrifaði greinar í Goðastein, á ljóð í Rangæskum ljóðum og samdi nokkur sönglög. Síðustu árin söng hann með kór eldri borgara á Hvolsvelli. Hann stundaði ættfræðirannsóknir, safnaði örnefnum og þjóðlegum fróðleik, sérstaklega um Fljótshlíðina. Hann hafði dálæti á Njálssögu og var fróður um Njáluslóðir. Oddgeir var hagleiksmaður og í seinni tíð vann hann smámuni úr tré og sótti námskeið í útskurði. Meðal starfa hans á seinni árum var að taka þátt í endurbyggingu á Breiðabólstaðarkirkju. Útför Oddgeirs verður gerð frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag, 22. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það var skömmu fyrir 1980 að fundum okkar Oddgeirs Guðjónssonar frá Tungu í Fljótshlíð bar fyrst saman. Ég var gestkomandi í Fjalli á Skeiðum, er Oddgeir bar þar að garði að ræða við Jón Guðmundson bónda og samnefndarmann í ritnefnd safnritsins Sunnlenskar byggðir. Ég mun hafa nefnt við hann, að ég hyggði á langa reiðferð um Fjallabaksleiðir og vildi fá leiðsögn hans inn Fljótshlíð. Ferðin komst svo á dagskrá sumarið 1981. Ég hringdi þá í Tungu og bar símtalið upp á sunnudegi. Fyrir svörum varð Guðfinna, kona Oddgeirs, og sagði mér hressilegri röddu, að Oddgeir væri við messu á Breiðabólsstað. Oddgeir var manna kirkjuræknastur og bar hag kirkju sinnar fyrir brjósti. Er í því sambandi í minnum haft, að hátt á níræðisaldri lagði hann kirkjunni fram alkunna smíðakunnáttu sína og vann af krafti við viðgerð og endurbætur á kirkjuhúsinu sem ungur maður væri. Af ferðinni varð og fylgdi Oddgeir okkur inn á Einhyrningsflatir. Undraðist ég staðþekkingu hans og ekki síður skilning á staðarlýsingum í Njálu.


Sumarið 1987 byggðum við hjónin sumarbústað þar sem heitir í Litla-Odda í Gaddstaðalandi á Rangárvöllum. Landið kringum sumarbústaðinn er svo rúmt, að þar má hafa allnokkra hesta sumarlangt og þar er kjörið land til útreiða. Á reiðferð kringum Þríhyrning rakst ég ásamt félögum mínum á merkilega rúst norðaustan undir fjallinu. Þessi rúst eða rústabunga var ekki merkt á aðgengileg kort. Ég gekk því í smiðju til Oddgeirs. Sagði hann mér, að staðurinn héti Innstusel og væru rústirnar af seli frá Kirkjulæk. Taldi hann (og raunar einnig á undan Oddgeiri Helga Skúladóttir, frá Keldum), að þarna hefði verið bærinn undir Þríhyrningi", sem margnefndur er í Njálu. Þarna myndu og Flosi og lið hans hafa farið upp í fjallið Þríhyrning, er þeir földust fyrir leitarmönnum eftir að hafa brennt inni Njál og hans fólk á Bergþórshvoli. Oddgeir hafði einnig fastmótaða skoðun á ferðum Flosa og hans manna austan úr sýslum, út á Rangárvelli og heim aftur. Eftir að hafa skoðað allt þetta í þaula er ég nokkuð viss um að skoðanir Oddgeirs í þessu efni fara nærri lagi.

Oddgeir var fyrst og fremst heimamenntaður, ef svo má að orði komast, þótt hann væri vissulega betur ritfær en margur maður langskólagenginn. Eftir hann liggur samt minna á prenti en skyldi. Það er því nokkur bót í máli, að eftir hann liggja þykkar skjalamöppur" svo sem Þórður Tómasson kemst að orði í minningargrein. Trúlega er hér heimildabrunnur, sem fróðskaparmenn munu lengi eiga eftir að sækja í.


Oddgeir var ætíð léttur, kátur og hress í tali og manni leið vel í návist hans. Hann var maður grósku og gróanda og gladdist yfir trjávextinum í Tungu, en þau Guðfinna seldu Skógræktinni jörðina, áður þau flyttust búferlum á Hvolvöll. Þá var það enn, að Oddgeir eltist með afbrigðum vel og hafði nær heila öld að baki, þegar yfir lauk. Mér er því aðeins birta í hug, þegar ég minnist þessa góða drengs.

Þorkell Jóhannesson.